22.11.2016 | 01:47
Við hin grunnhyggnu, hvað internetið gerir við heila
Fyrir tveimur áratugum sat ég ásamt samnemendum mínum í tölvuveri Líffræðistofnunar á Grensásvegi 12. Húsin við þennan hluta Grensásvegar voru byggð sem iðnaðar eða skrifstofuhúsnæði. Tölvuverið var í kálfinum, viðbyggingu sem teygði sig aftur úr húsinu, sem braut allar reglur um arkitektúr og notalegheit. Í tímum lærðum við á furðuleg fyrirbæri eins og unix, S-plús og pine. Tíminn fjallaði um tölfræði og forritin sem við notum til þess að prófa tilgátur. En þetta pine var dálítið fyndið, enda forrit sem hægt var að nota til að senda skeyti milli fólks á landa. Með þessu apparati var hægt að skrifa skeyti og koma þeim hratt á áfangastað.
Á tuttugu árum hefur heimurinn gjörbreyst, með tilkomum veraldarvefsins, tölvupósts, snjallsímans, samskiptamiðla og myndbandamiðlunar á netinu. Hlutirnir hafa breyst ákaflega hratt, svo hratt að fáir hafa staldrað við að spá í því hvaða áhrif breytingarnar hafa.
Nicholas Carr fjallar um þetta í bókinni The shallows. Carr hvetur okkur til að horfa framhjá efninu, og horfa á áhrif tækninnar sjálfrar. Umræðan um jákvæð eða neikvæð áhrif veraldarvefsins hefur aðallega snúist um efnið. Er efni á netin gott eða slæmt?
Færri spurðu, hvaða áhrif hefur það á okkur að nota veraldarvefinn?
Svarið felst í lengri titli bókar Nikulásar Carr - The shallows, what the internet is doing to our brains.
Í bókinni fjallar hann um áhrif tækni á hugsun mannsins og hvernig hún mótar samfélög okkar. Við höfum (innblásnir af Carr) fjallað um áhrif klukkunar, ritmáls og bókaprentunar á mannkynið og samfélögin. Það er í raun bara formáli að kjarna bókarinnar. Þar færir hann mjög sannfærandi rök fyrir því að sítenging okkar við netið, samskiptamiðla og snjallsímar séu bölvun. Áhrifin eru margþætt, á hugsun, rökvísi, tilfinningaþroska, samskiptahæfileika og vellíðan.
Heilinn er ekki greyptur í stein. Það sem við bjóðum heilanum upp á, mótar starfsemi hans. Með því að horfa á tónlistarmyndbönd allan daginn, venst heilinn tónlist og mikilli sjónrænni örvun. Hann þjálfast ekki í rökvísi, nærgætni eða náungakærleik á slíkum fóðrum. Heilar eru sveiganlegir, enska hugtakið er neuroplasticity.
Alnetið og sítengingin við það hefur áhrif á hugsun okkar. Við stöldrum stutt við á vefsíðum, lesum færri setningar, skimum frekar en að lesa, stiklum yfir en ígrundum ekki. Lestur á bók er allt öðru vísi, þar getur maður strandað á setningu og velt fyrir sér persónunni eða ráðgátunni. Stundum kvikna hugmyndir um mann sjálfann eða tilfinningar fólks sem auðgar líf okkar. Vefurinn er risastjór athyglisdreifari, sem er með gríðarlega útbreiðslu og flestar manneskjur á jörðinni innan seilingar. Líkingin í Matrix þríleiknum, þar sem manneskjur voru orkulindir fyrir vélar, er etv ekki svo fjarri lagi. Við, hin sítengdu og grunnhyggnu, dönsum í takti sem rafrásirnar og vélmálið setur.
Með því að lesa bókmenntir og ræða eðli lífsins við fólk í eigin persónu, venst heilinn rökhugsun, virðingu og tilfinninganæmni. Því hlýt ég að skilja við hér og lesa næstu bók. Why grow up, eftir Susan Neiman (undirtitil, subversive thoughts for an infantile age). Sú bók fjallar um æskudýrkun nútímans og hvernig stjórnvöld hagnast á því að friða almenning með einföldum hugmyndum. Til dæmis þeirri að það sé svalt að vera barnalegur og lummó að vera fullorðinn. Einföld leið til þess er dægurmála rigningin á alnetinu.
Góðar stundir.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:50 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Góð og tímabær grein.
Jón Erlings Jónsson (IP-tala skráð) 22.11.2016 kl. 16:55
Takk kærlega fyrir Jón.
Vonandi verður hún líka fólki hvatning til lesturs, ekki bara á pistlum eins og þessum.
Klukkur og bækur breytta heilum
Orð á bók og skjá
Arnar Pálsson, 25.11.2016 kl. 01:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.