Leita í fréttum mbl.is

Langlífi og stjórnun gena

Gen fyrir þessu og gen fyrir hinu. Réttara er að segja að mismunandi afbrigði gena hafi áhrif á eiginleika, t.d. langlífi eða augnalit. Stökkbreytingar í genum eru orsök þess að mismunandi afbrigði, einnig kallað samsætur ("alleles") gena finnast í hópi einstaklinga. Sumir einstaklingar geta verið með eitt afbrigði (t.d. A) en aðrir annað (a). Oftast eru samt miklu fleiri afbrigði af hverju geni, og réttara að tala um runu samsæta (A1, A2, A3...). T.d. eru til nokkur hundruð útgáfur af Rhesus blóðflokkunum!

Í rannsóknunum sem hér er lýst sást að ein ákveðin samsæta af FOXO3A geninu er algengari í langlífum einstaklingum en í viðmiðunarhóp. Fyrst birtu Willcox og félagar grein í PNAS (í september 2008) sem bendlaði þessa útgáfu af FOXO3A við langlífi í japönsku fólki. 

Ný rannsókn hóps við Háskólann í Köln (Christian-Albrechts-University in Kiel - CAU) er endurtekning á fyrri rannsókninni í evrópubúum, og eru niðurstöðurnar samhljóma. Mannerfðafræðirannsóknir nútímans eru með strangar kröfur um endurtekningar og eru niðurstöður einnar rannsóknar í einu landi ekki teknar gildar (nema ef um mjög stórt þýði er að ræða!). En vitanlega þarf frekari rannsóknir til að hægt sé að slá nokkru á fast varðandi áhrif FOXO3A á langlífi.

FOXO3A tilheyrir hópi gena sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá ykkar æruverðugum, genið skráir fyrir umritunarþætti ("transcription factor"). Slík prótín stjórna öðrum genum, með því að hafa áhrif á RNA framleiðslu (umritun - e. trancription), og geta þannig ráðið því hvar ákveðin gen eru tjáð, hvenær og í hversu miklu magni. Margir sjúkdómar koma til vegna þess að gen eru ekki umrituð eða á þeim kveikt á röngum tíma...þ.e. vegna galla í genastjórn.

Hin líffræðilegu ferli sem FOXO3A tengjast eru krabbamein, sykursýki af gerð 2, estrogen viðtakar, og insúlín búskapur, en ekki hefur verið skilgreint nákvæmlega hvort tengslin við langlífi séu í gegnum þessi ferli eða önnur.

Ítarefni.

Fréttatilkynning frá rannsóknahópi Almut Nebel við Kölnarháskóla.

Willcox BJ, Donlon TA, He Q, Chen R, Grove JS, Yano K, Masaki KH, Willcox DC, Rodriguez B, Curb JD. FOXO3A genotype is strongly associated with human longevity. Proc Natl Acad Sci U S A. 2008 Sep 16;105(37):13987-92.

mbl.is Langlífisgenið fundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær grein hjá þér, finnst frábært að geta lesið áfram um eitthvað sem maður á bátt með að trúa eða manni finnst ekki að farið sé nóg út í smáatriðin á, eins og í greininni "Langlífisgenið fundið". Takk kærlega fyrir upplýsingarnar.

Erling Óskar Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 18:55

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir innlitið Erling og hlýleg hvatningarorð.

Arnar Pálsson, 8.2.2009 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband