14.2.2009 | 09:09
Þróun og aðferð vísinda
Darwin notaði hina vísindalegu aðferð. Hann setti fram tilgátur, sem báru í sér spá um ákveðna mælanlega eiginleika eða tilhneygingar. Hann mat síðan tilgáturnar og gat afsannað þær sem ekkert spágildi höfðu. Hann sýndi fram á nokkrar leiðir til að prófa og afsanna tilgátu sína um þróun lífvera. Náttúrulegt val er hægt að afsanna ef það er sýnt fram á að 1) það sé enginn breytileiki, 2) að enginn arfbundinn þáttur sé fyrir breytileika, eða 3) ef lífverur æxlast ekki mishratt. Enginn vitiborinn maður heldur þessu fram, enda eru niðurstöðurnar yfirþyrmandi...náttúrulegt val getur klárlega virkað á flesta eiginleika lífvera. Og þannig breytt þeim og aðlagað að umhverfi sínu.
Darwin sýndi einnig fram á að þróunartréð má prófa. Ef það einhvern tímann fyndist bein núlifandi tegundar í í vitlausu jarðlagi (t.d. Homo sapiens í jarðlögum frá Cambrian) þá væri búið að afsanna tilgátunana um sameiginlegan uppruna og þróunartréð. Ekkert slíkt hefur fundist, hver einasti steingervingur sem hefur fundist (og þeir skipta tugum ef ekki hundruðum þúsunda), fellur inn í þróunartréð.
Sköpunarsinnar minnast oft á líffæri eða aðlaganir sem virðast fullkomin, eða það flókin að þau geti ekki hafa orðið til vegna áhrifa náttúrulegs vals. Því er haldið fram að umrædd líffæri séu dæmi um að Guð hafi skapað allavega þennan hluta lífvera (dýrðar drottinn sem skapar augu og svipur, en lætur þróunina um rest?). Um er að ræða miskilning, rangtúlkun á niðurstöðum sem leiðist oft út í þverskallahátt í rökræðum. Hvort sem um er að ræða augu hryggdýra eða smokkfiska, svipu baktería eða ríbósóm allra lífvera, þá má sjá skýr merki um þróun. Genin sem byggja augun finnast í flestum lífverum, en þau starfa bara saman á mismunandi hátt og byggja þannig mismunandi líffæri. Eins má sjá greina mikinn fjölbreytileika í svipum eftir tegundum baktería (alveg eins og Darwin spáði). Það er því augljóst að mörg millistig finnast, og einnig sést að prótínin sem mynda svipu bakteríanna eru skyld prótínum sem mynda jónagöng eða seytingu gegnum himnu. Rökin fyrir guðlegri sköpun standast því ekki. Þar að auki meðtekur hin vísindalega aðferð ekki yfirnáttúrulegar skýringar á veröldinni, þ.a.m. eiginleikum lífvera.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Það má líka benda á, er það ekki, að svokölluð "yfirgen" (hoxgen), sem eru skilyrði fyrir því að ákveðnir vefir eða líffræði verði til við fósturþroskun, eru eins hjá flestum ef ekki öllum lífverum, sem fá viðkomandi vef eða líffæri. T.d. eru hoxgen fyrir augu nokkurn veginn eins hvort sem lífveran er maður, mús eða húsfluga.
Þú leiðréttir mig Arnar ef ég er að bulla ;-)
Björgvin R. Leifsson, 14.2.2009 kl. 13:06
Takk kærlega fyrir þennan pistil. Því miður virðst sumir frekar lokaðir þegar kemur að því að sýna fram á sannanir fyrir þróunarkenningunni....
En hvað höfum við annars séð margar lífverur sem skyndilega sköpuðust úr engu? 0? Engar? Eða ekki eina einustu?
Rebekka, 14.2.2009 kl. 17:25
Björgvin.
Takk fyrir að minnast á hoxgenin. Við köllum þau "einkennigen", af því að þau gefa liðunum einkenni. Þýðing þín enduspeglar samt hversu máttug þau eru, þ.e. tjáning þeirra á vitlausum stað getur ýtt af stað þroskun líffæra á vitlausum stöðum.
Og það er alveg rétt hjá þér að þessi gen finnast bæði hjá liðdýrum og hryggdýrum. Jafnvel finnast gen fjarskyld þeim í sveppum og svömpum.
Rödd
Ég skil hina trúarlegu togstreitu sem margir upplifa þegar þeim er sagt að maðurinn sé ekki afleiðing guðlegrar sköpunar. Flestir virðast ekki finna til sömu angistar þegar þeir eru upplýstir um þá skelfilegu staðreynd að hrúðukarlar er náskyldir rækjum. Engum hefur tekist að miðla þessu grimma sannleik til hrúðukarla, sem er eins gott, því víst er að þeir láti reiði sína bitna á gangi himinntunglanna.
Arnar Pálsson, 16.2.2009 kl. 18:06
Einhvernvegin hefur mér alltaf fundist umræða um trúmál og þróunarkenninguna vera á hálfgerðum villigötum. Það er eins og bæði "liðin" festi sig í einhverskonar skotgröfum þegar kemur að þróunarkenninguni. Það er bent á líffæri eins og augað sem sönnun fyrir því að auðvitað sé viti borin vera höfundur alls sköpunarverksins. Og hinu megin benda menn á að samfelld þróunarsaga sé sönnun þess að engin slík vera hafi komið nálægt málinu.
En hvar liggur mótsögnin milli sköpunarsögunar og þróunarkenningarinnar? Þróunarkenningin er vissulega mjög "falleg" kenning og gefur vísindalega þenkjandi fólki (að minnsta kosti von um) skilning á því hvernig líf á jörðinni varð að því sem það er í dag. En útilokar það vitsmunaveru í hlutverki höfundar? Nei hreint ekki, þróunarkenningin lýsir aðferðafræði en ekki ásetningi. Það að einhver aðferð hafi verið valin til þess að skapa lífið útilokar ekki á neinn hátt það að ásetningur hafi legið að baki.
Það mætti að sjálfsögðu spyrja ef þetta var aðferðin sem hafi verið valin af hverju var henni þá ekki lýst í helgum bókum, trúarbrögð hafa jú eins og vísindin sannleikan að markmiði. Hugsum okkur að þetta hafi verið reynt. Ég get vel séð fyrir mér eitthvað samtal þessu líkt milli talsmanns Guðs og einhvers ritara sem var falið að rita sköpunarsöguna:
Talsmaður Guðs: Allt í lagi, í dag ætla ég að útskýra hvernig lífið varð til. Sko, í upphafi blandaði Guð allskyns efnum saman. Hann lét það síðan malla og efnin blönduðust. Fyrr en varði komu fram eiginleikar í efnunum sem ...
Ritari: Hvaðan komu efnin?
Talsmaður Guðs: Jú, þau urðu til í mikla hvelli, þ.e. Guð ákvað einn dagin að búa til alheimin með því að nota mikla orku sem myndaði stóra, stóra sprengingu...
Ritari: Hvað er sprenging?
Talsmaður Guðs: Umm, það er svona sterkur ljós glampi, hár hvellur, en það skiptir ekki máli. Þegar efnin höfðu blandast saman voðalega lengi...
Ritari: Hvernig varð þessi sprenging/hvellur ljós? Og af hverju?
Talsmaður Guðs: Hann bara ákvað þetta bara og bjó til alheim...
Ritari: Úr hverju bjó hann alheiminn til?
Talsmaður Guðs: Engu, engu sérstöku hann bara gerði það! Sjáðu til, má ég halda áfram með þróunarkenninguna?
Ritari: Hann sagði "Verði ljós" og það varð ljós?
Talsmaður Guðs: Nákvæmlega, einmitt. En með efnin sem höfðu blandast saman, eftir nokkur hundruð milljón ár byrjaði svolítið skrýtið að gerast. Fyrst komu fram einfrumungar...
Ritari: Hvað er milljón? Ég ætla ekki einu sinni að spyrja um einfrumunga.
Talsmaður Guðs: Allavega út úr þessu þróaðist vitborið líf (erfitt að trúa því núna).
Ritari: Vitiborið eins og Guð?
Talsmaður Guðs: Ja, vitiborið en ég segi kannski ekki eins og Guð, það eru eiginlega hlutir sem er erfitt að útskýra.
Ritari: En svona eitthvað svipað?
Talsmaður Guðs: Svipað já. Það má segja það.
Ritari: Þannig að Guð skapaði mannin í sinni mynd.
Ári (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 00:05
Ári
Takk fyrir ágætan prósa. Við vísindamenn erum haldin þessari sérkennilegu áráttu að meðtaka eingöngu náttúrulegar skýringar á alheiminum, efninu og eiginleikum lífveranna. Einhver guð sem ýtti lífinu af stað, eða skapar HIV veirur, eyrnasnepla og sníkjudýr sem éta augun úr lifandi fólki, er auðvitað möguleiki en ekki vísindalega prófanlegur möguleiki. Þess vegna getum við ekki notað það fyrirbæri til að útskýra eiginleika lífvera og veraldarinnar.
Ef fólk þarf guðlega veru til þess að hegða sér vel og meiða ekki aðra, þá vona ég að það haldi trú sinni sem lengst. Vísindin munu ekki finna tilgang með lífinu eða svarið við réttu og röngu. En þau geta afhjúpað heilmikla fegurð og fjölbreytileika, sem hreyfir jafnt við trúuðum og trúlausum.
Arnar Pálsson, 17.2.2009 kl. 17:06
Ég held að það sé einmitt mergur málsins að viðfangsefni vísindana og trúarbragða er ekki það sama. Þess vegna finnst mér það stórmerkilegt hvernig vísindamenn og trúmenn geta fundið sér efni til þess að rífast yfir (og með miklum trúar- og rökhita) þegar það er augljóst mál að annar hópurinn talar um epli og hinn appelsínur.
Eins og þú bentir réttilega á er einhver guð sem ýtir lífinu af stað er ekki vísindalega prófanlegur möguleiki. Það er hægt að nota það til að benda á hversu kjánalegt það er að halda að þörf sé á einhverri guðlegri veru. Ef þessi guðlega vera hefur ekkert hlutverk, er henni þá ekki áreiðanlega ofaukið í skýringu á tilveruni?
En það að einhver guð sem ýtir lífinu af stað sé ekki prófanlegur möguleiki bendir okkur líka á það að vísindin munu aldrei geta útskýrt tilveruna. Ef við höldum okkur við þróun lífsins þá getur hún bara útskýrt hvernig líf eins og við þekkjum það í dag varð til frá einhverri "einfaldari" stöðu (hrærigraut af frumefnum). Ef við spyrjum hvernig þessi "einfaldari" staða kom til, þurfum við að grípa til annarra skýringa, allt fram að þeirri kenningu sem vinsælust er í dag meðal vísindamanna þ.e. kenningunni um Mikla Hvell. Þegar farið er framhjá þeim punkti erum við komin fyrir utan viðfangsefni vísindana og valkostirnir sem við höfum eru tveir:
a) Við getum sagt "Við höfum engan áhuga á því hvað varð til þess að alheimurinn varð til því það viðfangsefni liggur utan við svið vísindana"
b) Við getum fallist á að eitthvað sem er útilokað að við munum nokkurn tíma skilja hafi komið þessu öllu af stað.
Báðir valkostirnir fela í sér algera uppgjöf vísindana og í raun flótta frá því takmarki þeirra að útskýra heiminn.
Skoðanir flestra vísindamanna sem ég hef kynnt mér falla nær valkosti a). Það er frekar kaldhæðnislegt því forvitni er það sem drífur vísindin áfram. Það sem hræðir flesta frá valkosti b) er að með því viðurkennum við takmörk okkar og þá staðreynd að í rauninni munum við aldrei skilja heiminn til hlítar.
Ári (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 21:46
Ári
Í tilfelli valkosts a) þá er spurningunni ýtt aftar og aftar í tímann, og þar með dregur úr möguleikum okkar á að svara henni með beinum mælingum og tilraunum. Eðlisfræðingar og heimsfræðingar (cosmologists) setja samt fram prófanlegar tilgátur um uppruna alheimsins, efnis og stjarnanna. Við getum velt upp yfirnáttúrulegum skýringum einnig, en þær eru eðli málsins samkvæmt ekki prófanlegar. Það að vísa til yfirnáttúrulegra skýringa er að mínu viti frekar dæmi um uppgjöf, en þekkingarleit vísindanna. Því yfirnáttúrulegar skýringarnar eru ALLAR jafn réttháar.
Mér finnst valkostur b ekki gagnlegur sem viðmið í rannsóknum. Það að lyfta upp höndum og segja, þetta er svo flókið að það er ekki hægt að rannsaka það er að mínu viti uppgjöf.
Sem betur fer voru Darwin, Pasteur, Watson, Crick og Edward Lewis ekki á því að gefast upp.
Arnar Pálsson, 18.2.2009 kl. 11:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.