Leita í fréttum mbl.is

Spendýr með gogg, sem verpir eggjum?

Svarið er breiðnefur, (Ornithorhynchus anatinus á ensku platypus). Dýr af þessari tegund fundust fyrst í Ástralíu, og var samsetning eiginleika þeirra svo sérkennileg að flestir óttuðust að um gabb væri að ræða. Spendýr eru ekki með gogga, þeir finnast bara í fuglum. Og spendýr geta lifandi afkvæmi en verpa ekki eggjum, en það gerir breiðnefurinn. Breiðnefurinn er ekkert gabb (mynd af vefsíðu New York Times).

Samanburður á breiðnef og öðrum hryggdýrum staðfestir að tegundin er spendýr, þótt hana vanti eiginlega spena. Kvendýrin framleiða mjólk sem seytist í gegnum húðina, án þess að almennilegir spenar eða vörtur séu til staðar. Breiðnefir eru mjög fjarskyldir öðrum spendýrum, álitið er að sameiginlegur forfaðir beggja hópa hafi verið uppi fyrir um 170 milljónum ára.

Í líffræði hefur síðasti áratugur verið mótaður af raðgreiningu erfðamengja. Fyrst voru raðgreind erfðamengi bakería, eins og Haemophilus influensa en síðan hafa bæst við mengi úr fleiri tegundum, sveppum, flugum, plöntum og mönnum. Nú í vikunni birtist grein í Nature um raðgreiningu erfðamengis breiðnefsins, og því eðlilegt að spyrja á nýjan leik, er hann spendýr?

Erfðamengið staðfestir skyldleika við spendýr, þar sem rúmlega 18.000 gen eru samsvarandi í breiðnef, manni, mús og hundinum, en erfðamengi hans er samt með mörg gen sem eru einkennandi fyrir skriðdýrin. T.d er hann með gen sem eru nauðsynleg fyrir myndun stórra eggja (með forða og skurn) og önnur sem eru sérstök fyrir augu skriðdýra. Genin sem mynda blóma í eggi (e. yolk, þetta er forði) hafa einmitt horfið í spendýrum, vegna þess að forði er ekki lengur nauðsynlegur þegar þroskun gerist í innvortis og ungviðið fær næringu frá móður sinni. Þegar eiginleika er ekki lengur viðhaldið af náttúrulegu vali, hljóta genin sem liggja að baki að safna upp skaðlegum breytingum og að endingu hverfa (sjá grein í PLOS biology).

Að auki verð ég að minnast á að breiðnefurinn hefur sérkennilega samsetningu kynlitninga, 5 X og 5 Y litninga. Í karldýrunum mynda litningarnir síðan keðjur og erfast saman (í karlkyns eða kvenkyns kynfrumu).

Þótt breiðnefurinn sé sérkennileg skepna situr hann samt tryggilega á sinni grein í þróunartré lífsins á jörðinni. Sem lífvera á fjarlægri grein tek ég ofan fyrir kauða og öðrum undrum náttúrunar með lotningu, virðingu og forvitni.

* Í fyrstu útgáfu kallaði ég skepnuna flatnef, en blessunarlega leiðrétti Jóhannes það. Hann á þakkir skildar fyrir árveknina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Stórmerkileg skepna.  Rakst einmitt á svipaða frétt í gær á yahoo.

Þorsteinn Sverrisson, 9.5.2008 kl. 14:53

2 identicon

Ég hélt það væri komin hefð fyrir heitinu breiðnefur á Íslandi.

Jóhannes (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 16:25

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Jóhannes, leiðrétti þetta snarlega!

Arnar Pálsson, 9.5.2008 kl. 17:07

4 identicon

Skemmtileg grein :)

. (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband