4.4.2008 | 13:05
Stökkbreyting í geni en ekki mbl.is
Um síðustu helgi birtist í morgunblaðinu ítarleg grein um rannsókn Stefáns Hjörleifssonar, á umfjöllun íslenskra fjölmiðla um Íslenska erfðagreiningu (titill greinarinnar var "Vilhallir ÍE í umfjöllun"). Stefán fann að íslenskir fréttamiðlar taka yfirleitt fréttatilkynningar frá ÍE umorða þær örlítið og birta, hiksta, roða og gagnrýnislaust.
Maður skyldi ætla að ritsjórar á íslenskum miðlum, í það minnsta Morgunblaðinu og afsprengi þess mbl.is, tæku slíkt til sín og bættu vinnubrögðin. Ónei, nokkrum dögum síðar birta þeir fréttatilkynningu Decode, nánast óbreytta. Berum saman fyrstu málsgreinar fréttarinnar og tilkynningarinnar. Fyrst kemur "fréttin".
"Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu og samstarfsaðilar greindu frá því í bandaríska tímaritinu Nature í dag að tengsl eru milli breytileika í erfðavísi í mönnum og líkum á því að ánetjast nikótíni.
Í tilkynningu frá Íslenskri Erfðagreiningu segir að um helmingur þeirra sem teljast af evrópskum uppruna hafa í sér þennan breytileika í a.m.k. einu eintaki og er áætlað að um 18% lungnakrabbameinstilfella og 10% útæðasjúkdómstilfella megi rekja til hans."
Síðan er fyrsta málsgrein tilkynningar Decode.
"Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu og samstarfsaðilar greina í bandaríska tímaritinu Nature í dag frá tengslum sem fundist hafa milli breytileika í erfðavísi í mönnum og líkum á því að ánetjast nikótíni.
Um helmingur þeirra sem teljast af evrópskum uppruna hefur í sér þennan breytileika í a.m.k. einu eintaki og er áætlað að um 18% lungnakrabbameinstilfella og 10% útæðasjúkdómstilfella megi rekja til hans."
Feitletruðu orðin eru mismunandi milli textabrotanna sjálfra. Athygli er vakin á því að fréttin á mbl.is byrjar á setningu sem er nánast ljósrituð úr fréttatilkynningunni. Síðan er vísað í fréttatilkynninguna, og er fréttin nánast orðrétt eftir það.
Nemendurnir mínir í Háskólanum fá dregið verulega af ritgerðunum sínum fyrir svona fúskaraleg vinnubrögð, og fordæmi eru fyrir því reka vísindafólk úr störfum fyrir ritstuld.
Flókin áhrif erfðaþáttar
Það hefði verið full ástæða fyrir mbl.is að kafa dýpra í þessa spurningu, um áhrif erfðaþátta á nikótínfíkn og lungnakrabba. Heimildaleitin hefði átt að vera einföld, því í sama eintaki Nature er birt grein eftir Hung og félaga, sem lýsir tengslum sama gens við lungnakrabba. Það er sérstaklega forvitnilegt er að ályktanir hópanna um það hvernig breytingar á þessu geni auka líkurnar á lungnakrabba eru mismunandi.
ÍE heldur því fram að áhrif stökkbreytinga í geninu auki fíkn í sígarettur, og stuðli þannig að auknum lungnakrabba. Hung og félagar finna ekki áhrif á fíkn og sterk tengsl við tíðni lungnakrabba. Þriðja greinin birtist í Nature Genetics í sömu viku, og er hún samhljóða Hung og félögum. Genið sem um ræðir er "nicotinic acetylcholine receptor", sem er viðtaki fyrir taugaboðefni acetylcholine, sem getur einnig bundist nicotíni.
Nauðsynlegt er að fylgja þessum rannsóknum eftir og skilgreina betur áhrif erfðaþáttarins, er t.d. möguleiki að hann hafir bara áhrif í þeim sem reykja?
Ítarefni er að finna á síðum Nature (er kannski ekki aðgengileg öllum), the Guardian, og New York Times.
Erfðavísir eykur líkur á fíkn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:09 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Hmmm, kannski aðeins mikið sagt að líkja tilvitnunum í fréttatilkynningar við ritstuld í heimildavinnu - en víst mættu blaðamenn kynna sér efnið betur ef vel á að vera.
Það má ekki bara ráða þig á Moggann í hlutavinnu?? Þú ert fínn penni og vel að þér í fræðunum, spáðu í það
Kolbrún Kolbeinsdóttir, 6.4.2008 kl. 01:33
Sumir stunda þetta reyndar, senda inn fréttatilkynningu í stað þess að auglýsa. En með hliðsjón af niðurstöðum Stefáns Hjörleifssonar, myndi maður ætla að Mbl.is myndi bæta ráð sitt hvað varðar vísindafréttir. Nú til dags reyna margir að selja vörur og meðferðir, með því að láta þær hljóma vísindalega: tala um DNA, aktín og kirtla, til þess eins að selja vaselín með ilmefnum (eða eitthvað þaðan af alvarlegra).
Ég kann ekki nógu vel á klippa/lima takkana til að vinna á Mogganum.
Arnar Pálsson, 7.4.2008 kl. 11:59
Æ, mér finnst nú bara asnalegt að fókusa á eitt fyrirtæki í þessu tilviki. Það lyktar bara alveg svakalega af "díkódöfundinni" sem herjar margan landann.
Hins vegar er ég sammála því að það mætti vera með betri vísindafréttaflutning á Mogganum.
En á meðan Mogginn þýðir hvort sem er flestar fréttir sínar orðrétt upp úr erlendum fjölmiðlum er ekki hægt að búast við að þau geri eitthvað sértilivik fyrir vísindafréttir.
Sem dæmi fékk ég tölvupóst í gær um umsóknir til hugmyndavinnu að öndvegissetrum. Sem er búið að vera í umræðunni og mér finnst sniðugt. Nema hvað. Það á að veita milljón í styrk til nokkurra mánaða þróunarvinnu. Sem er algert djók. Milljón. Til nokkurra mánaða vinnu.
Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 08:27
Erna
Takk fyrir innleggið. Hann Stefán fékk aðgang hjá Decode að fréttaumfjöllun um fyrirtækið, og einbeitti sér þess vegna að fyrirtækinu. Held að öfund sé ekki aðal málið hérna, og slíkt á ekki að bæla gagnrýna og opna umræðu.
Vandamálið er náttúrulega smæð landsins, og að fréttamiðlar hafa takmarkaða getu til að kafa í mál. Spurningin er hvar eru mörkin, hversu langt má ganga í fréttatilkynninga-fréttamennsku?
Arnar Pálsson, 10.4.2008 kl. 13:55
Já, OK, skilðig núna. Þetta er náttúrulega til skammar, en þetta er svona á öllum sviðum ekki bara vísindafréttamennsku. Allavegana á mbl.is. Það eru fréttirnar svo hráar upp úr útlensku að maður fær bara hroll. Ég held það sé bara það mikil samkeppni í þessum bransa og ekki úr það miklum peningum að moða að það er ekki.
Hins vegar, sá ég að eitthvað hefur fyrri athugasemd mín farið í klessu þar sem það vantar miðjuna í hana! Ég ætlaði að splæsa þarna inn í miðja athugasemdina að ég væri bara búin að gefast upp á að vona að það verði nokkur almennileg vísindaumræða eða nokkurn tíman almennilegum fjármunum veitt til grunnrannsókna á Íslandi. Við erum of fá fyrir bæði.
Þess vegna hljómar athugasemdin svona fáránlega, það vantaði alveg millikaflann...sorrý.
Erna (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 21:27
Erna
Takk aftur, inntakið er skýrara núna. Ég hef einnig átt í basli með svona athugasemdir. Vísindaumræða á Íslandi er að þroskast, og það bendir margt til þess að styrkir til grunnrannsókna séu að hækka (eftir margra ára kyrrstöðu). Við eigum ágætt vísindafólk og ættum að gefa því tækifæri á að blómstra, hérlendis. Það er verra fyrir vísindaumræðu hérlendis ef fréttamiðlar nálgast hana með hangandi hendi og metnaðarleysi. Þetta er ekki einungis vandamál fagfólks og áhugamanna, þjóðin hefur ekki efni á því að stroka út línuna milli veruleika og ranginda. Við þurfum að taka stórar ákvarðanir, um stofnfrumurannsóknir, verndun óspillts lands, mengun í byggð, ástand lífríkis hafsins og "auðvitað" um það hvernig ávaxtaflugur þroskast.
Arnar Pálsson, 11.4.2008 kl. 09:33
Já, ég er náttúrulega sammála þér. En hvernig má stuðla að betri fréttaflutningi? Getum við pressað á fjölmiðla til þess á einhvern hátt.
Það væri gaman ef vísindafólk fengi að blómstra á Íslandi. Það er náttúrulega draumurinn. En hvernig getur það nokkurntíman gerst þegar áherslur eru á steinsteypu, malbik og ál?
Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 14:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.