2.10.2008 | 11:50
Ef maður hefði sundmaga?
...væri mögulegt að maður hefði pantophysin (einnig kallað Pan1)? Og ef sum okkar gætu kafað niður á 400 metra en önnur "einungis" 50 metra dýpi, er frekar líklegt að það tengist breytileika í Pan1 geninu.
Þar sem fæst okkar eru fiskar neyddist Ubaldo Benitez Hernandez til að rannsaka alvöru þorska. Hann sá að gerð B af pan1 geninu er ríkjandi djúphafi (80%) en minnkar hratt þegar nær dregur yfirborði. Í efstu 25 metrunum er tíðni B milli 5 og 15% (smá munur eftir árstíma). Líklegast eru gerðirnar náttúrulega aðlagaðar að mismunandi dýpi, og sú staðreynd að Pan1 starfar í sundmaganum styður þá tilgátu. Ubaldo mun verja meistararitgerð um rannsókn sína föstudaginn 3 október, kl 14:00 í stofu 132 í Öskju.
Í dag, fimmtudaginn 2 október mun samstúdent Ubaldos, Svava Ingimarsdóttir einnig verja sitt verkefni. Hún rannsakaði stofnbyggingu karfa í Norður-Atlantshafi, og hennar helsta niðurstaða er að tegundirnar gullkarfi og djúpkarfi eru frekar illa aðskildar. Þetta ályktar hún út frá breytileika í erfðamengi hvatbera þeirra, þar sem þeir eiga margar stökkbreytingar sameiginlegar. Gull og djúpkarfi eru hins vegar greinilega aðskildir frá litla karfa, og er áætlað að hóparnir hafi aðskilist fyrirum 700.000 árum. Erindi Svövu er kl 14:00 í Lögbergi.
Lilja Stefánsdóttir mun síðan verja sitt verkefni mánudaginn 6 október (kl 16:00 í stofu 132 í Öskju). Hún rannsakaði fjölbreytileika og stofngerð botnfiska við Ísland yfir 11 ára tímabil. Einnig athugaði hún hvaða umhverfisbreytur hefðu áhrif á samsetningu stofna í hafinu. T.d. hefur hitastig áhrif á stofngerð, og einnig hvort að tegundum sé að fækka eða fjölga í hafinu við Ísland (e.t.v. vegna loftslagsbreytinga)?
Starfsmaður á kynningarsviði Háskóla Íslands sagði eitt sinn að fréttir hérlendis væru slorugar, í þeim skilningi að tíðindi af fiski ná athygli af fréttamanna. Fiskurinn skiptir enn máli fyrir þjóðarbúið, en fréttirnar snúast um banka og aura.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:07 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.