26.11.2008 | 17:25
Galsi og eilíft líf
Er eilíft líf í sjónmáli? spyr Atli Steinn Guðmundsson á vísir.is. Svarið er gáskafullt og sprellfjörugt, en harla innihaldslítið. Atli dregur upp vísindamenn á Spáni, sem hann hirðir ekki um að nafngreina, sem eru að rannsaka litningaenda.
Málið er þannig vaxið að litningar styttast í hvert skipti sem þeir eru eftirmyndaðir. Venjulegar frumur geta bara skipt sér 50-70 sinnum, og upp úr því fer að bera á vandræðum vegna þess að litningaendarnir verða óstöðugir eða að virkni mikilvægra gena fer að raskast. Þetta er semsagt raunverulegt vandamál fyrir frumuna, sem telomerasi leysir úr.
Telomerasi er flóki prótíns og RNA sem bætir við enda litninga. Telomerasi er aðallega virkur í kynfrumumyndun. Því er haldið fram í grein Atla að hægt sé að koma í veg fyrir öldrun með því að virkja telomerasann. Vandamálið er að frumur sem ekki eldast geta orðið að krabbameinsfrumum.
Það að kveikja á telomerasa í öllum frumum einstaklings, myndi því svo gott sem tryggja að viðkomandi fengi krabbamein. Lífverurnar feta því oft einstigi með dauðann á báðar hendur. Myndi fólk vilja lifa nokkur ár í viðbót, í skugga krabbans? Væri ekki skynsamlegra að njóta lífsins aðeins betur...í dag!
Rétt er að geta þess að mbl.is hefur einnig gert sig seka um ónákvæm vinnubrögð í fréttum um frumur (t.d. um telomerasa).
Eftir athugasemd Jóhannesar ákvað ég að bæta inn mynd sem sýnir hvernig eftirmyndun á DNA leiðir til þess að endarnir styttast. RNA vísirinn sem er notaður til að nýmynda er fjarlægður og þá stendur eftir örlítill óeftirmyndaður bútur. Með fleiri skiptingum styttist litningurinn sem því nemur, sem leiðir til vandræða. (Mynd úr Genomes eftir T. A. BROWN, af heimasíðu heilbrigðistofnunar Bandaríkjanna. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/books/bookres.fcgi/genomes/ch13f24.gif)
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 5.12.2008 kl. 12:21 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Líking hans við skóreimar á heldur ekki við. Reimar eru ekki að slitna vegna þess að við erum sífellt að eftirmynda þær.
Jóhannes (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 00:00
Takk Jóhannes fyrir góða athugasemd. Telomerar eru með einskonar hettu sem er líklega rótin að líkingunni. Til að átta sig á vandamálinu með litningaendana er best að horfa á hvernig DNA er eftirmyndað. Bætti við mynd í pistilinn til að útskýra þetta.
Arnar Pálsson, 27.11.2008 kl. 10:06
Þetta eru við að sjá ljóslifandi í dag, Sjálfstæðisflokkurinn hefur greinilega nægan Telomerasa og lifir eins og krabbamein, en Framsóknaflokkurinn hefur ekkert og er að afétast.
Kristinn Sigurjónsson, 27.11.2008 kl. 10:48
Veit ekki alveg hvaða líffræðilegu lögmál eiga best við stjórnmálaflokka. Afrán, samlífi, sníkjulífi, fórnfýsi, eftirmyndun, ífarandi mein, góðkynja æxli, blóðkökkur, ensímflóki, stýrður frumudauði, öldrun, en það er öruggt að val fyrir hæfileikaríkum stjórnmálamönnum virðist ekki endilega koma sér vel fyrir fólkið í landinu.
Arnar Pálsson, 27.11.2008 kl. 11:44
Ég er ekkert voðalega sleip (lesist: kann ekkert) í líf- erfða- eða frumufræðum, þannig að ég tek bara heimspekina á þetta.
Ég er frekar á því að eilíft líf sé eitt það versta sem getur komið fyrir mann. Nógu er erfitt að finna sér eitthvað til að halda sér ánægðum í 70-90 ár, hvað þá 150, eða jafnvel 200 ár og lengur! púff, held maður væri orðinn pínku leiður, 176 ára að aldri, og þá blasir bara eilífð við manni í viðbót...
Rebekka, 3.12.2008 kl. 12:13
Sæla skynsemi.
Frumur og heimspeki eru endalausar uppsprettur gleði. Ég er alveg sammála, blessunarlega þurfum við ekki að takast á við ódauðleikan, jafnvel þótt Milan Kundera geri því skóna að leit okkar að honum sé undirrót margra okkar gjörða.
Arnar Pálsson, 5.12.2008 kl. 10:25
Sæll Arnar
"Atli dregur upp vísindamenn á Spáni, sem hann hirðir ekki um að nafngreina, sem eru að rannsaka litningaenda."
Stjórnandi rannsóknarinnar heitir Maria Blasco og hér er grein The Telegraph í heild sinni:
http://www.telegraph.co.uk/health/healthnews/3489881/Scientists-take-a-step-closer-to-an-elixir-of-youth.html
Ég sé ekki að ég rangfæri neitt af því sem fram kemur í frétt tilvitnaðs miðils og biðst undan aðdróttunum um að fréttagildið rýrni við að ég nafngreini ekki þann sem fer fyrir rannsókninni. Slíka blaðamennsku stunda ég ekki og í krafti þeirrar staðreyndar skrifa ég (og les þegar um útvarp er að ræða) allar mínar fréttir og pistla undir nafni. Ég sé ekki að himinn og haf sé á milli þess að ég tali um vísindamenn við Krabbameinsrannsóknarmiðstöðina í Madrid á Spáni eða nefni stjórnanda rannsóknarinnar með nafni. Kær kveðja, Atli Steinn Guðmundsson
Atli Steinn Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 20:36
Sæll Atli
Þakka þér kærlega tilsvarið, mér finnst frábært að þú skulir skrifa undir nafni (nafnleysi hefur oftar en ekki loðað við slakari eða verr unnar fréttir.
Fréttir sem geta heimildamanna, saman hvort um sé að ræða fréttir af litningaendum eða utanríkismálum, eru auðveldara að sannreyna og rannsaka frekar. Annars er hætt við að farið verði að umskrifa tröllasögur úr hinum og þessum miðlum, sem hafa verið umritaðar svo oft að þær eru komnar úr öllu samhengi við upprunalega veruleikann.
Hafðu endilega samband við mig ef þú hefur spurningar um líffræðileg efni.
Kær kveðja,
Arnar Pálsson, 17.12.2008 kl. 15:05
Sæll Arnar
Innilegar þakkir fyrir þetta. Ég er mjög sáttur við svar þitt. Ég reyni að hafa það fyrir meginreglu að geta heimilda og nefna stjórnendur rannsókna en margt af því sem ég skrifa á morgnana eru pistlar sem ég les á Bylgjunni og við Gissur setjum okkur mörkin 60 sekúndur á pistil með inngangi (inngangur hans + pistill minn = 60 sekúndur). Þá verður stundum sumt að mæta afgangi en eins og ég sagði er meginreglan að nafngreina stjórnanda rannsóknar. Ég ítreka þakkir mínar og þú átt virðingu mína óskipta.
Atli
Atli Steinn Guðmundsson (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 20:44
Sæll Atli
Skil að lesnir pistlar í fréttatíma hljóta að vera knappir, en þar reynir einmitt mest á að vera gagnorður og skýr. Stíllinn þinn er léttur (galsalegur stundum) en auðvitað má galsinn ekki bera fréttina ofurliði.
Þegar þú birtir pistilinn á vefnum má vel bæta við ítarlegri heimildum og bakgrunnsupplýsingum sem rúmast ekki innan forms lesinna örfrétta.
Annað mál, fáðu ritstjórnann þinn til að setja tækni og vísindasíðuna aftur upp (hann svarar ekki tölvupósti).
kv,
Arnar
Arnar Pálsson, 18.12.2008 kl. 11:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.