16.5.2016 | 10:26
Jane Goodall á Íslandi - erindi 15. júní
Dr. Jane Goodall mun halda opið erindi í Háskólabíó kl 17:00 þann 15. júní 2016. Þetta er einstakur viðburður sem mun ekki láta neinn ósnortinn. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir. https://www.facebook.com/events/755993367870603/
Jane Goodall er einstök manneskja, vísindamaður og náttúruverndarfrumkvöðull. Hún fylgdist með simpönsum í Gombe og komst að stórmerkilegum hlutum um líffræði þeirra og atferli. Villt dýr eru í margvíslegri hættu frá verkum og lifnaði manna, og seinni hluta ferils síns hefur Jane helgað náttúruvernd.
Einstakt tækifæri til að hlýða á eina ástsælustu og þekktustu vísindakonu heims flytja erindi í Háskólabíói, miðvikudaginn 15. júní kl. 17:00.
Dr. Jane Goodall er einnig friðarfulltrúi Sameinuðu þjóðanna og heldur fyrirlestra um allan heim þar sem hún leggur höfuðáherslu á umhverfisvernd. Hún er stofnandi Roots & Shoots hreyfingarinnar sem nær til þúsunda ungmenna í yfir 100 löndum og eflir þau og virkjar til að leggja sitt af mörkum við náttúru- og dýravernd.
Frú Vigdís Finnbogadóttir ávarpar gesti í upphafi fundar.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir
Hrefna Sigurjónsdóttir og Margrét Björk Sigurðardóttir skrifuðu um feril Jane á vísindavefinn fyrir nokkrum árum. Þar segir:
Jane Goodall fæddist árið 1934 í London á Englandi. Frá barnæsku var hún afar áhugasöm um dýr, sér í lagi um framandi dýr Afríku. Þegar henni bauðst að heimsækja vinafólk í Kenía greip hún tækifærið og 23 ára gömul fór hún til Afríku í fyrsta sinn. Þar komst hún fljótt í kynni við fornleifa- og steingervingafræðinginn Louis S. B. Leakey sem heillaðist af óbilandi áhuga hennar og þekkingu á dýrum. Hann réð hana sem aðstoðarkonu sína og sendi hana árið 1958 aftur til London til að læra um atferli prímata. Leakey taldi að stóru aparnir gætu veitt innsýn í þróun prímata og þar af leiðandi þróun mannsins. Árið 1960 sendi hann Goodall til Gombe í Tansaníu til að fylgjast með atferli simpansa. Með sjónauka og skrifblokk að vopni hóf Jane athuganir sínar sem einkenndust af ótrúlegri þolinmæði og þrautseigju.
Goodall gerði fljótt merkilegar uppgötvanir. Til dæmis að simpansar voru ekki grænmetisætur eins og áður var talið heldur voru þeir alætur líkt og maðurinn. Þá uppgötvaði hún einnig að simpansar notuðu verkfæri. Hún fylgdist með hvernig simpansarnir hreinsuðu og snyrtu til greinar og notuðu þær svo eins og veiðistangir til að veiða termíta úr termítahraukum. Þessi uppgötvun kollvarpaði því þeirri hugmynd að það væri sérstaða mannsins að nota verkfæri. Þessar merkilegu niðurstöður urðu til þess að frekari fjárveitingar fengust í rannsóknir Goodall og þrátt fyrir að hún hefði ekki lokið grunnháskólagráðu var hún tekin inn í doktorsnám við Cambridge-háskóla.
Hrefna Sigurjónsdóttir og Margrét Björk Sigurðardóttir. Hver er Jane Goodall og hvert er hennar framlag til vísinda og fræða? Vísindavefurinn, 3. janúar 2011. Sótt 9. desember 2015. http://visindavefur.is/svar.php?id=58124.
Að heimsókn dr. Jane Goodall standa háskólastofnanir og samtök á sviði umhverfisfræða og dýraverndar. Þau eru Alþjóðamálastofnun, Líffræðistofa, Stofnun Sæmundar fróða og umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Landvernd, Líffræðifélag Íslands og Vakandi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Skv. erfðafræðingnum L.L.Cavalli-Sforza, í bókinni The Great Human Diasporas (Perseus Books, 1995), þá vissu Pygmýar þetta um verkfæranotkun simpansa allan tímann. Þeir eru hins vegar á steinaldarstigi, ólæsir og óskrifandi, og engum hafði dottið í hug að spyrja þá, þótt þeir þekki simpansana best af öllum, enda deila þeir skóginum með þeim.
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 16.5.2016 kl. 18:16
Sæl Ingibjörg
Það er forvitnilegt að Pygmíar hafi þekkt verkfæranotkun simpansana. En eins og þú segir þá þurfa staðreyndir að vera skráðar eða þeim miðlað, til að fleiri átti sig á þeim.
mbkv,A
Arnar Pálsson, 18.5.2016 kl. 09:16
Sæll aftur Arnar. Það hefði nú verið skynsamlegt að ráða sér bara túlk, til að tala við þetta fólk sem bjó í svo nánu sambýli við dýrin sem verið var að rannsaka. Ég meina ekki bara Goodall, heldur þá sem áður höfðu fullyrt að apar notuðu EKKI verkfæri. Týpískt dæmi um að hvítir rannsakendur telji innfædda ekki marktæka.
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 18.5.2016 kl. 18:11
Góður punktur.
Það er oft heilmikil vitneskja í nærsamfélaginu, en auðvitað bábiljur líka. En þegar leitað er að tilgátum eða nýjum flötum er sniðugt að ræða við heimamenn.
Arnar Pálsson, 19.5.2016 kl. 10:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.