Leita í fréttum mbl.is

T. rex að nafni Sue

Risaeðlur eru stórbrotnustu lífverur sem gengið hafa um jörðina. Þórseðlan, finngálknið og kambeðlan eru velþekkt, en nafntoguðust er grameðlan, sem kallast Tyranosaurus rex á latínu og ensku*. T. rex var stórt rándýr, en lengi vel var skilningur okkar á henni takmarkaður því aðeins höfðu fundist nokkur bein úr hverju dýri (mest um 40% úr einni eðlu).

Það breyttist sumarið 1990 þegar Sue Hendrickson rakst á tvo hryggjaliði og legg af stórri risaeðlu utan í steinkambi. Hún og félagar frá Black Hills institute í Dakóta voru að leita steingervinga í gamalli námu, og duttu í lukkupottinn. Þarna fannst heillegasta eintak af T. rex frá upphafi, og var hún skírð í höfuð á finnanda sínum, Sue.

Trex_Sue  Heimildamyndin Risaeðlan í dakóta (dinosaur 13) sem sýnd var á Rúv segir frá fundinum og heilmikilli atburðarás sem fylgdi í kjölfarið. Framvindan var á köflum farsakennd, þar sem þjóðvarðlið, FBI, indjánahöfðingi og uppboðshaldar komu við sögu.

Mynd af afsteypu af Sue er úr náttúruminjasafninu í Chicago - Field museum.

* Leiðrétting 23. 7. Takk Gunnar fyrir ábendinguna (sjá athugasemdir), latneska heiti tegundarinnar er T. rex, en hún á ekkert sérstakt nafn á ensku. Þetta er merkileg og athyglisverð árátta hjá okkur íslendingum að nefna erlendar tegundir, sem jafnvel aðrir nenna ekki að nefna. Það væri gaman að taka skipulega saman íslensk nöfn á risaeðlum, sem notuð hafa verið í bókum og heimildamyndum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig grunar að T.rex náttúrugripasafnsins í Osló - sé afsteypa af Sue - fyrir þá sem nenna ekki til BNA....

Pétur Henry Petersen (IP-tala skráð) 19.7.2016 kl. 13:16

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sennilega verið þá afsteypa líka sem ég sá í náttúrgripasafninu í Sanfransisco.

En er ekki Tyranosaurus rex latína fremur en enska?

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.7.2016 kl. 13:15

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Góð ábending Pétur, það er ekkert gaman að skoða beinagrind af risaeðlu sem vantar 70% beina í. Auðvitað eru sýningargripirnir afsteypur líka, nema hvað hausinn á Sue er í sérkassa á efri hæðum safnsins. Það er eiginlega tilkomumeira en að sjá grindina á gólfinu. Eins og þú veist er einnig raðað saman í eina afsteypu, úr nokkrum sýnishornum, til að fá fyllri mynd af byggingu dýranna.

Takk kærlega Gunnar, lagfærði meginmálið og bætti latínunni í.

Arnar Pálsson, 23.7.2016 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband