20.10.2015 | 21:34
Hvernig þekkir maður þorska í sundur?
Hvernig þekkir maður þorska í sundur?
Hlynur Bárðarson flytur erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags. Erindið verður flutt mánudaginn 26. október kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.
Ágrip af erindi:
Rannsóknir á þorski (Gadus morhua) í Atlantshafi benda til þess að uppbygging stofna sé mun flóknari en áður hefur verið talið. Íslenski þorskstofninn er byggður upp af mörgum hrygningarhópum og erfðafræðilega mismunandi vistgerðum (e. ecotypes) sem sýna mismunandi farhegðun, ástand og vöxt sem leiðir til munar í kynþroskaaldri. Áhrif af veiðum geta hugsanlega leitt til ólíks veiðiálags milli hópa. Það getur haft alvarlegar afleiðingar að leiða hjá sér og taka ekki tillit til slíks stofnbreytileika. Það gæti leitt til fækkunar á hrygningarhópum, að smærri og viðgangsminni hópar hverfi og að erfðabreytileiki minnki. Af þessum sökum er mikilvægt fyrir fiskveiðistjórnun að innleiða aðferð til að greina á milli hópa.
Í doktorsverkefni sínu kannaði Hlynur hvort hægt væri að nýta útlit kvarna til slíkrar aðgreiningar á vistgerðum íslenska þorskstofnsins. Þetta var gert með því að hanna aðferðina með kvörnum úr gagnamerktum (e. Data Storage Tagged) þorskum sem, þar til nú, eru einu þorskarnir sem er hægt að greina til vistgerða. Aðferðin var einnig sannreynd með því að kanna samband milli kvarnaútlits og Pantophysin-erfðamarksins sem finnst í mismunandi tíðni milli vistgerða.
Niðurstöðurnar voru jákvæðar og aðferðin árangursrík í aðgreiningu vistgerða og opna þær á möguleikann á að greining á kvarnaútliti sé þar með hagnýtt af vísindamönnum við greiningar á íslenska þorskstofninum. Í þessu verkefni var einnig sýnt fram á að brotnar kvarnir geta verið nýttar til rannsókna á aðgreiningu stofna með því að líma þær saman aftur.
Hlynur Bárðarson fæddist 1982 og ólst upp á Selfossi. Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut og eðlisfræðibraut frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi 2002 og B.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands 2006 og M.Sc. gráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá sama skóla 2009. Hlynur varði doktorsverkefnið sitt við Háskóla Íslands 3. september síðastliðinn.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Erindi og ráðstefnur | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.