25.6.2008 | 17:25
Hver er spurningin?
Í vísindum skiptir mestu máli að skilgreina spurninguna. Margir fara flatt á því að láta græjur eða sýni stjórna rannsóknum sínum, því það sem skilar mestum framförum er heimildavinna og hugmyndir. Vísindi eru nefnilega sambland af leynilögreglustörfum og list. Iðkendur vísinda verða að kafa djúpt í heimildir og birt efni, en verða einnig að hafa skapandi hugsun til að setja fram nýjar tilgátur og hugmyndir um vandamál sem skipta máli.
(Mynd af vefsiðunni homepages.ius.edu/DPARTIN/)
Eðlilegt er að spyrja, hvað er síðasta takmark líffræðinnar?
Er það að skilja...
uppruna lífs?
erfðir og þroskun vænglögunar hjá flugum?
sveiflur í samsetningu vistkerfa?
erfðir og líffræði greindar?
af hverju frumdýr stunda kynlíf?
Samkvæmt nýlegum tíðindum ætlar Íslensk erfðagreining að kanna hvort að erfðabreytileiki hafi áhrif á mismun í athygli, minni og hraða hugsunar. Allt eru þetta reyndar eiginleikar sem má með réttum lifnaðar hætti skerpa á, en e.t.v. leynast stökkbreytingar meðal vor sem hafa nægilega sterk áhrif til að þau greinist í erfðamengis skimun. Áhugi vísindamanna á greind er ekki nýr, félagslíffræðingarnir fóru mikinn á þessu sviði á siðustu öld og Crick, sem fann byggingu DNA ásamt Watson, eyddi síðustu áratugum sínum í að rannsaka meðvitund og starfsemi heilans. Vissulega heillandi viðfangsefni eins og naflaskoðun alltaf er. Ætli flestar dýrategundir séu ekki frekar sjálfhverfar, og líklegt er að ofvitrir höfrungar með tilraunastofu myndu leggja mikið á sig til að skilja hversvegna höfrungar séu óæðri hvölum greindari.
Kæru lesendur, ég væri forvitin að heyra hvað þið haldið að séu verðug takmörk líffræðinnar?
Hvaða stóru spurningar á líffræðin að reyna að svara?
Íslensk erfðagreining stefnir að síðasta takmarki líffræðinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:30 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
ÉG tek undir þetta hjá þér Arnar. Það er sannarlega það erfiðasta í starfi líffræðings að finna bestu spurningarnar.
Þessi fyrirsögn hjá mbl hljómar pínu eins og hún sé þýdd úr ensku: "biology's last frontier" eða síðasta "ókannaða" svið líffræðinnar sem er af mörgum talið vera heilinn.
Ég persónulega held ekki að við munum nokkurn tíman geta skilið lífið að fullu fyrr en við vitum hvernig það kviknaði.
Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 20:42
Tek undir "Vísindi eru nefnilega sambland af hugmynd, leynilögreglustörfum og list."
:)
Kjartan Pétur Sigurðsson, 26.6.2008 kl. 15:13
Er ekki viss um hver stóra spurningin ætti að vera, en hugsa að svarið við henni sé 42
Haraldur Rafn Ingvason, 26.6.2008 kl. 18:33
42 er gott svar Haraldur.
Aðrar spurningar úr sarpinum og frá öðrum
Afhverju er svefn svona mikilvægur?
Hvernig getur meyfæðing virkað?
Hvers vegna viðhelst kynæxlun og meiósan, sérstaklega í lífverum sem geta klónað sig?
Er atferli arfbundið (sjá Drápseðli í DNA? http://apalsson.blog.is/blog/apalsson/image/549791/)?
Hvernig getur þroskun lífvera breyst í þróun?
Hvernig myndast nýjar tengingar milli prótína?
Hvernig verjast plöntur sýklum án ónæmiskerfis?
Hvers vegna eru 37 gráður kjörhiti svo margra lífvera?
Hvaða kerfi eru nauðsynleg fyrir spendýr sem fara í dvala?
Hvaða máli skipta þau kerfi í öðrum lífverum?
Þetta er rétt svona forsmekkur, við eigum eftir að kafa í djúpu þróunarfræðilegu spurningarnar!
Arnar Pálsson, 7.7.2008 kl. 11:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.