20.8.2018 | 16:43
Staða raungreina á Íslandi
Til: Mennta- og menningarmálaráðherra
Efni: Ályktun um stöðu raungreina á Íslandi.
Nýjum námskrám ættu að fylgja nýjar áskoranir. Áskoranir sem bæta starf og auka gæði menntunar. Heppilegt væri að þetta ætti við nýju styttu námsbrautir framhaldsskólanna. Áskoranirnar undanfarin missera liggja í því að reyna að lágmarka skaða sem styttingin felur í sér. Fjölmargir metnaðarfullir áfangar hafa verið smíðaðir, samþykktir og auglýstir í skólanámskrám íslenskra framhaldsskóla. Sumir eru kenndir á hverri önn, aðrir aðra hverja og enn aðrir aldrei þar sem þeir ná ekki að uppfylla viðmið um hópastærðir og er því ekki rekstrargrundvöllur fyrir kennslunni. Áhugasamir nemendur sem óska eftir að dýpka þekkingu sína fá því ekki menntun við hæfi.
Til er fólk sem fagnar styttingu framhaldsskólanna, telja það ákall til breyttra tíma og mikilvægt til að leiðrétta tímaskekkju íslensks skólakerfis, eftir breytinguna útskrifist íslensk ungmenni með stúdentspróf á sama tíma og jafnaldrar þeirra í útlöndum ljúka samskonar námi. Útlönd eru þó allskonar og tímaskalar hvorki fasti né forsenda kerfisbreytinga á Íslandi. Fagleg rök um mikilvægi ákveðinna námsgreina, hverju mætti sleppa o.s.frv. væru hald- bærari forsendur til að byggja breytingar á. Framhaldsskólinn á Íslandi hefur verið styttur í þrjú ár og þekkir skólafólk að sú breyting byggir ekki á faglegum rökum um aukin gæði menntunar. Samtök líffræðikennara hafa um árabil sent frá sér ályktanir þ.s. viðraðar eru áhyggjur af því að raungreinakennslu fari hnignandi bæði í grunn- og framhaldsskólum.
Á sama tíma og kennsla í raungreinum dregst saman á framhaldsskólastiginu hefur kennslustundum í raungreinum á efsta stigi grunnskóla verið fækkað og þar á þó að fara fram kennsla sem eitt sinn átti heima í framhaldsskólunum. Samkvæmt viðmiðunarstundaskrá er einungis gert ráð fyrir þremur kennslustundum á viku í náttúrugreinum á efsta stigi, sem er allt of lítið. Reynt hefur verið að fækka kennslustundum enn frekar en vegna kröftugra mótmæla var fallið frá því. Kennslustundum var þó fjölgað á yngri stigum. Í framhaldi af styttingu framhaldsskólana væri eðlilegra að fjölga kennslustundum í náttúrugreinum í grunnskóla sérstaklega m.t.t. þess að þeir nemendur sem fara á aðrar brautir en náttúrufræðibraut útskrifast í mörgum tilfellum úr framhaldsskóla án þess að taka einn einasta raungreinaáfanga. Þessir nemendur eru kennarar framtíðarinnar, fólkið sem á að kveikja áhuga komandi kynslóða á eigin heilbrigði og jarðarinnar. Þetta eru verðandi lögfræðingar, blaðamenn og kjósendur.
Samtök líffræðikennara ítreka áhyggjur sínar af þessu. Mikilvægi þess að auka menntun á þessum sviðum ætti einnig að vera augljóst á tímum tæknivæðingar samfélagsins. Við hátíðleg tækifæri er mikilvægi aukinnar menntunar í vísinda ítrekuð. Mikið væri heppilegt að láta verkin tala. Á tímum hnattrænnar hlýnunar, súrnunar sjávar og kröfunnar um sjálfbæra nýtingu auðlinda er einnig áhyggjuefni að nú er svo komið að nemendur á náttúrufræðibrautum sumra skóla ljúka stúdentsprófi án þess að hafa fengið
kennslu í vist- og umhverfisfræðum, undirstöðugreinum þegar kemur að allri umgengi okkar um náttúru og auðlindir. Verkleg kennsla í raungreinum hefur jafnframt dregist saman og fáir skólar hafa tök á því að bjóða upp á frambærilegar verklegar æfingar og vettvangsferðir. Sömu sögu má segja um æðstu menntastofnun landsins, Háskóla Íslands, þar sem verulega hefur verið dregið úr verklegri kennslu og vettvangsferðir heyra nánast til undantekninga vegna fjársveltis.
Samlíf, samtök líffræðikennara, sendu ályktanir til Mennta- og menningarmálaráðherra árin 2013, 2014, 2015 og 2016 vegna niðurskurðar í raungreinakennslu. Eina svarið sem borist hefur var staðfesting á að erindið væri móttekið árið 2016.
Einnig sendi félagið ályktun 2014 þar sem ráðherra var hvattur til að standa vörð um raungreinakennslu með því að tryggja hlut raungreina í nýjum námskrám, einungis þannig verður stuðlað að fjölgun einstaklinga með raungreina- og tæknimenntun í landinu.
Stjórn Samlífs undrast að ráðuneyti sem í orði kveðnu vill fjölga nemendum í raungreina- og tækninámi sporni ekki við þessari skerðingu og kallar eftir að raungreinar; líffræði, efnafræði, eðlisfræði og jarðfræði, verði ríkur hluti af íslensku stúdentsprófi.
Mennta- og menningarmálaráðherra er eindregið hvött til að gaumgæfa vel uppbyggingu í raungreinakennslu meðal annars með áherslu á verklega kennslu til að tryggja að nemendur nái tilsettum hæfniviðmiðum.
Stjórn Samlífs, fyrir félaga í samtökum líffræðikennara, hvetur enn ráðherra til að tala máli raungreina í íslensku skólakerfi og sýna í verki með fjárveitingum til verklegrar kennslu á öllum skólastigum.
Stjórn Samlífs Samtaka líffræðikennara
Hólmfríður Sigþórsdóttir, formaður
Rúna Björk Smáradóttir, gjaldkeri
Jóhanna Arnórsdóttir, ritari
Helga Eyja Hrafnkelsdóttir, meðstjórnandi
Sigríður Rut Fransdóttir, meðstjórnandi
Þórhallur Halldórsson, meðstjórnandi
Sólveig Hannesdóttir, varastjórn
Þórhalla Arnardóttir, varastjórn
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:44 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Hverjar gætu verið þrjár brýnustu spurningarnar
sem að Háskóli Íslands stendur frammi fyrir tengt lífsgátunni?
Jón Þórhallsson, 20.8.2018 kl. 18:42
Sæll Jón
Það er ekki mitt hlutverk að svara fyrir hönd HÍ.
Enda hafa háskólar önnur hlutverk en að svara tilteknum spurningum. Þeirra hlutverk er að mennta fólk, vera miðstöð rannsókna og taka þátt í samfélagi manna (nær og fjær).
Hver kennari fyrir sig ákveður síðan hvað hann rannsakar.
T.a.m. þætti sem hafa áhrif á hegðun flugna, áhrif loftslagsbreytinga á sjávarstöðu og vistkerfi, stef í fornritum eða orsakir hagsveiflna.
Arnar Pálsson, 21.8.2018 kl. 09:22
Það þarf ekkert að taka þessar vangaveltu of alvarlega;
bara að kasta einhverri spurningu fram til að kalla fram umræður.
Hérna ert t.d. góð spurning:
Spurningunni er alltaf ósvarað; hver hefur UMBOÐ til að tala fyrir hönd allra jarðarbúa til gesta frá öðrum stjörnukerfum?
https://thjodarskutan.blog.is/blog/gudspekifelag_s/
Jón Þórhallsson, 21.8.2018 kl. 13:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.