Leita í fréttum mbl.is

Drápseðli í DNA?

Fólk hefur löngum velt fyrir sér hvort atferli sé arfgengt. Rándýr þrífast ekki nema með því að drepa önnur dýr, þótt vissulega leggist mörg rándýr einnig á hræ af "sjálfdauðu". Atferli er hluti af svipgerð einstaklinga og hlýtur að samþættast formi þeirra og starfsemi. Rannsóknir á atferli eru harla erfiðar því svipgerðirnar eru oft erfiðar í skilgreiningu. Ef einhver hefur áhuga á hjartasjúkdómum, getur viðkomandi t.d. mælt stærð hjartans, blóðþrýsting og styrk kólesteróls. Ef sá sami hefði áhuga á atferli er ekki alveg jafn augljóst hvað skal mæla, í tilfelli örnsins gæti maður talið fjölda músa sem eru étnar, hversu lengi örnin svífur, hversu margar atlögur og svo fram eftir götunum. En það er reglulega erfitt að skilgreina atferli og hegðun lífvera.

En er hegðun arfbundin?

Það eru fjölmargar vísbendingar um að stökkbreytingar í genum geti haft áhrif á atferli! Tilraunadýr með vissar stökkbreytingar, forðast ákveðna lykt, bregðast misjafnlega við taugaboðefnum, reyna mislengi við einstaklinga af gagnstæðu kyni og svo framvegis. Það er líklegt að hluti af þeim mismun í atferli og  manngerðum sem við þekkjum úr daglegu lífi sé tilkominn vegna erfða. Mikilvægt er að við áttum okkur á því að slíkur breytileiki er náttúrulegur. Ómögulegt að staðhæfa að ein gerð atferlis sé annari betri, einfarinn er ekkert endilega betri en samkvæmisljónið, allavega í þróunarlegum skilningi.

 

Kveikjan að þessari hugleiðingu var auglýsing sem við settum saman fyrir líffræðinám við Háskóla Íslands (nánari upplýsingar í kennsluskrá HÍ). Þakkir til Róberts Arnar Stefánssonar við Náttúrustofu Vesturlands sem lagði til mynd af arnarunga og Skarphéðins Halldórssonar doktorsnema við líffræðiskor fyrir mynd af frumum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott auglýsing. Hvar verður hún birt?

Vonandi að heimasíðumál hjá líffræðinni fari í sama farveg.

Jóhannes (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 16:29

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Nokkrar skyggnur um nám í raunvísindadeild fara í kvikmyndahús.

Vefsíða líffræðinnar endurfæðist í sumar, með nýjum vef HÍ.

Arnar Pálsson, 30.5.2008 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband