9.4.2008 | 14:21
Gervivísindin í Brain Gym
Gervivísindin er mörg og skrýtin. Þau eiga það sammerkt að tileinka sér orðfæri og hugtök raunvísinda, en sleppa síðan tökum á raunveruleikanum og byggja miklar skýjaborgir (sem notaðar eru til að selja haug af vörum, bókum, diskum...).
Dæmi um slík gervivísindi eru kennsluaðferðir fyrir grunnskóla, þekkt sem Brain Gym, sem hefur verið að ryðja sér til rúms á Bretlandseyjum. Um er að ræða ósköp einfalda leikfimi, t.d. eru krakkarnir beðnir um að gera einfaldar hreyfingar, setja hendina á bringuna, putta í naflann og hugsa. Það er svo sem ósköp saklaust, en rökstuðningurinn fyrir herlegheitunum er það ekki. Þessi æfing á (samkvæmt Brain Gym!) að auka blóðflæði til höfuðsins, og þar með bæta starfsemi heilans.
Bæklingar frá Brain Gym eru stappfullir af slíkum staðhæfingum, sem hljóma vísindalega, rætt eru taugar, blóðflæði og vöðva, en hafa engan vísindalegan grunn. (Myndin að neðan er af spaugsíðunni "The Onion").
Saklaus leikfimi sem gæti nýst til að brjóta upp einsleita kennslu (einkennast því miður af miklum setum og eintali kennara), er markaðsett sem afurð vísindalegra rannsókna. Hvernig eiga nemarnir síðan að samræma þessa "þekkingu" við það sem við vitum um starfsemi líkama okkar, út frá raunverulegum rannsóknum?
Ben Goldachre ræðir þetta í nokkrum skemmtilegum pistlum á vefsíðu sinn, sá besti er titlaður "Ítrekaðir árekstrar við vegg af heimskum kennurum, leiðir til aukins blóðflæðis til ennisblaðanna" sem hljómar mun snarpara á frummálinu: "Banging your head repeatedly against the brick wall of teachers stupidity helps increase blood flow to your frontal lobes"
BBC Newsnight, beindi einnig kastljósi sínu að viðfangsefninu (sjá tengil). Það er sláandi að nokkrir Brain Gym nemendur tileinka sér þvaðrið án nokkurar gagnrýni. Vonandi sjá þau í gegnum reykinn að lokum (ekki viljum við fá lækna sem segja okkur að stinga puttanum í naflann og fara heim). Seinna myndskeiðið er viðtal við forvígismann Brain Gym, sem virðist eiga í mestu basli með að verja staðhæfingar í kennsluefninu. Meðal annars þá að, meðhöndlaður matur innihaldi ekki vatn (á ensku "Processed food do not contain water").
Krakkar þurfa hreyfingu og tilbreytingu í námi. Slík tilbreyting þarf ekki að koma í klæðum Kalifornískra gervivísinda.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 10.4.2008 kl. 08:58 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Ágætis hugvekja hjá þér. Það er með ólíkindum hverju fólk getur trúað...
Sigurjón, 9.4.2008 kl. 17:33
Lassez-Faire
Geri ráð fyrir að með "umhverfistrúarbrögðin" sért þú að vísa til þeirra ályktunar að meðalhiti á jörðinni er að hækka vegna aukins koltvíildiis í andrúmslofti vegna manna gjörða. Hin vísindaleg aðferð setur þröngar skorður hvað varðar hönnun tilrauna, greiningu gagna og túlkun þeirra. Sérstök áhersla er lögð á varkára túlkun. Slík varkárni er einmitt einkenni Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC), sem hlaut friðaverðlaun Nóbels 2007 ásamt Gore. Það þýðir auðvitað ekki að áhrifa manna á veðurkerfi heimsins séu formlega sönnuð, slíkt er bara ekki hægt með hinni vísindalegu aðferð.
Ritrýndar rannsóknir styðja ályktanir IPCC, en ekkert slíkt styður staðhæfingar Brain Gym.
Arnar Pálsson, 10.4.2008 kl. 09:10
Snilld, frábær síða þessi badscience.net
kv.
Halldór (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.