Leita í fréttum mbl.is

Fjórðungi bregður til nafns: af uppnefndum genum og sérvisku erfðafræðinga

Fjórðungi bregður til nafns: af uppnefndum genum og sérvisku erfðafræðinga

Greinarkorn þetta birtist í Kímblaði ársins 2016. Það er sérlega ánægjulegt að útskriftarnemendur í líffræði hafa gefið út Kímblað, í fyrsta skipti í mörg ár. Ég naut þeirra forréttinda að fá að skrifa á blaðið. Hér birtast fyrstu málsgreinar greinarinnar, til að lesa meira þarf að hafa ná sér í eintak á háskólasvæðinu og hjá öllum betri tannlæknum bæjarinns.

„Þú skalt heita Skuld“ sagði erfðafræðingurinn. Flugugreyið er forviða. Hún fæddist í ljómandi fínni túbu með systkinum sínum, þar sem hiti er jafn og notalegur, engir afræningjar og næg fæða. Hún veit ekki að hún er leiksoppur örlagavalda, sem kallast James Kennison og John Tamkun. Því síður að þeir voru ekki að nefna hana sjálfa, heldur gen sem hafði áhrif á þroskun (eins og skuld). Þeir einangruðu slatta af genum og höfðu greinilega lesið norræna goðafræði, því þrjú þeirra voru skírð Urdur (urd), verthandi (vtd) og skuld (skd). Örlaganornirnar Urður, Verðandi og Skuld spunnu þræði sem ákvörðuðu örlög manna. Á sama hátt tengjast þessi gen örlögum fruma í þroskun ávaxtaflugna.

Erfðafræðingar rannsaka lögmál erfða og kortleggja gen. Þegar gen finnast er til siðs að gefa þeim nöfn, til að einfalda framsetningu og umræður. Vinnunúmer (t.d. CG10079) geta átt við athyglisverð gen. En um leið og þú veist að CG10079 heitir Egfr getur þú tengt það við þekkingu þína af frumunni. EGF stendur fyrir epidermal growth factor, sem er boðsameind sem frumur nota í samskiptum. Egfr er viðtakinn fyrir þessa boðsameind, sem gerir frumum kleift að skynja hana og bregðast við. En nöfn genanna erum mörg og margvísleg. Altítt er að erfðafræðingar gefi genum nöfn út frá svipgerð eða galla sem fram kemur þegar gen stökkbreytist. T.d. skírði Thomas Morgan fyrsta genið sitt white vegna þess að augu flugunnar sem venjulega eru rauð urðu hvít. Gen uppgötvast oft sem athyglisvert frávik í svipfari, sem erfist. Þannig fundust til dæmis stökkbrigðin Torpedo, sem veldur því að fóstur ávaxtaflugna verður eins og tundurskeyti, faint little ball, sem breytir því í óásjálegan hnoðra og Ellipse sem gerir augu flugunnar sporöskjulaga. Erfðafræðingar sem rannsaka ólíka þætti lífverunnar geta fundið ólíka galla í sama geni, mismunandi samsætur eða allel. Torpedo, faint little ball og Ellipse eru t.d. ólíkar samsætur Egfr gens ávaxtaflugunnar. Það sýnir okkur sértæk áhrif ólíkra stökkbreytinga í sama geni og einnig hversu oft sum gen eru brúkuð í þroskun.

Fyrir sumar lífverur er nafnakerfið nokkuð staðlað. Bakteríuerfðafræðingar nefndu gen gjarnan eftir efnaskiptagöllum, t.d. LacI eða HemeD. Ormaerfðafræðingar greindu nokkra flokka breytinga, lin (e. lineage) sem raska örlagakorti þroskunar, dau (e. dauer) sem raska dvalastigi ormsins og let (e. lethal) sem leiða til örends orms. Blessunarlega leyfa aðrir erfðafræðingar sér örlítið skáldlegri stíl, sérstaklega flugumennirnir. Hér munum við kynna nokkur snaggaraleg genanöfn. Flest genanna eru úr flugum, aðallega vegna þess að ég vann með flugur á námsárum, en ég mun tína til flott nöfn úr öðrum lífverum til að virðast víðsýnn. Merking flestra orðanna skilar sér ágætlega á ensku, en við munum útskýra nöfnin á ástkæra ylhýra eftir megni. Nokkur af mínum uppáhalds genum eru.

Disco: Nafnið gefur til kynna flugur sem stíga svakaleg spor. En afleiðing stökkbreytingar í disco eru liðamótalausir fætur (nafnið er reyndar stytting á disconnected, en það er aukaatriði).

Indy: Flugur með stökkbreytingu í indy lifa mun lengur en aðrar. Nafnið er sett saman úr upphafstöfum frægrar setningar í kvikmynd Monty Python gengisins um hinn heilaga kaleik “I’m not dead yet”.

Doublesex: Stökkbreyting í doublesex leiðir til þess að flugurnar hafa ásýnd tvíkynja veru (kostir slíkrar anatómíu, sem Jeff Murdoch dreymdi um, létu á sér standa).

Tinman: Er gen sem er nauðsynlegt fyrir sérhæfingu sérstakrar afurðar miðlagsins. Vísað er í einn af fylgdarmönnum Dóróteu, í leit hennar að Galdrakarlinum í Oz. Blikk-kallinn var hjartalaus. Eins þroskast ekki forveri hjartans í flugum með gallað tinman gen.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er alltaf hrifinn af Zbtb7, fyrir þær sakir að það var upphaflega nefnt Pokemon sem fór víst í taugarnar á Nintendo og þeir hótuðu málsókn.

Fridrik Karlsson (IP-tala skráð) 10.6.2016 kl. 17:03

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Friðrik

Frábært nafn sem ég vissi ekki um. Las mér smá til um þetta og ástæðan var víst sú að Zbtb7 tengdist krabbameini, og Nintendo vildu ekki að Pokemon tengdist slíkum ófögnuði.

Það er kannski hugmynd að skíra fleiri krabbagen í höfuðið á illmennum sögunnar eða einhverjum hroða úr heimi tölvuleikjanna, svona til að gefa lögfræðingum meira að gera.

Arnar Pálsson, 11.6.2016 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband