Leita í fréttum mbl.is

Náttúrulegar varnir

Fjölfruma lífverur eru einstaklega kræsilegur kostur, stórir skrokkar, fullir af næringu og byggingarefnum. Rándýr gera sér mat úr slíkum lífverum og það gera einnig fulltrúar smásærri lífvera. Fjöldi tegunda baktería, sníkjudýra, veira og sveppa herja á fjölfrumunga, í leit að betra lífi og möguleikum á að fjölga sér. Fjölfrumungar eru vitanlega ekki varnarlausir. Sumir hlaupa undan rándýrum eða fela sig, en varnir gagnvart sýklum eru annars eðlis. 

Ónæmiskerfið skiptist í tvo megin flokka, hið frumubundna (t.d. hvítar blóðfrumur sem innbyrða sýkla og sýktar frumur og mótefni sem þekkja innrásarliðið) og hið náttúrulega (e. "innate"). Íslenska nafnið er dálítið misvísandi því frumubundna ónæmskerfið er jafn náttúrulegt og hitt. Náttúrulega ónæmiskerfið er hins vegar eldra, það finnst hjá mörgum lífverum sem við álítum "frumstæð" og sem hafa ekki frumubundið ónæmiskerfi.

Enn er margt á huldu varðandi náttúrulega ónæmiskerfið og er rannsóknir á því eðlilega brýnar. Guðmundur Hrafn Guðmundsson við Líffræðistofnun Háskóla Íslands rannsakar kerfið í fiskum og spendýrum. Lykilsameindir kerfisins eru lítil prótín sem geta drepið bakteríur og aðra sýkla. Þessi prótín eru hluti af vörnum húðar, augna, meltingavegar og lungna, til að nefna nokkur dæmi. Prótínin eru oft mynduð sem viðbragð við sýkingu. Stjórnun á tjáningu genanna er því mikilvægt skref, því ef bakteríudrepandi prótínin eru ekki mynduð nægilega hratt, geta bakteríurnar náð yfirhöndinni.

Nemandi Guðmundar, Jónas Steinmann rannsakaði stjórnun á einu slíku geni og kynnir niðurstöðurnar í meistaraerindi sínu: Örvun og stjórnun á tjáningu CAMP gensins Fyrirlesturinn hans verður í Náttúrufræðistofu Háskóla Íslands, Öskju (stofu N-132) kl 15:00 fimmtudaginn 11 des 2008. Ágrip erindisins og nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Háskóla Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband