7.4.2016 | 12:18
Umhverfisáhrif fiskeldis og kostnaður vegna mengunar
Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein á heimsvísu og leggur töluvert til fæðuframboðs heimsins. Hérlendis eru uppi hugmyndir um að auka fiskeldi verulega, sérstaklega eldi t.d. laxfiska í sjókvíum. Saga fiskeldis erlendis gefur tilefni til þess að við stígum þau skref hægt og af varkárni.
Norðmenn eru stærstu framleiðendur eldislax í heimi, og þeir hafa gert fjölmörg mistök á meðan iðnaðurinn byggðist upp. Mistökin hafa áhrif á framlegðina en ekki síst villtar tegundur, náttúruna og umhverfið.
Vandamálin eru fjölþætt.
Fiskeldi í sjókvíum fylgir mikið innflæði á næringu á takmarkað svæði, þannig að úrgangur og matarleifar hlaðast upp. Á meðan strangar kröfur eru um hvernig ganga meðhöndla og dreifa má saur húsdýra (hænsna, kúa og svína) þá má úrgangur úr sjókvíum leka í sjóinn. Grútur - sem getur drepið fugla - og staðbundin ofauðgun eru m.a. afleiðingar sjókvíaeldis.
Í sjókvíaeldi er óhjákvæmilegt að laxar sleppi út, og leiti í nálægar ár. Ég man eftir því sem pjakkur í Kjósinni fyrir aldamót. Þá var laxeldi í Hvalfirði, og brestur kom í kvíar í vondu veðri. Í kjölfarið var mun meiri veiði í Laxá í Kjós. Einhver gæti haldið að það væri hið besta mál, en vandamálið er að villtu laxarnir og eldislaxarnir geta æxlast. Blendingarnir verða aldrei erfðafræðilega eins og villtu laxarnir og því ólíklegt að þeir standi sig jafn vel í náttúrunni.
Norskir vísindamenn hafa kortlagt erfðamengun í villtum laxastofnum, sem rekja má beint til fiskeldis (sjá heimild neðst).
Í sjókvíaeldi magnast einnig iðullega upp sníkjudýr og pestir. Ein sú skæðasta er laxalúsin - sem getur lagst á villta laxa og aðra laxfiska. Því er mikilvægt að hafa sjókvíar ekki nálægt veiðiám. Hérlendis eru fullt af flottum veiðiám, allt í kringum landið, og glapræði að fórna þeim fyrir fiskeldi.
Reynsla norðmanna af umhverfisáhrifum fiskeldis er víðtæk og upplýsandi. Orri Vigfússon, formaður verndarsjóðs villtra laxastofna ritar grein í Morgunblaði dagsins (Úreltar fiskeldisaðferðir) og fjallar um þessi mál. Grein hans hefst á þessum orðum:
Nágrannaþjóðir okkar í Noregi og á Írlandi hafa áttað sig á því að það er mjög kostnaðarsamt að undirbúa laxeldi í opnum sjávarkvíum. Bæði löndin hafa í kjölfarið ákveðið að fiskeldisfyrirtækin eigi að greiða þann kostnað sjálf. Fyrirtæki sem sækja um leyfi fyrir slíkri starfsemi í norskum fjörðum þurfa þannig að reiða fram hundruð milljóna króna óafturkræf framlög til að opinberar stofnanir geti gert viðeigandi rannsóknir. Hér er verið að tala um mat á aðstæðum, rannsókn á lífríkinu, burðaþolsmat á fyrirhuguðum eldissvæðum. Auk þess þarf að byggja upp þekkingu til að hafa eftirlit og þá umsjón sem krafist er til að ekki verði stórslys.
Nýlega voru boðin upp og seld í Noregi tuttugu kvótaleyfi, hvert fyrir 780 tonna sjóeldisframleiðslu á samtals 904 milljónir norskra króna. Þetta svarar til 892 milljóna íslenskra króna fyrir fyrir sérhvert leyfi. Við þetta vakna upp spurningar um það hversu mikils virði leyfin eru sem nú er verið sækja um hérlendis. Hér er verið að sækja um framleiðsluleyfi upp á tugþúsundir tonna og það án þess að fyrirtækin þurfi að greiða nokkuð fyrir.
Afleiðing af óvönduðum vinnubrögðum liggja fyrir í Noregi. Lífríki landsins hefur nú þegar beðið umtalsverðan og óafturkræfan skaða af laxeldi í opnum sjókvíum eins og fram kemur í álitsgerð norsku ríkisendurskoðunar um áhrif fiskeldisins þar í landi. Ríkisstjórnin hefur staðið fyrir neyðarfundum og nær allir háskólar og vísindastofnanir Noregs vinna að rannsóknarverkefnum til að freista þess að finna lausn á vandamálum sem eiga rætur að rekja til fiskeldisins. Vísindamenn viðurkenna að þeir hafi ekki svör á reiðum höndum.
Ég tel mikilvægt að við lærum sem mest að Norðmönnum og Írum um það hvernig best er að halda utan um fiskeldi. Eitt mikilvægt skref er að tryggja að nægilega góðar rannsóknir séu stundaðar á lífríkinu til að hægt sé að meta umhverfisáhrif fiskeldis. Eðlilegt er að fiskeldisfyrirtækin borgi fyrir þær rannsóknir. Önnur leið, sem Orri talar líka fyrir, er að beina fiskeldisfyrirtækjum meira í átt að eldi í lokuðum kvíum. Á fundi sem NASF og Líffræðifélag Íslands skipulögðu fyrir nokkrum árum, kynntu erlendir sérfræðingar fjölmargar útfærslur á slíkum lausnum sem eru mjög aðlaðandi kostir þegar gallar sjókvíaeldis eru metnir.
Heimildir:
Atlantic salmon populations invaded by farmed escapees: quantifying genetic introgression with a Bayesian approach and SNPs Kevin Alan Glover o.fl. BMC Genetics201314:74 DOI: 10.1186/1471-2156-14-74
Fiskeldi í kvíum í sjó og á landi, fundaröð árið 2014. Vefur líffræðifélags Íslands.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Það er kannski ekki sniðugt að bera saman sjókvíaeldi við Ísland og Noreg:
Við Íslands-strendur eru sterkari hafstraumar sem að hreinsa svæðin í kringum kvíar betur en t.d. í noregi þar sem að er mikið um lygna og grunna firði og mikinn hita.
Fiskeldi er mjög víðtækt hugtak og sjóvkíaeldi er bara 1 grein innan þess:
http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/1310452/
Jón Þórhallsson, 7.4.2016 kl. 12:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.