2.5.2008 | 15:07
Ónæmi fyrir býflugum og sýklalyfjum?
Vísindavefurinn hefur þann ágæta sið að birta föstudagssvör, sem eru svör við spurningum af léttara taginu (t.d. Akkuru?, Hvar á ég heima? Hvað er að vera kexruglaður?). Vísindavefurinn birtir líka svör við "alvarlegri" spurningum, um kjarnorku, misgengi og jafnvel þróun býflugna og blóma. Mikið til fróðleiks, en gagnið er kannski ekki augljóst, hvernig nýtist okkur vitneskja um þróun blóma og býflugna? Jú býflugunar aðlagast blómunum, alveg eins og bakteríurnar aðlagast sýklalyfjunum*.
Fyrst verður að "hrósa" mbl.is fyrir losaraleg vinnubrögð, þetta gæti verið föstudagssvar.
Í fyrsta lagi var Linda Pé snögg að benda á að myndin var ekki af bakteríu.
Í öðru lag má finna að fyrirsögninni, sérstaklega "Þróun... hafin". Staðreynd málsins er að lifverur þróast, sem bein afleiðing krafta þróunar, meðal annars náttúrlegs vals. Til upprifjunar, ef i) lífverur í stofni eru mismunandi, ii) mismunur á milli þeirra er arfgengur að hluta, iii) ef þær æxlast mishratt, og iv) lífverurnar berjast fyrir lífinu, þá munu sumar gerðir veljast úr, náttúrulega! Ef við ímyndum okkur stofn baktería sem veldur sjúkdómum í mönnum. Einstakar bakteríur eru misþolnir gagnvart sýklalyfjum. Ef við notum sýklalyf til að meðhöndla sýkinga vegna þessara bakteríu, þá veljast úr þær gerðir sem eru þolnar. Ef við beitum sýklalyfinu stöðugt, mun með tíð og tíma sýklalyfjaþolnu gerðirnar veljast úr, náttúrulega.
Til ítrekunar, þróun lífvera hefst ekki, eins og knattleikur eða fiskveiðivertíð, heldur er bein afleiðing náttúrulegra krafta. Eftir að hafa hirt blaðamanninn vendilega er rétt að benda á að miskilningurinn á rót (sem réttlætir hann samt ekki) í grein Læknablaðsins, skv. Ólafi Guðlaugssyni "En nú er þróun ónæmis hafin fyrir alvöru á Íslandi." Grein Ólafs er annars góð, og honum til hróss.
Viðfangsefni greinar Kristínar Jónsdóttur og Karls G Kristinsonar, sem ól af sér pistil Ólafs og frétt mbl.is er nýleg sýklalyf með virka efnið Flúórókínólón. Kannað var hvernig þol gegn þeim hefur breyst á u.þ.b síðustu 10 árum. Þau sýna að með aukinni notkun hefur tíðni E. coli stofna sem þola lyfið aukist (eins og búast má við út frá þróunarkenningunni). Þetta er meiri háttar mál, því barátta okkar við sýkla er stríð til eilífðar. Lyfjafræðingar hanna lyf, sem við beitum gegn bakteríunum. Í stofnum baktería þróast ónæmi, og í sumum tilfellum getur slíkt ónæmi flust á milli tegunda og jafnvel safnast þol gen saman í fjölónæma stofna. Það eru stofnar þolnir gagnvart mörgum gerðum sýklalyfja. Slíkar fjölónæmar sýkjandi bakteríur er ekki bara kostnaðarliður heldur grafalvarlegt vandamál.
Þróunarkenningin er okkar besta tæki til að útskýra hvernig sýklalyfja ónæmi þróast og hvers vegna. Föstudagsfyrirsögn með alvarlegum undirtóni, rannsóknir á býflugum geta bjargað mannslífum.
* Strangt til tekið þróast blómin og býflugurnar saman, aðlagast hvort öðru. En þau passa samt aldrei alveg fullkomlega saman, það eru alltaf einhverjar býflugur sem passa ekki við sum blómin, og blóm sem ná ekki að laða til sín býflugur. En að meðaltali passa þau nógu vel saman, þema sem sést oft í náttúrunni. Hlutirnir eru ekki fullkomnir bara nægilega góðir.
Þróun ónæmis gegn sýklalyfjum hafin hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 16.5.2014 kl. 15:43 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Þarna er umfjöllunin aðallega hvað varðar kokka ,, Hverju mun tilkoma 'C diff' bakteríunnar breyta í baráttunni,,?? Er þar á ferðinni enn eitt tilbrigðið hjá móður náttúru , sem leiðir til tortímingarþróunar , Verða framtíðarlyfin gegn slíkum vágestum hugsanlega genabreyttar bakteríur , sérþróaðar til árása á sníklana,,?? ??
Bimbó (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 20:18
Fólk er stöðugt að leita nýrra varna gegn bakteríum. Oft er reynt að finna efnasambönd sem virka á ensím sem eru bakteríum einstök, t.d. virka Flúórókínólón efnin á gýrasa, ensím sem vindur ofan af DNA (heilkjörnungar eru með ensím sem sinna sambærilegu hlutverki, en eru öðruvísi í prótinröð).
E.t.v. er hægt að hanna, eða þróa, erfðabreyttar bakteríur til að herja á aðrar bakteríur. En mér finnst líklegra að varnirnar framtíðarinnar verði áfram smáefnasambönd, e.t.v. meira af sérhæfðum ensímum og jafnvel fituefnum. Halldór Þormar, fyrrverandi prófessor við líffræðiskor HÍ, hefur unnið með fituefni, sem gefa góða raun gegn bakteríum.
Arnar Pálsson, 5.5.2008 kl. 08:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.