24.3.2016 | 14:46
Ofbeit er staðreynd
Í samhengi við búvörusamninga er mikilvægt að átta sig á því að landbúnaður hefur umhverfisáhrif, m.a. villtan gróður. Hérlendis hefur sauðkindin haft mjög mikil áhrif á gróðurþekju, sérstaklega á svæðum sem voru viðkvæm vegna gjósku á eldvirka hluta landsins. Ólafur og Andrés Arnalds hafa fjallað um þetta mál, í greinarskrifum og í viðtali við Spegilinn.
Ólafur Arnalds svarar fullyrðingum formanns landsamtaka sauðfjárbænda í grein í Fréttablaðinu (24. mars 2016 Engin ofbeit?). Ólafur segir:
Það er verið að gera samninga við bændur um styrk þjóðarinnar við starfsemi þeirra. Það munu að líkindum yfir 50 milljarðar renna frá almenningi til sauðfjárframleiðslunnar á næstu 10 árum. Um það bil þriðjungur framleiðslunnar er fluttur út, við erum að greiða niður kjöt ofan í erlenda neytendur í ríkulegum mæli. Lengi hefur verið barist fyrir því að nýta samninga við bændur til þess að hætta beit á illa grónum afréttum landsins. Nú hefur formaður Landssamtaka sauðfjárbænda stigið fram í útvarpi (Spegillinn 21. mars) og hafnað því að ofbeit eigi sér stað á Íslandi. Það verður að teljast býsna alvarleg yfirlýsing í ljósi baráttunnar fyrir beitarfriðun illa gróins lands. Stórtíðindi.
Staðreyndin er sú að Landgræðsla ríkisins, samtök á borð við Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands, fagfólk og ótal margir aðrir hafa barist fyrir því áratugum saman að beit á verst grónu afrétti landsins verði hætt. Ég fullyrði að beit á illa grónum afréttum getur ekki talist annað en rányrkja og er í raun alltaf ofbeit. Fyrir því hafa verið færð gild fagleg rök svo áratugum skiptir, aftur og aftur. Að tengja slíka nýtingu við sjálfbæra landnýtingu er hlálegt. Kolefnisspor dilkakjötsframleiðslu er meðal þess versta sem þekkist fyrir fæðu í heiminum og vistspor auðnabeitar er stjarnfræðilegt. Ísland er eigi að síður aðili að alþjóðasamningum á sviði umhverfismála sem lasta nýtingu af þessu tagi.
Andrés var í viðtali í Speglinum (Sérfræðingur:Ofbeit er staðreynd - RÚV 23. mars 2016.) og var inntakið á þessa leið.
Ofbeit sé staðreynd, og að afneita því sé jafnslæmt eða verra en sú alhæfing að allt Ísland sé í tötrum og illa farið. Hvorugt standist skoðun. Spurður hvar ástandi sé verst nefnir Andrés miðhálendið þar sem auðnir séu ríkjandi sem teygi sig sumstaðar allt niður á láglendi. Í raun sé gosbeltið viðkvæmasta svæðið og mikilvægt sé að viðhalda gríðri þar og græða upp eftir mætti til að forðast gjóskufok. Þá bendir hann á að um þriðjungur lambakjötsframleiðslunnar nú seljist ekki innanlands og sé því fluttur út, niðurgreiddur af íslenskum skattgreiðendum. Nýi búvörusamningurinn veldur að hans mati fjölgun sauðfjár og enn meiri framleiðslu þrátt fyrir minnkandi innanlandsneyslu. Það sé ótækt að ríkið greiði niður lambakjöt til útlendinga og þurfi jafnframt reiða hendi fé til landbóta þar sem of margt sauðfé hefur verið á beit. Hin hliðin á peningnum sé svo sú að margir bændur vinni gríðarlega gott starf í uppgræðslu og endurheimt lands. Það starf hafi hins vegar ekki útrýmt ofbeit.
Ég mæli með því að fólk hlusti á viðtalið í heild sinni.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.