Leita í fréttum mbl.is

Erindi: Doktors og meistaravarnir

Þetta er sá tími ársins. Það fer að styttast í útskrift og framhaldsnemar keppast við að klára verkefnin sín, ritgerðir og greinar. Í lok vikunnar verða þrjár slíkar varnir við HÍ, en rétt er að árétta að um er að ræða fjölbreytt samstarf, í þessum tilfellum við Landspítalann og Hólaskóla.

Fimmtudaginn 7 maí kl 13:00 ver Sigurveig Þóra Sigurðardóttir verkefni sitt um þróun bólefna gegn lungnasýkingum, frá læknadeild HÍ.

Föstudaginn 8 maí kl 13:00 verður doktorsvörn Hólmfríðar Sveinsdóttur frá Matvæla- og næringarfræðideild. Hún fjallar um tjáningu prótínrjúfandi ensíma í maga þorska. 

Sama dag mun Guðmundur Smári Gunnarsson halda fyrirlestur um meistaraprófsverkefni sitt:  Óðals- og fæðuatferli ungra laxfiska í ám. Verkefnið var unnið undir leiðbeiningu Sigurðar Snorrasonar við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ. Tilkynning er ekki kominn á síðu HÍ, en samkvæmt tölvupósti fjallar verkefni Guðmundar um:

Ágrip: Óðals- og fæðuatferli er almennt talið hafa mikil áhrif á þéttleika og dreifingu dýra. Hingað til hefur óðalsatferli ungra laxfiska helst verið lýst fyrir þá einstaklinga sem sitja-og-bíða og ráðast á fæðu og keppinauta frá einni fæðustöð, og ná slíkar rannsóknir því sjaldan yfir hreyfanlegri einstaklinga sem synda um í leit að fæðu eða nota margar fæðustöðvar. Í þessari rannsókn lýsi ég óðals- og fæðuatferli hjá vorgömlum (0+) laxfiskum, 31 bleikju og 30 urriðum, og tengi atferli þeirra við vistfræðilegar breytur í sex ám (þrjár fyrir hvora tegund) á NV-landi. Óðalsstærð var metin fyrir hvern einstakling, óháð hreyfanleika og fjölda fæðustöðva, með því að kortleggja fæðunám og árásir á aðra einstaklinga yfir 40 mínútna tímabil. Bleikja notaði stærri óðul en urriði og var einnig hreyfanlegri við fæðunám. Ennfremur voru hreyfanlegri einstaklingar innan hvorrar tegundar með stærri óðul en þeir sem sátu-og-biðu eftir fæðu. Stærð óðala var einnig háð vistfræðilegum þáttum: óðul stækkuðu eftir því sem einstaklingar voru stærri, minnkuðu við aukið fæðuframboð og voru, ólíkt því sem spáð var, stærri við háan þéttleika fiska. Þá virtust óðul bleikju skarast meira en hjá urriða og ekki vera eins vel varin. Almennt má segja að óðul sem eru kortlögð fyrir alla einstaklinga, þ.e. óháð því hvort þeir séu hreyfanlegir við fæðunám eða sitji-og-bíði á einni fæðustöð veiti nýstárlegar upplýsingar um óðalsatferli laxfiska í straumvatni. Óðul einstaklinga sem eru hreyfanlegir eða nota margar fæðustöðvar lúta þannig ekki alltaf að sömu lögmálum og óðul sem kortlögð eru frá einni stöð, t.d. hvað varðar fylgni við vistfræðilega þætti. Greinileg þörf er á frekari rannsóknum á slíkum óðulunum til að kanna áhrif þeirra á þéttleika, vöxt, afföll og far einstaklinga, og aðra þætti er móta stofnvistfræði laxfiska.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Karlsdóttir

þetta er mikilvægur áfangi fyrir okkur í líf- og umhverfisvísindadeild

Anna Karlsdóttir, 5.5.2009 kl. 21:07

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Nákvæmlega Anna, þetta verða gleðidagar fyrir allan háskólann.

Hvet laxveiðimenn til að kynna sér rannsóknir Guðmundar.

Arnar Pálsson, 6.5.2009 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband