28.5.2009 | 10:53
Baráttan fyrir lífinu í hrauninu
Þróunarkenning Darwins og Wallace sýndi fram á að í stofnum lífvera veljast sumar gerðir úr, alveg náttúrulega. Þetta er afleiðing þess að lífverur eru breytilegar, eiginleikar þeirra erfast og þær eignast mismörg afkvæmi. Ástæða þess að lífverur eignast mismörg afkvæmi er sú að þær eru misjafnlega hæfar til að takast á við umhverfi sitt. Umhverfi er mjög víðfemt hugtak, og getur táknað aðgang að fæðu, birtuskilyrði, hitastig, ásókn afræningja, geimgeisla og þar fram eftir götunum.
Baráttan fyrir lífinu er oftast rædd sem slagur bráðar og afræningja eða sýkils og hýsils, en getur tekið á sig fleiri myndir. Planta í gljúpum jarðvegi, þarf að berjast fyrir lífinu. Fræ sem lendir í mosaþembu þarf að berjast fyrir lífinu, og þar fram eftir götunum.
Í dag mun Jóna Björk Jónsdóttir flytja fyrirlestur um rannsóknir sínar á baráttum plantna fyrir lífinu, í Skaftáreldahrauni. Hún sýnir meðal annars fram á að mosamottan sem þekur hraunið aftrar landnámi háplantna. Ég sjálfur hélt að mosi myndi frekar búa í haginn fyrir aðrar plöntur í hrauninu en svo virðist ekki vera.
Fyrirlestur Jónu er meistaravörn hennar frá líf og umhverfisvísindadeild HÍ, á rannsókn sem hún vann undir leiðsögn Þóru Ellenar Þórhallsdóttur og Kristínar Svavarsdóttur.
Erindið hefst kl 14:00 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Ágrip erindisins má nálgast á heimasíðu HÍ.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Darwin og þróun, Erindi og ráðstefnur | Breytt 25.6.2009 kl. 13:53 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Hún stóð sig bara vel stelpan. Þessi mynd, sem sumir hafa haldið á lofti, að frumherjagróðurinn búi í haginn fyrir frekari framvindu og að allt stefni eftir beinni línu að hástigi framvindunnar, er greinilega ekki alveg svona einföld. Maðurinn hefur soldið mikla tilhneigingu til að sjá "guð" að verki í náttúrunni.
Árni Davíðsson, 29.5.2009 kl. 00:49
Árni
Takk fyrir innleggið. Ég er alveg sammála. Þetta var mjög gott erindi hjá Jónu um fína rannsókn.
Ég var einmitt að velta fyrir mér hvað væri núlltilgátan í framvindurannsóknum. Er núlltilgátan að það verði engin framvinda? Eða að framvinda verði tilviljanakennd? Í þróunarfræði er hlutleysi núlltilgátan, að hlutirnir geti breyst vegna tilviljunar. Það þarf að afsanna að einhver breyting hafi verið hlutlaus til að hægt sé að segja að eitthvað hafi verið undir náttúrulegu vali.
Arnar Pálsson, 29.5.2009 kl. 09:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.