28.8.2008 | 09:31
Erindi: Erfðir kransæðastíflu
Mæli eindregið með fyrirlestri sem verður nú í dag. Þar mun Anna Helgadóttir læknir verja doktorsritgerð sína um erfðir kransæðastíflu. Erindið verður flutt í sal 105 í Háskólatorgi og hefst kl.13.00.
Sjá einnig fréttatilkynningu (örlítið stytt):
Í dag, föstudaginn 29. ágúst fer fram doktorsvörn við læknadeild
Háskóla Íslands. Þá ver Anna Helgadóttir læknir, doktorsritgerð sína
Genetics of Myocardial Infarction: Variations in Genes Encoding 5-
Lipoxygenase Activating Protein and Leukotriene A4 Hydrolase and a
Common Variant on Chromosome 9p21 Affect the Risk of Myocardial
Infarction eða Erfðir kransæðastíflu: Breytileiki í genum sem
stjórna levkótríenframleiðslu og algengur breytileiki á litningi 9p21
auka áhættu á kransæðastíflu.
Andmælendur eru dr. Anders Hamsten, við Karolinska Institutet í
Stokkhólmi og dr. Þórarinn Gíslason, prófessor við læknadeild Háskóla
Íslands.
Leiðbeinendur í verkefninu voru dr. Guðmundur Þorgeirson og dr. Kári
Stefánsson. Í doktorsnefnd sátu Guðmundur Þorgeirsson, Kári
Stefánsson, Augustine Kong og Unnur Styrkársdóttir.
Dr. Kristján Erlendsson, dósent og varadeildarforseti, stjórnar
athöfninni sem fer fram í sal 105 í Háskólatorgi og hefst kl.13.00.
Ágrip:
Æðakölkunarsjúkdómar eru taldir orsakast af flóknu samspili erfða-og
umhverfisþátta og einn af aðaláhættuþáttum fyrir kransæðastíflu er
fjölskyldusaga um kransæðasjúkdóm. Meginmarkmið þessarar rannsóknar
var að einangra erfðaþætti sem hefðu áhrif á áhættuna á að fá
kransæðastíflu. Tengslagreining á íslenskum fjölskyldum gaf til
kynna að svæði á litningi 13 hefði áhrif á tilurð kransæðastíflu. Í
kjölfarið var breytileiki í erfðavísi er tjáir arachidonate-5-
lipoxygenase activating protein (FLAP) einangraður. FLAP tekur þátt
í framleiðslu svokallaðra levkotríena sem hafa hlutverki að gegna í
bólgumyndun.
Breytileiki í öðrum erfðavísi sem tilheyrir sama líffræðilega
boðferli og FLAP, leukotriene A4 hydrolase (LTA4H), hafði einnig
fylgni við kransæðastíflu í íslenskum efnivið og í bandarískum hópum
af evrópskum uppruna. Þessi erfðabreytileiki reyndist vera enn
sterkari áhættuþáttur fyrir kransæðastíflu hjá Bandaríkjamönnum af
afrískum uppruna.
Þriðji erfðabreytileikinn sem lýst er í ritgerðinni er staðsettur á
litningi 9p21 en hann sýndi afar marktæka fylgni við kransæðastíflu.
Annari aðferð, svokallaðri örflögutækni, var beitt við einangrun
hans. U.þ.b. 21% einstaklinga bera tvö eintök af þessum
erfðabreytileika og þeir hafa um 60% auknar líkur á að fá
kransæðastíflu miðað við þá sem ekki bera erfðabreytileikann.
Erfðabreytileikinn hefur einnig áhrif á tilurð ósæðagúla og gúla á
heilaæðum.
Sú vinna sem lýst er í þessari ritgerð er innlegg til aukins
skilnings á tilurð og meingerð kransæðastíflu. Þessi vitneskja gæti
haft klíníska þýðingu þar sem lyf sem hindra annað hvort FLAP eða
LTA4H gætu haft áhrif þess á gang sjúkdómsins. Að auki mætti nota
upplýsingar um það hvort einstaklingar beri erfðabreytileikann á
litningi 9p21 til áhættumats og forvarna.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 16.5.2013 kl. 09:47 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.