Leita í fréttum mbl.is

Byltingarmenn vísindanna

Afburðavísindamenn skipta mjög miklu máli fyrir framfarir í vísindum. Þeir koma með ferska hugsun, nýjar kenningar, þróa lykil aðferðir, allt sem getur svipt hulu af fyrirbærum sem áður voru óútskýrð og opnað nýjar leiðir í þekkingaleit okkar. 

Heimspekistofnun HÍ stendur fyrir fyrirlestraröð í næsta mánuði þar sem framlag 6 lykil vísindamanna verður krufið. Sem líffræðingi finnst mér forvitnilegast erindi Guðmundar Eggertssonar um James Watson og Francis Crick, sem uppgötvuðu byggingu erfðaefnisins (DNA). Ég stefni á að sækja hin erindin því maður hefur gott af því að kynnast öðrum viðfangsefnum vísindanna og heimspekinnar.

Fyrsta erindið verður flutt af Halldóri Guðjónssyni dósent við Háskóla Íslands. Erindið verður 7 mars í sal 2 Háskólabíós (kl 13:00) og nefnist "Ef... þá og allt saman: Kurt Gödel og rökfræðin".

Tilkynning af vef HÍ er endurprentuð hér að neðan í heild sinni.

Fyrsti fyrirlesturinn af fimm í fyrirlestraröðinni Byltingarmenn vísindanna:

Halldór Guðjónsson, dósent við Háskóla Íslands flytur fyrirlestur undir yfirskriftinni:

Ef... þá og allt saman: Kurt Gödel og rökfræðin

Sagt verður frá þeim áherslum sem á seinustu einni og hálfri öld hafa verið lagðar á að renna sem dýpstum stoðum undir alla stærðfræði.  Þessi áhersla leiddi til ítarlegra rannsókna á rökfræði sem myndar regluverkið sem stærðfræðin fer eftir og styðst við.  Rökfræðin leggur fram helstu reglu allrar rökvísi manna og kemur því við allt sem menn hugsa og kunna.

Hvað mikilsverðastar og fallegastar niðurstöður þessara rökfræðirannsókna eru verk Kurts Gödel og verður í fyrirlestrinum reynt að gera þær sæmilega skiljanlegar.

Upplýsingar um næstu fyrirlestra:

14. mars. Þorsteinn Vilhjálmsson: Niels Bohr og aðferðir vísindanna. 

21. mars. Kamilla Rún Jóhannsdóttir: Alan Turing: Turing vélin og áhrif hennar á framfarir og takmörk hugfræðinnar.

28. mars. Guðmundur Eggertsson: Watson og Crick og DNA-líkan þeirra.

  4. apríl.  Eyja Margrét Brynjarsdóttir: Thomas Kuhn og vísindabyltingar.

Fyrirlestrarnir fara fram í Háskólabíó, sal 2, klukkan 13:00. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Fyrirlestraröðin er haldin af Félagi áhugamanna um heimspeki. Nánari upplýsingar fást hjá Elmari Geir og Finni Dellsén með því að senda póst á visindabyltingar@gmail.com.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Því miður lenda sumir fyrirlestranna nánast á sama tíma og þeir sem haldnir eru í fyrirlestraröðinni Undur veraldar: Undur alheimsins. Þeir eru reyndar kl 14. Sjá hér.  

Þetta eru mjög áhugaverðir fyrirlestrar. Það rifjast upp að Halldór kenndi mér stærðfræði í MR  fyrir rúmlega allmörgum árum

Ágúst H Bjarnason, 27.2.2009 kl. 17:37

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Ágúst

Þetta er dálítið óheppilegt, því báðar fyrirlestraraðirnar eru mjög forvitnilegar. Það hefði verið betra að hafa meira bil á milli fyrirlestrana, eða hafa þá á mismunandi dögum.

Arnar Pálsson, 28.2.2009 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband