Leita í fréttum mbl.is

Bylting DNA byggingar

Ötull hópur stendur fyrir fyrirlestraröð um byltingarmenn vísindanna, og hafa nú Bohr, Gödel og Turing verið gerð skil. Nú á laugardaginn (28 mars) mun Guðmundur Eggertsson kynna Francis Crick og James Watson, sem unnu það sér til frægðar að setja fram rétt líkan um byggingu erfðaefnisins (DNA). Ég nýt þess láns að þekkja Guðmund, hann tendraði áhuga minn á erfðafræði með kennslu sinni líffræðinni, og síðan vann ég meistaraverkefni undir handleiðslu hans og Sigríðar H. Þorbjarnardóttur. Guðmundur gerir ekkert til hálfs og get ég því lofað vönduðu og áhugavekjandi erindi á laugardaginn (erindið hefst kl 13:00 í sal 2 í Háskólabíói, og er öllum opið). 

Sagan um kapphlaupið um að skilgreina byggingu DNAsins var sagð af James Watson í þekktri bók sem kallast tvöfaldi stigullinn ("the double helix"). Þar rekur Watson atburðina frá sínu sjónarhorni, en ljóst er að fleiri horn eru á sögunni og heiðurinn ætti með réttu að dreifast á fleiri hendur (við röktum hluta af þessu í eldri færslu, en Guðmundur mun væntanlega gera þessu betri skil í erindi sínu).

Það er eðlilegt að spyrja hvers eðlis var bylting Crick og Watson, ef hún gerðist í raun? Rétt eins og útgáfa Darwins og Wallace á greinum um náttúrulegt val, þá hafði grein Watson og Crick 1953 afskaplega lítil áhrif þegar hún var birt. Áhrifin komu síðar í ljós og voru ótvíræð, í þeim skilningi að uppgötvunin opnaði upp nýtt fræðasvið og hvataði rannsóknir á mörgum líffræðilegum spurningum sem höfðu legið utan seilingar vegna skorts á grunnþekkingu og verkfærum. Þannig að bylting Crick og Watson var ekki klassísk bylting í anda Kuhns, en frekar innrás sem leiddi til mikilla vísindalegra landvinninga.

Fyrirlestraröðin byltingarmenn vísindanna er skipulögð af Félagi áhugamanna um heimspeki í samstarfi við HF-verðbréf, Heimspekistofnun HÍ, Líffræðistofnun HÍ og Eðlisfræðifélag Íslands.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband