18.5.2016 | 17:20
Ég er bókafíkill
Í einn bók um Viggó Viðutan er mynd af honum sofandi í gríðarlegum póst, skjala og bókahelli. Hann lítur út eins og björn í Híði, samt meinlaus og friðsæll í skjólinu og alsæll í draumórum sínum.
Stundum líður mér þannig, í skrifstofu með háum fullum bókaskápum, pappírsbunkum á tvo vegu og daufa skímu í gegnum vetrarmyrkrið. Vitanlega vinn ég með fólki, sem áþekkt Val og hinum á skrifstofunni hjá tímaritinu Sval, eru sífellt að ónáða mann með kvabbi um óunnin verk eða fyrirlestra sem þarf að flytja. En þess á milli nýtur maður þess að glugga í góða bók eða fletta spennandi grein, og tvinna saman nýjar hugmyndir eða prófa gamlar. Bókastaflar myndast ekki af sjálfu sér, maður fær að labba upp í Iðu, Eymundson eða Bóksölu stúdenta (sem er með útsölu núna á erlendum bókum!!!) til þess að þjónusta hillurnar. Bara í gær fann ég bók eftir Eric Larson, in the garden of Beasts. Hún fjallar um sendiherra Bandaríkjanna í Þýskalandi og fjölskyldu hans, á árunum rétt fyrir seinni heimsstyrjöld.
Larson þessi (óskyldur skrípóteiknaranum dásamlega) skrifar sagnfræðilega texta, hann nýtir dagbækur og bréf til að kanna hugarástand og líf fólks á lykilstundum í mannkynssögunni. Í þessari bók er fjallað um uppgang nasismans í Þýskalandi, þar sem óþol gagnvart minnihlutahópum og útlendingum var magnað upp af valdaklíku sem samfélagið hafði ekki burði til að spyrna við og stöðva. Við vitum öll (vonandi) hvað gerðist í Þýskalandi fyrir og í seinna stríði, en okkur er holt að átta okkur á því að á árunum þar á undan var Þýskaland venjulegt vesturland. Svipað óþol og fordómar heyrast nú oftar á vesturlöndum, ekki síst tengt umræðu um flóttamenn.
Eina bók hef ég lesið eftir Larson, sem kallast Devil in the white city. Hún tvinnar saman sögu aðalhönnuðarins sem stóð að Heimssýningunni í Chicago 1893 og raðmorðinga sem þreifst í grautarpotti stórborgarinnar. Sú bók var sérlega vel lukkuð, og vona ég að dýragarðurinn sé áþekkur.
Það var ekki ætlunin að játa á sig fíknina, til þess að afneita henni. Ég verð áfram bókafíkill, og ætla meira að segja að lesa a.m.k. helming bókanna sem ég kaupi.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Bækur | Breytt 26.5.2016 kl. 10:00 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.