Leita í fréttum mbl.is

Er DNA lifandi?

Menn eru almennt sammála um að DNA sé ekki lifandi. Einangrað DNA í túbu er hvítur merkilega seigur hnoðri í lausn, en ekki er það lifandi. Ekki frekar en insúlín í lyfjaglasinu er lifandi. Þetta er eitt af undrum lífsins, lífverur eru settar saman úr hlutum sem eru ekki lifandi.

Strangt til tekið höfum við rétt snert á viðfangsefninu hér, en nokkura orða var þörf vegna ónákvæms orðalags í frétt á visir.is (Endurbyggðu nær allt erfðamengi loðfíls ). Viðfangsefnið er raðgreining á erfðaefni loðfíls sem rætt var hér fyrir áramót (Erfðamengi loðfílsins), en í því eru nokkrar misfærslur um eðli gena og erfðaefnis (sbr. tilvitnun að neðan - feitletrun okkar).

Einnig tókst þeim að fá gen úr tasmaníutígur til að lifa í líkama músar en tígurinn hefur verið útdauður síðan 1936. Engin von er þó til þess að risaeðlur líti dagsins ljós á ný þar sem erfðaefni lifir lengst í eina milljón ára.

Rétt hefði verið að segja að gen úr tígrinum geti starfað í líkama músar (sem er ekki merkileg frétt, fullt af genum hafa verið flutt á milli lífvera og geta myndað eðlileg prótín og tekið þátt í líffræðilegum ferlum - misjafnlega vel auðvitað). Varðandi seinni setninguna þá lifir DNA ekki. DNA er reyndar merkilega stöðugt efni, en með tíð og tíma skaddast basarnir og hryggur DNA keðjunar rofnar. Réttara væri að segja að elsta erfðaefni sem einangrað hafi verið sé innan við milljón ára gamalt. Þar af leiðir er upprisa risaeðlanna með erfðatækni ógerleg, og eins og við færðum rök fyrir í eldri pistli er upprisa loðfíla með slíkum aðferðum harla ólíkleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Alltaf jafn gaman og fræðandi að lesa skrif þín. Seg mér, hafa menn leyst vandamálið með eggið og hænuna varðandi kjarnsýrurnar og próteinin? Hvor kom á undan og hvor "yfirtók" hinn?

Björgvin R. Leifsson, 9.1.2009 kl. 18:06

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Eins og Guðmundur Eggertsson lýsir í nýlegri bók, leitin að uppruna lífs, þá hallast menn almennt að því að kjarnsýran RNA hafi komið fram á undan prótínum. Síðan er talið að prótín hafi komið til sögunnar, en DNA líklega síðast. Guðmundur rekur þessa kenningu og aðrar í skýru máli, og hamrar stöðugt á þeirri óvissu sem blasir við öllum sem vilja rannsaka uppruna lífsins. Við erum að takast á við eitthvað sem gerðist í árdaga og mikil óvissa er um undir hverskonar kringumstæðum. Þá skiptir miklu að menn einbeiti sér að prófanlegum tilgátum, sem staðfesta má á tilraunastofu eða með samanburði við mælingar í borkjörnum, steingervingum, eða á milli gena í fjarskyldum lífverum.

Arnar Pálsson, 10.1.2009 kl. 09:36

3 identicon

Mér finnst þetta alveg skelfileg vinnubrögð. Ég held að grunnskólamenntun ætti að nægja til þess að vita að DNA er ekki lifandi. Eins gott að þú ert hér í fullri vinnu við að léðrétta svona vitleysur.

Halla (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 23:52

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Halla

Mörkin á milli dægradvalar og vinnu eru óljós, sem og skilin á milli dansandi íkorna og freyðibaðs. Hugmyndin um að sleppa taki á raunveruleikanum og fljúga um á töfrateppi ofnu úr lifandi DNA er ákaflega freistandi. Brottför kl 8:55 í fyrramálið.

Arnar Pálsson, 13.1.2009 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband