25.3.2008 | 10:46
Vistkerfi í einum ananas
Ein af stóru viðfangsefnum vistfræðinnar er stöðugleiki vistkerfa, eða óstöðugleiki þeirra. Sú hugmynd er djúpt greypt í sálartetur okkar, að umhverfið og veruleikinn sé stöðugur. Á það sama ekki við um lífheiminn og tegundirnar?
Til eru ofgnótt staðfestinga um hið gagnstæða. Tegundir, t.d. samstanda af mörgum einstaklingum og er enginn þeirra eins. Við gætum lýst einhverjum meðal einstaklingi, t.d. meðalþorski (meðalþyngd, lengd, fituinnihald, sundhæfni, kjördýpi...) á hverju ári, en það er öruggt að meðalþorskurinn verður ekki eins á næsta ári, eða þar næsta. Tegundirnar breytast sífellt vegna áhrifa náttúrulegs vals (sem getur verið breytilegt öld frá öld, dag frá degi).
Á sama hátt er augljóst að vistkerfi eru sífelldum breytingum háð, fjöldi einstaklinga hinna mismunandi tegunda breytist, eins samsetning tegunda og eiginleikar lífveranna. Eins er dreifning tegunda í tíma og rúmi ójöfn. Rannsóknir á vistkerfi Mývatns undirstrika þessa niðurstöðu á áhrifamikinn hátt, þar sveiflast efri hluti fæðukeðjunnar með sveiflum í mýinu, en stundum siglir vistkerfið lygnan "meðal"sjó. Þótt heildarframleiðni vistkerfis Mývatns hafi hangið stöðug nokkur ár í röð, þýðir það ekki að um stöðugt vistkerfi sé að ræða, eins og Árni Einarsson og félagar sýndu fram á.
Á jarðfræðilegum tímaskala er Mývatn frekar nýlegt fyrirbæri, og að öllum líkindum mun vatnið fyllast af lífrænum efnum ein góðann veðurdag. Önnur búsvæði eru mun skammlífari, t.d. vistkerfi gerla í meltingarvegi okkar, sem endast kannski 100 ár, ef vel fer (líklegt er að meltingarvegs vistkerfi taki einhverjum breytingum á lífsferli okkar). Annað dæmi eru litlir pollar sem myndast í laufkrónu ættingja ananasplantna (fjölskyldan kallast Bromeliaceae).
Myndin er fengin af síðu Caltech um regnskóga.
Ávöxturinn ananas myndast utan um stilk plöntunar, úr mörgum litlum blómum (hver geiri af ananas er eitt blóm), og laufkrónan situr á topp stilksins. Í mörgum tegundum ananasplantna (þó ekki þeim ræktuðu) sest vatn í laufkrónurnar, allt að tveimur lítrum hjá sumum tegundum. Talið er að þetta sé m.a. leið til að geyma vatn. En um leið sannast hið fornkveðna, þar sem er vatn, er líf. Í þessum tjörnum finnst margt kvikt, sniglar, skordýr, örsmáar salamöndrur (2.5 sm langar) og krabbar. Margar þessara tegunda hafa aðlagast þessu sérkennilega búsvæði, þótt óstöðugt sé. Dásemdir þessa vistkerfis eru raktar í ljómandi pistli Oliviu Judson, á vefsíðu New York Times. Pistillinn er ljóðrænn og þótt hún færi örlítið í stílinn, sem er algengt hjá visindafréttamönnum, get ég eindregið mælt með lesningunni.
Er maður ekki bættari að vita að vistkerfi geta dulist í litlum pollum í laufþykkni?
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 28.3.2008 kl. 16:33 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Takk fyrir skemmtilega grein.
Georg P Sveinbjörnsson, 25.3.2008 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.