Leita í fréttum mbl.is

Klukkur og bækur breytta heilum

Maður með úr, maður með bók og heili gengu inn á bar. Seinni hluti brandarans bíður innblásturs.

Í sumar hvíldi ég mig með lestri bóka. Tale of two cities eftir Charles Dickens hentaði mjög vel fyrir útileigu og vísindaveiðiferðir. Hún var reyndar dásamlega langdregin á köflum en málfarið stórbrotið og fléttan vandlega ofin. Persónurnar eru kannski ekki þær eftirminnilegustu sem Dickens hefur skapað, en sögusviðið og atburðarásin vegur upp á móti þeim annmörkum.

Hin bókin sem hreyfði mest við mér í sumar er ekki skáldverk. The shallows, what the internet is doing to our brains eftir Nicholas Carr, fjallar um áhrif nýlegrar tækni á okkur mannfólkið.

Hann kynnir okkur nýjar niðurstöður í sálfræði, sem sýna að heilinn er mjög sveiganlegur. Heilasveiganlegiki (neuroplasticity) er nýtt lykilhugtak í sálfræði, og lýsir því hvernig tengingar í heilum eru síkvikar og ótraustar. Allt sem við gerum hefur áhrif á tengingarnar. Og það sem við gerum ekki hefur líka áhrif, því með þvi að gera ekki ákveðna hluti þá dofna eldri tengingar á milli tauga.

Við erum vön því að líta á tækni og tæki sem verkfæri okkar, sem við hönnuðum, notum og stjórnum. Við gleymum því gjarnan að tækning og tækin geta haft áhrif á okkur. Carr minnir okkur á þetta og það verður kjarninn í umræðu höfundar. Áður en hann ræðir netið og símana, fjallar hann um klukkur og ritmál.

Tíminn sem tækni

Tímanum halda engin bönd. Það er ómögulegt að setja lög sem stöðva tímann, að hlekkja hann með keðjum eða negla hann við vegg. Nú til dags lifum við og deyjum eftir klukku. Allt líf okkar er skipulagt og fylgir takti sem settur er af afgreiðslutíma verslana, vinnustaða og dagatali yfirvalda. Fyrir nokkrum öldum eða árþúsundum var tíminn sannarlega til, en áður en klukkur voru fundnar upp, lifðum við mennirnir í annari veröld. 

Klukkan veldur því að við dönsum flest öll í sama takti, atómklukkunar sem stillir af menn, viðskipti og vísindi um alla jörð. Í bókmenntaverki Tome og Janry er lýst dystopíu þar sem hver einstaklingur er með armbandsúr. Úrin sýna ekki hefðbundinn tíma heldur eru tengd SKONS, stórri vél sem skipar fólki fyrir og stjórnar lífi þess. En framtíðarsýn Tome og Janry er ekki fjarri nútímanum, þar sem við lútum öll valdi klukkunar 60/24/7.

Vitanlega hafa menn alltaf fylgt tímanum, við vöknum á morgnanna og sofnum á kvöldin. Einnig vöktuðu forfeður okkar árstíðir og skipulögðu fiskveiðar, landbúnað og veiðiferðir í samræmi við takta náttúrunnar.

Sólúr eru ævaforn uppfinning en klukkur eins og við þekkjum þær voru fundnar upp á miðöldum. Lengi vel voru klukkurnar samt hver í sínum takti. Margar kirkjuklukkur í sama bæ voru t.d. sjaldnast sammála um tíma, hvað þá um klukkur í ólíkum borgum eða löndum. Undir lok nítjándu aldar og upphafi tuttugustu aldar voru uppfinningamenn að reyna að finna leiðir til að samhæfa klukkur milli bæja.*

En eftir að klukkurnar urðu til og voru samhæfðar þá fóru þær að móta hegðan okkar og hugsanir. Það má spyrja hvort þær breytingar séu allar til batnaðar, eins og með aðrar tækniuppfinningar mannsins.

Önnur tækniuppfinning sem er Carr hugleikin er ritmálið og bókin. Það er óþarfi að lýsa með mörgum orðum því hvernig hugmyndir fæddust eða varðveittust í veröld án bóka. Allt treysti á munnlega geymd, eins og t.d. lagabálkar forfeðra okkar sem lögréttumennirnir þurftu að þylja upp úr minni á Alþingi.

Um leið og ritmálið varð til losnaði stífla, menn gátu skráð hugmyndir sínar og flutt á milli staða og landa. Bækur komu á samtali milli kynslóða og tungumála, hugsuða um alla veröld. Með bókunum urðu mögulegar gríðarlegar framfarir í mannlegri sköpun, frá skáldverkum og heimspeki til fræða, vísinda og tækni. Bókin gerði djúpa hugsun mögulega og gerði fólki kleift að setja sig í spor forfeðra og afkomenda, keisara og kotbónda, og upplifa ferðalög í rúmi, tíma og landslagi tilfinninga og drauma.

The shallows hafði gríðarleg áhrif á mig. Ég t.d. hætti að blogga í margar vikur, og læsti símanum mínum eftir kl 8 á kvöldin, og var alvarlega að hugsa um að banna tölvur í fyrirlestrum mínum í háskólanum. Mig langar til að gera bókinni betri skil hér, en þessi pistill verður að duga sem stuttur formáli að þeirri umsögn. E.t.v. er pistillinn einkenni þess að alnetið hafi eyðilegt hæfileika minn til að rita samfellda hugsun eða koma mér að megin atriðinu. En stundum er það meginatriði í sjálfu sér að gefa sér tíma til þess að vera lengi að koma sér að meginatriðinu. Lifi bókin.

*Albert Einstein starfaði sem ritari á einkaleyfaskrifstofu í Bern í upphafi tuttugustu aldar, og því var fleygt að þetta vandamál samtíma hans hafi leitt hann að afstöðu tíma og rúms.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband