Leita í fréttum mbl.is

Svindl í svefnrannsóknum

Í flugvélinni á leið heim af flugufundinum gafst mér tími til lestrar. Í heimsókn minni í East Lansing, þar sem ég heimsótti vini mína Ian, Judith, Shinhan og Melissu, keypti ég eintak af It takes a genome : How a Clash Between Our Genes and Modern Life Is Making Us Sick. Bókin er skrifuð af Greg Gibson, áströlskum erfðafræðingi sem var leiðbeinandi minn í doktorsnámi. Sú staðreynd skiptir reyndar takmörkuðu máli, en mér fannst samt tilefni til að geta þess í flumbrukenndri tilraun til sjálfupphafningar í gegnum tengsl við virtan vísindamann. Vissulega get ég ekki talist hlutlaus aðili, en bókin er dásamleg aflestrar og býður upp á mjög heilbrigða sýn á mannerfðafræði nútímans. Greg leggur áherslu á þá staðreynd að við finnum fullt af genum en þau útskýra bara nokkur prósent af sjúkdómstilfellum. Samspil umhverfis og erfða er rauði þráðurinn í bókinni, sem verður gert betri skil síðar.

Í vélinni náði ég einnig að lesa pappírsútgáfuna af NY Times. Þar rakst ég á athyglisverða frétt um Scott S. Reuben svefnlækni við Baystate Medical Center, sem hefur birt ítarlega um svæfingar og haldið á lofti þeirri hugmynd að það sé jafngott að gefa sjúklingum aspirín (eða skyld lyf) eftir uppskurð (venjulega eru deyfilyf eins og morfín notuð).

Nú kemur í ljós að hann hafði falsað niðurstöður og lyfjapróf sem hann birti greinar um voru aldrei framkvæmd. Í það heila þarf að draga til baka niðurstöður 21 slíkra plat-lyfjaprófa. Þótt það sé alltaf jákvætt að sjá berrassaða keisara afhjúpaða, er einnig brýnt að koma í veg fyrir að slíkir svindlarar nái EKKI að dæla út bulli í ár og áratugi. Það hljóta að verða settar kröfur á að vísindaritin staðfesti að birtar niðurstöður séu úr lyfjaprófi sem fór í raun fram.

Ben Goldacre sem heldur út síðunni www.badscience.net er mun dómharðari í the Guardian, Medical scumbags masterclass in fraud. Hann lýsir því yfir að ef fólk vill leggja fyrir sig vísindasvindl, þá sé læknisfræði sérstaklega heppilegur leikvöllur. Hann vitnar líka í tölur úr Nature, sem benda til þess að um 6% vísindamanna birti ekki niðurstöður sem stangast á við þeirra eigin ályktanir. Slíkt er auðvitað svindl líka, því slíkar niðurstöður gera okkur kleift að afsanna tilgátur (þannig verða framfarir í vísindum!).

Ben Goldacre hefur líka rætt annan flöt á þessu máli, það að lyfjapróf fyrirtækja birtast iðullega í virtari ritum en venjulegar rannsóknir á lyfjum og virkni þeirra. Sjá pistil hans, pay to play?

Vísindi eru iðkuð af fólki, sem er breyskt og mannlegt. Við verðum að gæta þess að umhverfi vísindamanna ýti ekki undir svindl og hagsmunaárekstra.

Ítarefni.

Doctor Admits Pain Studies Were Frauds, Hospital Says, eftir GARDINER HARRIS í New York Times.

Medical scumbags masterclass in fraud eftir Ben Goldacre í the Guardian.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband