Leita í fréttum mbl.is

Til hamingju Hekla

Sem meðlimur þekkingarsamfélagsins og líffræðingur er ég afskaplega stoltur af styrknum sem Hekla hlaut frá Norræna rannsóknarráðinu. Samkeppnissjóðir eru besta leið okkar til að beina fjármagni í spennandi og framsækin vísindaverkefni. Verkefnið sem styrkt var, virðist vera framhald af rannsóknum Heklu í ónæmisfræði, en sem nýtir þekkingu innlendra hópa á sviði stofnfrumurannsókna. Öllum hlutaðeigandi er hérmeð óskað til hamingju. 

Hekla birti á síðasta ári niðurstöður (í hinu virta riti Nature Immunology) sem sýndu mikilvægi D vítamín framleiðslu í húð fyrir ónæmiskerfið. Þær rannsóknir sýndu að D vítamín er fullmyndað í húð, en lengi var talið að einungis fyrstu skref nýmyndunar þess færu þar fram. Eins og einhverjir kannast við, er sólarljós nauðsynlegt fyrir nýmyndun D vítamíns í húð. Þar sem húðlitur ver húðina gegn orkuríkum geislum sólar, hefur borið á vítamín D skorti hjá hörundsdökku fólki sem býr fjarri miðbaug, sérstaklega að vetrarlagi!. Vísindamenn hafa borið saman húðlit þjóða og þjóðarbrota, og séð að húðlitur dofnar eftir því sem fjær dregur miðbaug. Það bendir til þess að náttúrlega sé valið gegn dökkri húð á hærri breiddargráðum, e.t.v vegna þess hve mikilvægt D vítamín er. Þetta mynstur er ekki án undantekninga, en flestar þeirra eru vegna þjóðarbrota eða ættbálka sem hafa flust búferlum t.t.l. nýlega (sem gæti þýtt að þróun húðlitar þeirra sé skammt á veg komin). Nýleg rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar sýndi að margar stökkbreytingar sem hafa áhrif á hár, augna og húðlit eru undir náttúrulegu vali, sem styrkir þessa tilgátu (aðrir hópar hafa einnig sýnt fram á náttúrulegt val á genum sem tengjast húð og háralit). En ef áhrifin eru í gegnum D vítamín búskap, þá ættu þau einnig að birtast í hraðri þróun gena sem tengjast nýmyndun eða niðurbroti á vítamíninu? Þetta er verðug rannsóknarspurning!

Athugasemdir. Undirritaður vann að umræddri rannsókn hjá ÍE og fékk í kjölfarið mikinn áhuga á D vítamín búskap og skyldri líffræði. Ákveðið prótein bindur D vítamínið, og saman tengjast þau við DNA. Það hefur áhrif á tjáningu margra mismunandi gena, og stýra þannig sérhæfingu og starfsemi mismunandi frumugerða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband