16.2.2009 | 18:43
Náttúrulegt val og náttúruval
Á laugardaginn skellti ég inn pistli undir fyrirsögninni "Þróun og aðferð vísinda", sem útlistaði hvernig prófa má þróunarkenningu Darwins. Markmiðið var að leggja áherslu á grundvallaratriði þróunarkenningarinnar og benda á veikleika í röksemdafærslum margra sköpunarsinna, sem tína til "vísindalega hljómandi" atriði ályktunum sínum til stuðnings. Hugmyndin var að pistillinn væri tengdur fréttaskýringu Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur, Vísindi sem hafa staðist tímans tönn, sem mistókst af einhverri ástæðu. Af fádæma sjálfshrifningu fannst mér viðeigandi að tengja annan pistil við fréttaskýringu Jóhönnu, m.a. vegna þess að hún leitaði alits okkar á framlagi Darwins.
Ég vill þakka Jóhönnu gott samstarf, og nota tækifærið til að leggja út frá einu grunnhugtaki þróunarkenningar Darwins, náttúrulegu vali. Flestir lesendur kannast e.t.v. betur við hugtakið náttúruval, sem hefur fests í sessi hérlendis (ég veit ekki uppruna þýðingarinnar, sem skiptir ekki öllu máli).
Við kennslu í þróunarfræði við Háskóla Íslands leggjum við (ég og samkennarar mínir Einar Árnason og Snæbjörn Pálsson*) höfuðáherslu á að nota "náttúrulegt val" en ekki náttúruval. Ástæðan er tvíþætt, náttúrulegt val er betri þýðing á enskunni "natural selection". Náttúruval er nafnorð, sem setur náttúruna á stall geranda, en "náttúrulegt val" gefur til kynna að um sé að ræða ferli "val" sem er náttúrulegt og gerist af eðlilegum orsökunum. Hin ástæðan er sú að orðaval mótar hugmyndir okkar og skilning. Hérna er ekki að ræða hártoganir heldur grundvallaratriði varðandi ferli þróunar, þar sem náttúrulegt val er vélræn afleiðing breytileika, erfða og mishraðrar æxlunar. Með orðum Darwins sjálfs, úr inngangi uppruna tegundanna (síðu 5):
As many more individuals of each species are born than can possibly survive; and as, consequently, there is a frequently recurring struggle for existence, it follows that any being, if it vary however slightly in any manner profitable to itself, under the complex and sometimes varying conditions of life, will have a better chance of surviving, and thus be naturally selected.
Feitletrun mín.
*Bæði Einar og Snæbjörn eru mér eldri og reyndari í hettunni, báðir kenndu mér þegar ég var í líffræðinámi.
Vísindi sem hafa staðist tímans tönn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
http://www.newscientist.com/article/mg20126921.600-why-darwin-was-wrong-about-the-tree-of-life.html?full=true
Þeir sjá ekki gatið eftir tímans tönn, miðað við þetta.
Svanur Gísli Þorkelsson, 17.2.2009 kl. 16:40
Svanur
Takk fyrir innslagið. Mér virðist sem greininni í New Scientist hafi verið gefinn þessi storkandi titill, til að trekkja lesendur. Vitanlega óðu sköpunarsinnarnir af stað með áróðursvélarnar sínar, jafnvel þótt það sé tíundað í smáatriðum að þróunarkenningin sé ekki fallinn, bara að rót trés lífsins sé flóknari en okkur grunaði.
Við höldum oft að tré lífsins sé áþekkt einstofna birkitré, en það eru fullt af vísbendingum um að tréð sé fjölstofna og að sumir stofnarnir hafi runnið saman (skipst á genum eða orðið sér út um frumulíffæri með tilheyrandi erfðamengjum). Einnig hoppa stökklar og veirur milli lífvera, og er leikvöllur þeirra erfðamengin.
Mjög skemmtilegt og fjölbreytilegt, en engin nagli í kistu þróunarkenningarinnar.
Arnar Pálsson, 17.2.2009 kl. 17:22
Við erum væntanlega að tala um þróunarkenningu Darwins er það ekki? Spurningin er hversu rétt það er að kenna þróunarhugmyndir vísindamanna í dag við Darwin þegar að einn grundvallarliðum hennar, (lífsins tré) eins og sagt er frá í greininni, stenst ekki. Um hvort þróun sé veruleiki er ekki deilt. En hugmyndir Darwins um lífsins tré eru greinilega dregnar í efa og sú líking ónothæf til að gefa mynd af þróun lífsins á jörðinni.
Þakka annars góðar greinar Arnar.
Svanur Gísli Þorkelsson, 17.2.2009 kl. 17:36
Takk fyrir góðar spurningar Svanur.
Það var ætlunin að gera grein New Scientist skil í sér pistli, en við getum reynt að afgreiða málið hér. Darwin lagði áherslu á skyldleika lífvera og að mismunandi skyldleiki endurspeglaði stöðu lífveranna í þróunartrénu. Þessi grunnhugmynd stenst. Málið flækist þegar við skoðum þróunartré genanna. Það eru dæmi um að lífverur hafi tekið upp gen, bakteríur éta DNA og veirur flytja DNA búta á milli lifvera. Þá myndast misræmi á milli eins þróunartrés tegundarinnar og viðkomandi gens. Drjúgur meirihluti genanna erfist þó með tegundunum, en það eru þessi stöku frávik sem sýna okkur hversu flókið ferlið er. Þetta sýnir okkur að sumar greinar þróunartrésins hafa runnið saman, eins og þegar alfa proteobakteríur runni inn í forvera heilkjörnunga og urðu að hvatberum.
Hugmynd Darwins um lífsins tré er ekki fallin, en hún hefur verið betrumbætt. Slíkt gerist oft í vísindum, t.d. betrumbætti Einstein kenningu Newtons.
Arnar Pálsson, 18.2.2009 kl. 11:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.