Leita í fréttum mbl.is

Menntamálaráðuneyti sveltir fagfélög

Mennta- og menningarmálaráðuneyti tilkynnti nýlega breytingar á úthlutun fjármagns til fagfélaga. Styrkir verða í framtíðinni aðeins veittir í sérstök verkefni sem eru ráðuneytinu þóknanleg eða í samræmi við stefnu þess.

Merkilegt er að frjálslyndi flokkurinn skuli standa fyrir slíkri forræðishyggju og stjórnræði. Fagfélög hafa stundað margþætt og lifandi starf, sem nærir fagstéttir kennara um allt land og skilar sér þannig í betri og upplýstari kennarastétt og vandaðari kennslu.

Að þessu tilefni sendi stjórn samtaka líffræðikennara frá sér bréf til ráðherra þar sem þessum fyrirætlunum er mótmælt. Bréfið birtist hér í heild sinni.

---

Reykjavík, 1. desember 2015
Til: Mennta- og menningarmálaráðherra
Efni: Rekstrarstyrkir til faggreinafélaga, MMR15090148

Í bréfi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu dagsettu 15. september 2015 segir

„Vakin er athygli á því að ráðuneytið hefur ákveðið að breyta verklagi við veitingu styrkjanna þannig að í framtíðinni verða þeir einungis veittir fyrir verkefni sem fagfélög eru fengin til að vinna fyrir ráðuneytið. t.d. til að fylgja eftir stefnu ráðuneytisins og forgangssviðmiðum.”

Samlíf, samtök líffræðikennara hvetja mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til þess að endurskoða þessa ákvörðun. Með þessari breytingu er faglegu sjálfstæði kippt undan faggreinafélögum auk þess sem þátttaka kennara af landsbyggðinni í stjórnarstarfi faggreinafélaganna er útilokuð.

Um leið og Samlíf þakkar fyrri styrki, gott samstaf og ítrekar að stjórnarmeðlimir og félagsfólk sé áfram tilbúið að vinna þau verkefni sem ráðuneytið kallar eftir teljum við mikilvægt að rekstrarstyrkir séu áfram veittir.

Árlegur styrkur til faggreinafélaga hefur verið 150.000 kr. undanfarin ár, hafði þá verið skorinn niður úr 800.000 kr. (var um tvenn mánaðarlaun kennara á ári) svo nú þegar er búið að setja starfsemi faggreinafélagins ansi þröngan stakk.
Rekstrarstyrkurinn hefur verið notaður til almenns rekstrar fag-félagsins eins og rekstrarskýrslur sem berast til ráðuneytis árlega sýna. Félagið er sameiningatákn líffræðikennara á öllum skólastigum, félagsfólk er frá leikskólum til háskóla. Félagið kemur að umræðu um kennslu í líffræði, heldur fundi um námskrárvinnu, námsefnisgerð, heldur úti heimasíðu og sendir árleg fréttabréf svo það helsta sé nefnt.
Stjórnarfólk starfar allt í sjálfboðavinnu.

Faggreinafélög hafa borgað ferðastyrki samkvæmt töxtum KÍ fyrir þá framhaldsskólakennara sem starfa fyrir félagið og búa utan höfuðborgar-svæðisins. Með niðurfellingu rekstrarstyrkja er þátttaka þessa hóps úti-lokuð.

Faggreinafélögin þurfa að hafa fjárhagslegt svigrúm til þess að vinna sem gagnrýnir og sjálfstæðir fagaðilar. Fagfélög hafa lagt sig fram um að eiga gott samstarf við yfirvöld menntamála um málefni sem á hverjum tíma þarfnast umræðu, faglegrar rýni og úrvinnslu.

Með bréfi þessu fer stjórn Samlífs fram á að ráðuneytið endurskoði ákvörðun sína varðandi styrkveitingar til faggreinafélaga og hækki styrkinn frekar en leggja hann niður.

Fyrir hönd stjórna Samlíf

Hólmfríður Sigþórsdóttir formaður


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Hvernig má það vera að "fagfélag" geti ekki haft ofan af fyrir sér sjálft? Samkvæmt lýsingu á starfseminni líkist hún einkaklúbbi.

Skattpeninga á ekki að nota til að einkaklúbbar geti Stundað "margþætt og lifandi starf". Til þess eru þeir of dýrmætir. 

Ragnhildur Kolka, 4.12.2015 kl. 16:28

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Ragnhildur fyrir ágæta spurningu.

Ríkið og sveitarfélögin eiga að vinna fyrir fólkið, til að leysa úr vandamálum og sinna sameiginlegum verkefnum, sem í samfélagi okkar er t.d. að mennta fólk, sinna veikum og halda friðinn.

Það eru nokkur batterí á vegum ríkisins og sveitarfélaganna sem sinna menntun, og á vegum þeirra starfa kennarar og fleiri. En hagsmunir ríkisins litast oft af stjórnmálum og fjárlagagerð, en kennarar horfa meira á faglega hlutann. Þú veist etv að kennarar eiga nóg með að kenna, en hafa sjaldnast aukatíma til að skoða stærri myndina. Þar koma fagfélög inn.

Fagfélög, eins og t.d. félag líffræðikennara, gefa kennurum vettvang til að fjalla um kennslu á afmörkuðu sviði (t.d. líffræði) - eða í öðrum tilfellum á víðara sviði (t.d. náttúrufræði). Þar geta kennarar farið yfir mál sem eru á döfunni, eins og breytingar á námskrá, styttingu skólarárs, innleiðingu tækni, aukið brottfall í framhaldskólum og háskólum.

Fagfélög, þ.e.a.s. fólk sem starfar innan þeirra, gerir þetta í sjálfboðavinnu !!!! en starfinu fylgir ýmis kostnaður.

Við að halda fundi, hýsa vefsíðu, senda bréf, senda fólk á fundi í öðrum fjórðungum eða löndum, bjóða erlendum sérfræðingum til landsins o.s.frv.

Miðað við að stjórnmálaflokkar með sárafá atkvæði á bak við sig fá tugmilljónir frá ríkinu, þá er fé til fagfélaga á sviði menntunar vel varið.

Arnar Pálsson, 8.12.2015 kl. 13:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband