Leita í fréttum mbl.is

Áhrif stað- og svæðisbundinna mótunarþátta á tegundafjölbreytni plantna í túndrulandslagi

Martin A. Mörsdorf

Mánudaginn 21. desember ver Martin A. Mörsdorf doktorsritgerð sína í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Áhrif stað- og svæðisbundinna mótunarþátta á tegundafjölbreytni plantna í túndrulandslagi (Effects of local and regional drivers on plant diversity within tundra landscapes).

Hvenær hefst þessi viðburður: 
21. desember 2015 - 14:00
Staðsetning viðburðar: 
Nánari staðsetning: 
Stofa 132

Andmælendur eru dr. Martin Zobel, prófessor í plöntuvistfræði og yfirmaður Rannsóknastofu um plöntuvistfræði í Tartu, Eistlandi, og dr. Gunnar Austrheim, prófessor við Náttúruminjastofnun NTNU í Þrándheimi, Noregi. Um er að ræða sameiginlega doktorsgráðu við Háskóla Íslands og Háskólann í Tromsø.

Leiðbeinandi var Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Einnig sátu í doktorsnefnd dr. Kari Anne Bråthen, dósent við Heimskauta- og sjávarlíffræðideild Háskólans í Tromsø, dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, dr. Virve T. Ravolainen, fræðimaður við Norwegian Polar Institute í Tromsø, og dr. Nigel G. Yoccoz, prófessor við Heimskauta- og sjávarlíffræðideild Háskólans í Tromsø.

Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent og varadeildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar, stjórnar athöfninni.

Samkvæmt norskum reglum um doktorspróf mun Martin Mörsdorf flytja próffyrirlestur undir heitinu: Áhrif svæðisbundinna þátta á staðbundna fjölbreytni plantna: kenningar, nálgun og sannanir, kl. 10.00 sama dag í Öskju, stofu 131.

Ágrip af rannsókn

Tegundafjölbreytni innan plöntusamfélaga (alpha) í túndru endurspeglar staðbundna mótunarþætti svo sem framleiðni búsvæðisins og beit stórra grasbíta. Vísbendingar eru um að stórir grasbítar geti einnig haft áhrif á fjölbreytni milli samfélaga (beta). Áhrif staðbundnu þáttanna kunna einnig að ráðast að hluta af tegundaauðgi svæðanna en um það er lítið vitað. Markmið ritgerðarinnar var að greina hvernig staðbundnir og svæðisbundnir þættir móta tegundafjölbreytni æðplantna í túndru.

Áhersla var lögð á að skilgreina búsvæðaeiningar með ótvíræðum og gegnsæjum hætti þannig að sambærilegt úrtak fengist fyrir öll svæðin. Á Íslandi var alpha og beta fjölbreytni metin á nokkrum stærðarkvörðum sem réðust af landslagi og framleiðni búsvæða en einnig voru beitarfriðuð svæði borin saman við svæði með sauðfjárbeit. Sama nálgun var notuð á hliðstæðum svæðum í Noregi til að fá samanburð við meginlandssvæði með mun meiri tegundaauðgi en Ísland.

Fjölbreytni plantna á Íslandi var mjög mótuð af landslagi þar sem framleiðni búsvæða endurspeglaði landform (íhvolf/kúpt) og hæð yfir sjó. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að landslag hefur mikil áhrif á fjölbreytni en þau eru samt háð því á hvaða stærðarkvarða matið er gert. Á Íslandi fannst enginn munur á milli beittra og nú beitarfriðaðra svæða sem sennilega skýrist af því hve langvinn beitaráhrifin eru. Landslag hafði hliðstæð áhrif á norsku svæðunum. Með samanburði milli landanna tveggja fengust í fyrsta skipti vísindalegar sannanir fyrir því að tegundaauðugt svæði (þ.e. tegundaauðugri flóra) geti magnað upp þau áhrif sem staðbundið landslag hefur á fjölbreytni. Rannsóknin staðfesti enn fremur hversu mikilvægt það er að vanda til undirbúnings gagnasöfnunar og skilgreina með skýrum hætti þær vistfræðilegu og rúmfræðilegu einingar sem vinnan grundvallast á.

 

Um doktorsefnið

Martin A. Mörsdorf fæddist 31. maí 1984 og eru foreldrar hans Gudrun og Michael Mörsdorf en þau reka bakarí í Primstal, Þýskalandi. Hann á tvær systur, Kathrinu og Juliu. Eftir grunnskólanám stundaði hann nám í náttúrufræðum við Háskólann í Trier og tengdist þá jafnframt Svissnesku ríkisstofnuninni í skóg- og landslagsrannsóknum (WSL) og útskrifaðist þaðan með háskólagráðu í náttúrufræðum í janúar 2011. Í maí 2011 hóf hann sameiginlegt doktorsnám við Háskóla Íslands og Háskólann í Tromsø (Norges arktiske universitet).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir pistilinn.

Þegar ég var í Gaðyrkjuskóla Ríkisins 1986-88 sagði einn kennarinn okkur að í Oddsdal, sem er norðanmegin í Oddsskarði, væru tvær grastegundir (sennilega kvæmi) sem hvergi finndust á jörðinni nema þar.

Á þessum stað sem er í um 600 m hæð er snjóþungt og leysir snjó þar oftar en ekki fyrr en í júní en á sumrin er þarna oft mikil veðursæld. 

Hefur þú heyrt um þetta eitthvað nánar?

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.12.2015 kl. 13:52

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Gunnar

Nú kemuru að tómum kofanum, grasaþekking mín er skuggalega takmörkuð.

Það kæmi ekkert á óvart að afbrigði eða kvæmi plantna gætu þróast við aðstæður sem þú lýsri, á þeim 10.000 árum sem liðin eru frá lokum ísaldar.

Með kveðju,

Arnar Pálsson, 22.12.2015 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband