Leita í fréttum mbl.is

Helsingjar, erfðabreytt bygg og líming á DNA

Undir lok skólaárs er alltaf mikið fjör, ritgerðir, próf og í tilfelli framhaldsnema varnir. Framhaldsnemar sem ljúka rannsóknarverkefni þurfa að flytja erindi um rannsóknir sínar, og að geta svarað gagnrýnum spurningum. Slík eldskírn er flestum holl, íslendingar mættu oft vera duglegri að standa upp fyrir framan hóp fólks, kynna málstað, hugmyndir eða rannsóknir. Reyndar farnast löndum okkar ágætlega í rituðu formi samanber pistla á vefsíðum, en við þurfum að þjálfa ungt fólk í að halda erindi. Þrátt fyrir það er ég viss um að erindi sem flutt verða af framhaldsnemum í líffræði á morgun og föstudag verða hvert öðru betra. Um er að ræða þrjú erindi, sem sýna breidd líffræðinnar í dag.

Meistaraverkefni Þórdísar Vilhelmínu Bragadóttur snýst um atferli Helsingja í Skagafirði. Þeir millilenda hér á leiðum sínum til og frá Grænlandi, aðallega til að bæta á sig fæðu. Erindið verður föstudaginn 16. maí 2008, kl 14:15 í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi, Sturlugötu 7.

Aðalheiður Arnarsdóttir þróaði í meistaraverkefni sínu aðferðir til að stýra framleiðslu framandi prótína í byggi. Það er mikil þörf á framleiðslukerfum fyrir lífvirk efni, t.d. prótín, og ORF líftækni hefur hannað og standsett mjög öflugt kerfi til að mæta þessari þörf. Niðurstöður sínar kynnir Aðalheiður föstudaginn 16. maí 2008, kl 16:00 í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi, Sturlugötu 7.

Þriðja erindið flytur Gísli Gunnar Gunnlaugsson um fjórðaárs verkefni sitt. Það fjallar um starfsemi DNA lígasa í bakteríum, sem eru ensím líma saman DNA þræði. Þau eru t.d. nauðsynleg í viðgerð á DNA, því brotið DNA getur leitt til litningabrengla og margskonar sjúkdóma. Erindi Gísla verður fimmtudaginn 15. maí 2008, kl 15.00 í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi, Sturlugötu 7.

Hvert um sig eru verkefnin hluti af stærri heildamynd, það er þannig sem þekking byggist upp, tilraun fyrir tilraun. Hlutaðeigandi er óskað hjartanlega til hamingju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband