Leita í fréttum mbl.is

Bók um sögu erfðafræðinnar

Rök lífsins er ný bók um sögu erfðafræðinnar, sem Guðmundur Eggertsson prófessor skrifar.

Kolbrún Bergþórsdóttir ræddi við hann fyrir Fréttablaðið. Þar lýsti Guðmundur efni bókarinnar.

Ég fjalla um einstaka vísindamenn sem voru annaðhvort erfðafræðingar eða komu óbeint við sögu erfðafræðinnar, eins og til dæmis þróunarfræðingar. Ég byrja á Aristótelesi sem hafði töluvert um erfðafræðina að segja. Honum var ekkert óviðkomandi og stundum gleymist að hann var afkastamikill líffræðingur. Það er frekar óvenjulegt að menn sameini áhuga á heimspeki og líffræði, en hann stundaði líffræðirannsóknir og lýsti til dæmis miklum fjölda dýra og krufði þau.

Ég segi frá fjölmörgum öðrum frumherjum erfðafræði- og þróunarfræðirannsókna, þar á meðal Alfred Russel Wallace sem var merkilegur brautryðjandi í þróunarfræði á 19. öld. Hann var mjög frumlegur náungi, sjálfmenntaður, og komst að sömu niðurstöðu og Darwin, óháð honum, um náttúrulegt val. Það fór svo að þeir birtu samtímis greinar um þetta í ensku tímariti árið 1858 sem vöktu litla athygli, en síðan dreif Darwin sig í það að skrifa bókina Uppruni tegundanna.

RokLifsinsErfðafræðin fór að blómstra um aldamótin 1900, en erfðafræðirannsóknir fólust aðallega í því á þessum tíma, allt fram yfir 1940, að fylgjast með erfðum gena og einkennunum sem þau réðu. Menn vissu að genin voru á litningum í frumukjarna en það vantaði hins vegar þekkingu á efnislegri gerð þeirra og lífefnafræðilegri starfsemi. Á þessu voru lengi vel sáralitlar rannsóknir. Margt var þó vel gert og ber hæst brautryðjendarannsóknir Morgans á ávaxtaflugunni, sem ég segi frá. Undir lok fjórða áratugarins fóru menn að reyna í alvöru að tengja starfsemi DNA við lífefnafræðileg ferli og ég segi líka frá því. Enn var þó eðli erfðaefnis hulið og það var ekki fyrr en um 1950 sem það upplýstist þegar Watson og Crick lýstu gerð DNA-sameindarinnar. Það er merkilegt hversu seint athygli manna beindist í alvöru að eðli erfðaefnisins. Það er þó skýring á því, því lífefnafræðin var enn á þróunarstigi og réð tæpast við verkefnið.

Benedikt gefur Rök lífsins út.

Viðtalið í Fréttablaðinu Bók um sögu erfðafræðinnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband