25.8.2008 | 10:34
Skilningur og trú
Á námsárum í Norður Karólínu vann ég fyrir mér sem aðstoðarkennari í erfðafræði. Aðalkennarinn varaði okkur við því að ræða tvö viðfangsefni, þróun og fóstureyðingar, vegna þess að sumir nemendanna væru með sterkar trúarlegar skoðanir. Ég hlustaði ekki á hann því viðfangsefnin eru mikilvæg og við getum ekki látið trú nemenda trompa kennslu. Hvað ef einhver trúflokkurinn tryði ekki á tilveru innri líffæra? Ættum við þá ekki að kenna líffærafræði og lífeðlisfræði?
Kennsla í raungreinum hefur tvennan tilgang. Í fyrsta lagi að draga saman þekkingu okkar á viðkomandi sviði t.d. efnafræði ensíma, eiginleikum ljós, starfsemi líffæra eða ferlum þróunar. Í öðru lagi á kennslan að gefa nemendum innsýn í aðferðafræði vísinda. Þar vegur mest að vísindin geta aldrei sannað neitt (nema stærfræðin auðvitað) en þekkingin byggist upp þegar við afsönnum vísindalegar tilgátur. Í dag er okkar besta tilgáta (í styttri mynd) um blóðrásarkerfið sú að hjartað dælir blóði, sem ferðast með slagæðum út í vefi, hríslist í gegnum háræðar og skili sér síðan aftur með bláæðum. Aðrar tilgátur hafa verið afsannaðar, t.d. sú hugmynd að vefirnir eða lungu dæli blóði, eða að blóðið hreyfist af eigin tilstuðlan.
Kveikjan af þessari hugvekju er grein eftir Amy Harmon í New York Times, um vísindakennara í Florida sem kennir meðal annars þróun lífsins. Í bekk hans eru nokkrir nemendur sem af trúarástæðum eiga erfitt með að meðtaka þróun lífsins og þá sérstaklega mannsins. Nálgun kennarans er varfærnisleg en samt lofsverð. Hann spinnur saman dæmi um Mikka mús frá nokkrum tímaskeiðum sem líkingu fyrir þróunarlega breytingu, leyfir krökkunum að bera saman afsteypur af beinum risaeðla og gefur þeim innsýn inn í vísindaleg vinnubrögð.
Besti punkturinn finnst mér vera greinarmunur sem hann gerir á trú og skilningi. Þú getur skilið náttúruleg ferli, jarðskjálfta, rafmagn og þróun lífsins, en þarft samt ekki að afneita trú þinni á yfirnáttúrulegan guð. Nemandurnir þurfa ekki að afneita trú sinni, en þau eiga að skilja námsefnið.
Vísindin geta ekki metið hugmyndir um yfirnáttúrulegan guð eða aðrar hugmyndir um yfirnáttúruleg fyrirbæri. Í einu mjög áhrifaríku dæmi sagði einn nemandinn að það væri visindaleg sönnun fyrir tilvist guðs. Hann sagði að einhver hefði fundið skip sem virtist vera örk Nóa á Ararat. Kennarinn spurði þá, hvort hann myndi enn trúa ef sýnt væri fram á að viður skipsins væri mun yngra en biblían segði til um? Nemandinn játaði að trú hans myndi ekki kvikna.
Trúarleg sannfæring gagnast okkur ekki við rannsóknir á efnisheiminum, hvort sem um er að ræða eiginleika jarðskorpu, hjartans eða þróun tegundar okkar.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Flott grein, væri gaman að heyra af þinni reynslu líka :)
Aldrei skilið þetta, þessa afneitun á andstæðum skoðunum, akkuru mega.. og vilja.. trúaðir ekki fræðast um þetta.
Mér persónulega finnst trú tilgangslaus, samt er ég alltaf tilbúinn að fræðast um trú.. amk. á fræðilegum nótum. Finnst td. slæmt hvað ég veit í raun lítið um önnur trúarbrögð en kristni.
Arnar, 25.8.2008 kl. 16:07
Mér finnst ÞETTA litla myndband segja það sem segja þarf.
Jón Steinar Ragnarsson, 25.8.2008 kl. 23:33
Nemendurnir mínir voru flestir of hlédrægir, eða með ákveðin að standa sig vel í erfðafræðinni af því að þeir voru á leið í læknaskóla.
Gullgerðar tilvitnunin er góð (hvaðan?) og myndbandið óvenju vel unnið miðað við heimagert efni. Þakka ykkur báðum fyrir innleggin.
Arnar Pálsson, 26.8.2008 kl. 08:52
Af ýmsum fyrri skrifum þínum, var ég búinn að geta mér þess til að þú hefðir upplifað eithvað þessu líkt þarna úti
Að mínu mati eru skilaboð aðalkennaranns til þín fáránleg. Með því að forðast að ræða þróun (í erfðafræðikennslu - halló) vegna þess að hluti nemenda hefði sterkar trúarskoðanir er einfaldlega verið að gúddera trúarlega skoðanakúgun - í raunvísindum á háskólastigi!
Fyrir fáeinum árum kom erlendur gestur, sem var á leið á einhverja fiskaráðstefnu, í vinnuna til okkar. Við sýndum honum m.a. hin fjögur fræknu (bleikjuafbrigðin í Þingvallavatni). Hann stóð framan við fiskabúrið - algerlega heillaður af því að sjá þarna afbrigða/tegundamyndun í gangi.
Síðan spurði hann varfærnislega hvort við yrðum ekki að fara varlega í umfjöllun okkar um þetta. Hann varð mjög hissa þegar ég sagði honum að við hefðum aldrei fengið neinar athugasemdir varðandi áherslur okkar á þróun þessara bleikjafbrigða frá sameiginlegum forföður.
Þessi gestur kom frá "landi hinna frjálsu". Þarna áttaði ég mig á því að það sem maður hafði heyrt af árekstrum trúar og þróunarfræði í skólakerfinu þarna westra var greinilega fúlasta alvara!
Haraldur Rafn Ingvason, 30.8.2008 kl. 01:37
Takk fyrir að deila þessari sögu.
Það var aðallega í Norður Karólínu sem maður varð vitni að þessari "nærgætnu" nálgun. Reyndar þykir mér miður að Stephen J. Gould sé fallinn frá og að þróunarfræðingar nútímans fylki sér um Richard Dawkins. Dawkins er bara ekki nægilega nákvæmur, og gjarn á sleggjudóma í samfélagsumræðu sinni. Geri það e.t.v. að umræðuefni síðar.
Arnar Pálsson, 1.9.2008 kl. 21:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.