9.6.2016 | 16:12
Simpansakonan í National Geographic
National geographic er eitt merkilegasta tímarit veraldar. Það byrjaði sem tímarit bandaríska landfræðifélagsins, en varð víðlesnasta alfræðirit heimsins. Í tímaritinu má finna greinar um könnun himingeimsins, steingervinga, olíuborpalla og simpansa í Afríku.
Flestir þekkja tímaritið nú í gegnum sjónvarpsstöð sem rekin er undir sama nafni, þar sem náttúra og fræðsla eru í fyrirrúmi. Þar sáu mörg okkar fyrst myndirnar af Jane Goodall þar sem hún bjó meðal og rannsakaði simpansana í Gombe í Tanzaníu.
Margir hérlendis þekkja hana sem simpansakonuna, en ekki nafn hennar sjálfrar. Það breytist vonandi á næstu viku, þegar Jane kemur til landsins og heldur fyrirlestur um rannsóknir sínar og náttúruvernd. Erindið hennar verður 15. júní kl. 17 í háskólabíói, aðgangseyrir er enginn og allir eru velkomnir.
Fyrsta umfjöllunin sem ég las um Jane var í National Geographic, frá 1965. Forsíðumyndin er hér til hliðar, og skrifar Jane sjálf frásögnina. Hún lýsir því þegar þau komu aftur í búðirnar við strönd Tanganyika vatns, og voru í óðaönn að koma búnaðinum fyrir til að verja hann hellidembu. Þá tók Húgó, ektamaður Goodall, eftir nokkrum öpum í tré. "Þetta er Fló og fjölskylda" sagði Jane, því hún þekkti sína apa með nafni. Fló var mamman og með henni voru tveir ungar Figan og Fifi. Þegar Fló lyfti hendinni sá Jane lítið nýtt kríli í örmum hennar, sem hlaut nafnið Flint. Nafnakerfið sem Jane notar rakti ætterni með því að gefa ungum nafn með sama upphafsstaf og móðir, eða ættmóðir.
Rannsóknir Jane og samstarfsfélaga sýndu að simpansar eru stórmerkileg dýr. Áður var mikil áhersla lögð á að menn gætu hugsað, hjálpast að, notað verkfæri og sýnt samkennd. En rannsóknir hennar sýndu að simpansarnir bjuggu yfir færni á þessum sviðum, og að munurinn á mönnum og öpum væri annars eðlis en við héldum.
Þótt að simpansar geti ekki lesið eða rannsakað okkur á sama hátt og við, þá geta þeir samt kennt okkur heilmikið um mannlegt eðli og breyskleika.
https://www.facebook.com/events/755993367870603/
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.