15.6.2016 | 09:33
Þrældómur í þekkingarverksmiðjunni
Háskólar um allan eru lagðir á borð og mældir á alla kanta, rétt eins og afköst verksmiðja eða sláturhúsa. Og rétt eins og í verksmiðjum og sláturhúsum, er lifandi efniviður í Háskólum. Þegar háskólar eru mældir, eru starfsmenn þeirra vegnir og metnir, alveg eins og skrokkar í sláturhúsi.
Það er alger misskilningur að hægt sé að mæla framlag háskóla og fræðimanna, eins og að gæðaprófa smjörlíki eða vikta svínaskrokka. Háskólar hafa fjölþætt hlutverk, og margir þættir starfsins og framlagsins er erfitt ef ekki ómögulegt að mæla.
- Hvernig mælum við innblástur sem íslenskukennari veitir upprennandi skáldi eða forsætisráðherra?
- Hvernig mælum við áhrif menntunar á samspil milli lækna, tölfræðinga og líffræðinga í nýsköpunarfyrirtæki?
- Hvernig mælum við framlag fræðimanna til upplýstrar umræðu, t.d. um loftslagsmál eða réttindi transfólks?
Mælistikumenn hafa hertekið menntakerfið og verkfræðihugsun, sem byggir á nálgun Taylors að ef eitthvað er ómælanleg þá skipti það ekki máli, er kominn langan veg með að eyðileggja háskóla nútímans. Um þetta er fjallað í Fréttablaði dagsins, í greininni Þekkingarverksmiðjan Afleiðingar nýfrjálshyggjuvæðingar háskóla á Íslandi
Þar fjalla Lawrence D. Berg, Edward H. Huijbens og Henrik Gutzon Larsen um áhrif mælistikukerfa á starf og líðan háskólamanna. Greinin hefst á þessum orðum:
Nýlega komu fréttir af því að Háskóli Íslands hefði færst upp í 222. sæti á alþjóðlegum samanburðarlista háskóla í heiminum (The Times Higher Education World University Rankings). Rektor Háskóla Íslands fagnaði þessu sérstaklega og sagði: Niðurstaðan er mikil viðurkenning fyrir alla þá sem starfa hér?
Færslan frá sætum 251 til 275 þótti fréttnæm og sérstakt fagnaðarefni. Sambærilegan metnað má finna í háskólum um víða veröld. Í háskólanum í Bresku-Kólumbíu lýsti nýráðinn rektor því yfir að hann ætlaði sér að skólinn yrði meðal tíu efstu í heiminum á slíkum samanburðarlista. Stjórnvöld í Danmörku settu sér nýlega það markmið að hafa í það minnsta einn háskóla í landinu á meðal tíu bestu í heiminum.
Líkt og orð rektors bera með sér byggja samanburðarlistarnir á mælingum á frammistöðu starfsfólks skólanna, nokkuð sem hér á landi er kallað vinnumatskerfi og allir opinberir háskólar hafa sammælst um. Greinar sem háskólakennarar birta, fyrirlestrar sem þeir halda, bækur sem eru skrifaðar og önnur framleiðsla þeirra er þannig talin til stiga. Þetta vinnumatskerfi við íslenska háskóla á sér hliðstæðu í háskólum Norður-Evrópu og víðar.
Vinnumatskerfið íslenska á rætur í kjarasamningum kennara við ríkið en er nú að verða birtingarmynd samkeppnisvæðingar háskóla. Þessi samkeppnisvæðing er ein þriggja meiriháttar breytinga sem eru að eiga sér stað í háskólum í Norður-Evrópu í það minnsta. Hinar snúa að ójöfnuði og breyttum skilningi á háskólafólki. Forsenda samkeppni er ójöfnuður og þannig verður nú að skilgreina einn háskóla sem verri og annan sem betri, byggt á samræmdu mati þeirra í millum. Sama gildir um starfsfólk háskólanna. Það er svo lagt á sömu mælistiku og verður ekki fólk í öllum sínum fjölbreytileika, heldur mannauður sem annaðhvort leggur til markmiða kerfisins eða ekki. Mælanlegur mannauður háskóla keppir þannig á alþjóðlegu markaðstorgi háskóla á heimsvísu.
Lawrence D. Berg, Edward H. Huijbens og Henrik Gutzon Larsen Þekkingarverksmiðjan Afleiðingar nýfrjálshyggjuvæðingar háskóla á Íslandi
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:17 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.