29.5.2009 | 14:13
Rangfærslur um erfðabreytt bygg
ORF líftækni er fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu prótína í erfðabreyttum byggplöntum. Fyrst sá ég til ORF manna, þegar Einar Mäntylä hélt fyrirlestur í líffræðinni um frostþol plantna og hvort mögulegt væri að auka þol þeirra með því að breyta erfðamengi þeirra markvisst.
ORF líftækni gengur hins vegar út á að nota bygg sem verksmiðju til að framleiða prótín fyrir lyf og rannsóknir. Þetta er dæmi um þekkingariðnað, nýsköpun þar sem hugvitið er virkjað með það að markmiði að búa til verðmæti og skapa störf.
Fyrirtækið sótti nýlega um leyfi til að rækta erfðabreytt bygg utandyra á Íslandi (hingað til hefur ræktunin farið fram í hátæknigróðurhúsi fyrirtækisins) eins og rætt var í nýlegri frétt Morgunblaðsins.
Af einhverri ástæðu fer hugmyndin um erfðabreyttar lífverur þversum í fólk. Viðbrögðin verða oft mjög ýkt og á köflum jaðrar við móðursýki. Staðreynd málsins er að erfðabreytingar verða hverja einustu mínútu í náttúrunni, bakteríur taka upp gen, tegundir skiptast á genum, sveppir og þörungar deila genum og svo mætti lengi telja. Það sem gert er á tilraunastofunni er í raun bara markviss útgáfa af þessu, í hagnýtum tilgangi.
Það er ekki hugmyndin að rekja þetta í þaula hér, en ástæðan fyrir færslunni er sú að yfirmaður minn, jarðefnafræðingurinn Dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir skrifaði opið bréf til Umhverfisráðherra um málið, bréf sem er fullt af rangfærslum. Í stuttu máli sagt eru þeir líf og erfðafræðingar sem ég hef rætt við hreinlega gáttaðir á bréfinu. Erfðafræðiprófessorinn Ólafur Andrésson hefur sent opið bréf til Umhverfisráðherra um málið. Það fylgir hér að neðan.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
Sæl Svandís
Ég skrifa þér fyrst og fremst sem vísindamaður með áratuga reynslu og þekkingu á sviði erfðatækni og erfðafræði, og í krafti starfs míns sem prófessor í erfðafræði við Háskóla Íslands. Hluti af starfi háskólakennara og vísindamanna í opinberri þjónustu er að miðla af þekkingu sinni og reynslu til stjórnvalda og almennings.
Ég er varamaður í ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur og ég hef því reynt að fylgjast með umfjöllunum umsókn ORF líftækni um afmarkaða útiræktun á erfðabreyttu byggi. Mér sýnist umfjöllun um málið verða sífellt ómálefnalegri, og m.a. hefur
yfirmaður minn Kristín Vala Ragnarsdóttir forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs blandað sér í umræðuna á opinberum vetvangi. Hún er að sjálfsögðu frjáls í því að setja fram sína persónulegu skoðanir í málinu, en það þarf að vera skýrt hvað er faglegt og málefnalegt byggt á vísindalegum grunni, og hvað ekki. Ég vil því í stuttu máli greina þér frá faglegri afstöðu minni.
Ég er mjög á öndverðri skoðun við við sviðsforseta minn og Gunnar Gunnarsson sem skilaði séráliti í ráðgjafanefndinni. Mér þykir miður að bæði sviðsforsetinn og Gunnar Gunnarsson hafa boðið almenningi og stjórnvöldum upp á margháttaðar rangfærslur og villandi upplýsingar á sviði sem ég er sérfróður á. Ég skal fúslega gera grein fyrir þessum ávirðingum lið fyrir lið og með viðeigandi bakgrunnsupplýsingum verði þess óskað. Þessar upplýsingar eru að miklu leyti að finna í greinargerð meirihluta ráðgjafarnefndarinnar.
Vísindamenn sem þróuðu nýja tækni til erfðabreytinga á áttunda áratug síðustu aldar sýndu sterka siðferðiskennd, framsýni og ábyrgð eins og m.a. kom fram í fundarhöldum í Asilomar 1975. Það var almenn afstaða vísindamanna að sýna varkárni og meta möguleg áhrif á sannferðugan hátt. Í eðli sínu er ekki mikill munur á þessum nýju erfðabreytingum og þeim sem hafa verið þróaðar mannkyni til framdráttar á liðnum árþúsundum. Þær eru ekkert meira hættulegar en margt annað sem við tökum okkur fyrir hendur, og eru betur skilgreindar og metnar en hefðbundnar kynbætur almennt. Almennar fullyrðingar um hættulegan óstöðugleika vegna erfðabreytinga standast hvorki sérstaka skoðun eða reynslu undanfarinna áratuga. Ég fullyrði jafnframt, að eins og haldið er á málum, þá eru nútíma erfðabætur í ræktun margfalt minna vandamál og hættuminni fyrir mannkyn en almenn sóun okkar og eyðilegging á lofthjúpnum, innflutningur nýrra tegunda o.fl.
Við þurfum að standa vel og málefnalega að öllum mannana verkum og höfum til þess lagaumgjörð og lýðræðishefðir. Meirihluti ráðgjafarnefndarinnar hefur unnið sitt verk á þennan hátt af samviskusemi og fagmennsku og það ber að virða.
Það verkefni sem ORF líftækni sækir um felur í sér afmarkaða ræktun á byggi til framleiðslu til rannsókna á líf- og heilbrigðisvísindum og er þannig allt annað en ræktun og vinnsla á erfðabreyttum matvælum. Margt annað skilur þetta verkefni frá flestu því sem ófaglegir gagnrýnendur vilja leggja að jöfnu. Þar að auki er margt af gagnrýninni illa grundað. Öll hugsanleg varúðarsjónarmið hafa verið tekin til greina í umfjöllun ráðgjafarnefndarinnar og niðurstaða hennar er hið besta faglega mat sem við höfum á að byggja.
Ég vil líka minna á að rannsóknir og þjónusta í líf- og heilbrigðisvísindum byggja mjög á erfðatækni og erfðabreyttum lífverum, þar er þessi tækni löngu orðin hversdagleg og gagnleg, sætir vart nokkurri harðri gagnrýni eða tálmunum lengur.
Hvað varðar umsókn ORF líftækni, þá er hún byggð á lagalegri umgjörð og almennu samþykki í þjóðfélaginu og hún á rétt á málefnalegri umfjöllun og góðri stjórnsýslu, m.a. tímanlegri ákvarðanatöku án órýmilegrar íþyngingar.
Það þarf vart að minna á að nýsköpunarfyrirtækið ORF líftækni hefur verið byggt upp af mikilli elju og þekkingu á mörgum árum. Miklu vænlegra er að byggja framtíð þjóðarinnar á slíkum fyrirtækjum en stóriðjuverum sem byggja á ósjálfbærri nýtingu verðmætra orkuauðlinda og skilja orkufyrirtæki landsmanna eftir í húrrandi hallarekstri sem nemur miljörðum eða miljarðatugum árlega.
Ég virði rétt manna til að hafa aðra skoðun en ég hlýt að benda á það þegar vísindamenn eða leikmenn fara með rangt mál eða villandi upplýsingar á fagsviði mínu.
Bestu kveðjur,
Ólafur S. Andrésson,
prófessor í erfðafræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Erfðabreytingar og ræktun | Breytt 3.7.2009 kl. 10:59 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Sæll Arnar
Takk fyrir að vekja athygli á þessu. Það er ótrúlegt hvað það eru miklar ranghugmyndir um erfðabreytingar í plöntum og matvælum og mikill lobbýismi tengt því hvað þetta eigi allt saman að vera slæmt. Frábært af Ólafi að svara þessu.
Mig grunaði svo Kristín Vala ætti svo eftir að setja svip sinn á ýmislegt þegar hún var ráðin forseti náttúruvísinda-og verkfræðisviðs.
Hún er eflaust fínn jarðefnafræðingur og dugleg í stjórnsýslu Háskóla en það er ýmislegt sem bendir til þess að hún sé einnig höll undir heilsukuklið eins og ég kalla það.
Fyrirlestur hennar um mataræði sem finna má hér :
http://www3.hi.is/~oddur/info/pc/fram/KFupplysingar/docs/ValaIceMataraedi7juni2007.ppt
inniheldur svo margar rangfærslur og og bull að maður á bágt með að trúa því að prófessor við háskóla hafi skrifað þetta.
Ragnar (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 18:23
Sæll Arnar,
Þakka þér fyrir þarft innlegg. Það er með ólíkindum að fólk með jafn mikla reynslu af vísindastarfi og Kristín Vala skuli senda svona lagað frá sér.
Andri Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 19:09
Það að vera með nafnbætur og titla gildir einu, það að hafa faglega þekkingu og gagnrýna hugsun er það sem skiptir máli. Dómgreind er vitanlega líka nauðsynleg og að átta sig á þvi hvaða skyldum maður gegnir sem fulltrúi stórrar Akademískrar einingar.
Það er munur á persónulegum skoðunum og faglegum staðreyndum, sem Kristín Vala virðist ekki gera sér grein fyrir.
Arnar Pálsson, 29.5.2009 kl. 19:12
Frábært að sjá þetta bréf frá Ólafi. Og góðir punktar hjá þér líka, Arnar. Umræðan um erfðabreyttar lífverur er farin að keyra út yfir allan þjófabálk. Annað eins samsafn af illa ígrunduðum og óstuddum gífuryrðum og fjúka daglega héðan og þaðan í blöð og aðra miðla er vandfundið ... eða kannski ekki - umræðan var á svipuðu plani í Bretlandi þegar ég bjó þar fyrir nokkrum árum. Það sem pirrar mig mest af öllu er að hinir sjálfskipuðu riddarar erfðahreinleikans láta statt og stöðugt í það skína að vísindamönnum sé ekki treystandi, því þeir séu allir meira og minna á mála hjá Monsanto. Og svo er vísað til rannsókna sem sagt er að ekki hafi fengist birtar vegna hreinnar og klárrar þöggunar, eða eitthvað í þeim dúr. Sjaldnast er viðkomandi vísindamaður nafngreindur. Raunar hef ég það eftir nemanda mínum sem var að vinna heimildaverkefni á þessu sviði að hann hafi beinlínis skrifað til Kolbrúnar Halldórsdóttur og beðið um cíteringar, tengla eða bara eitthvað sem styddi mál hennar. Hún lét ekki svo lítið að svara honum.
Það sem þarf er markviss en hófstillt og hlutlaus almannafræðsla. En, það er líklega borin von að þeir sem mest tjá sig um efnið hafi eirð í sér til að meðtaka hana.
Oddur Vilhelmsson, 29.5.2009 kl. 23:33
Frábært og skorinort bréf frá Ólafi. Oft hefur vantað í umræður um vísindi þátttöku sérfræðinga. Þessi Kristín Vala er augljóslega ekki starfi sínu vaxin og mætti nú alveg íhuga afsögn.
Hafðu þakkir fyrir Arnar að vekja athygli á þessu.
Lárus Viðar (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 06:02
Ég er sammála, bréf Ólafs er eitthvað sem allir erfðafræðingar vildu ritað hafa.
Eitt skil ég samt ekki alveg, það er hvers vegna fólk er svona hrætt við erfðafræði og líftækni? Ég hef aldrei botnað í þessu. Þar sem ég sé tækifæri á að skilja lífverur og starfsemi þeirra sér fólk tröll og illa vætti, þar sem maður sér sem möguleika á hreinni framleiðslu á prótínum, sjá aðrir sem hættu við framtíð mannkyns.
Arnar Pálsson, 30.5.2009 kl. 10:30
Innlegg Ólafs er mjög virðingavert í umræðunni en þegar ráðist er persónulega á forseti deildarinnar fer umræðan í lágkúru og hún gagnast engum.
Ég er ein af þessum "leikmönnum" en ég rugla ekki það sem Orf er að gera við erfðabreytt matvæli, ég er ekki móðursjúk (ekki frekar en þeir 1400 Íslendingar sem hafa skráð sig á síðu til að mótmæla sleppingu erfðabreyttra lífvera í náttúrunni) og mér hefur skilst að gagnrýnin hafi hingað til verið einstaklega málefnaleg. Misskilningurinn liggur hjá ykkur, það er ekki verið að jarða Orf.
Ég vissi ekki (Arnar) að náttúran myndi sjálf sjá um ferja mannspróteín í plöntur eins og þú vilt kalla þetta markvíssa útgáfu að því sem gerist í rannsóknarstofu en það er kannski annað mál... En málið er ekki eingöngu tæknilegt, þótt að ESB gefur ekki leyfi til framleiðslu af erfðabreyttum plöntum með lyfjapróteín þar sem áhrifin eru ekki nægilega rannsökuð. Málið er síðfræðislegt ekki minna en samfélagslegt. Og það sem fólkið allt er á móti er að þessi framleiðsla (1 eða 10 ha - ekki greinilegt en Orf talar um 10 ha) eigi sér stað utan dýra. Það mundu væntanlega allir glaðir við una að sjá annað gróðurhús rísa í Grindavík. En náttúran VERÐUR að njóta vafans.
Dominique Plédel Jónsson (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 14:31
Enginn álítur sjálfan sig móðusjúkan. Það er eðli sýkinnar.
Móðursýki: Ofurviðbrögð, jafnvel óskynsamleg, við lítilli eða ímyndaðri hættu.
Hættan af byggi sem framleiðir prótein, sem að ekki gæti gert neinni plöntu gagn, þó að svo ólíklega færi að einhver slík planta yrði til, virðist vera það lítill, að gefnum eðlilegum varúðarráðstöfunum, að hér sé frekar um framfaraspor að ræða en ógn við framtíð mannkyns.
Þeir sem vilja svo veifa siðferði sínu, er það siðferðislega réttlætanlegt að berjast gegn tækni sem mun og hefur bjargað tugum milljónum mannslífa? Nei, sennilega ekki, nema að fram komi mjög áþreifanleg hætta og hún verður þá að vera vísindaleg.
Það mætti halda því fram að þegar að verið er að framleiða plöntur sem innihalda erfðabreytt gen t.d. sem verja þær gegn sýkingum eða sníkjudýrum, þá sé meiri hætta á að slík gen geti líka komið að gagni fyrir aðrar plöntur og því valdið mögulegum skaða í vistkerfinu. Þegar að svo er, verða menn þá að vega og meta hættunna og afraksturinn (brauðfæða milljónir) svo er þó ekki í þessu tilfelli.
Nátúran á að njóta vafans, þegar að það er vafi. Það er ekki það sama og að segja í hvert einasta skipti sem að eitthvað er rætt sem tengist náttúrunni (sem er ansi margt) þá geti hver sem er sagt "ég finn fyrir vafa" og þá sé hætt við allt. Nei, ábyrgt fagfólk, eins og ÓA, metur hvort að um einhvern raunverulegan vafa sé að ræða. Svo er fagleg ákvörðun tekin.
ps: Hver man ekki máltækið: 1400 manns á facebook geta ekki haft rangt fyrir sér eða sjaldan er lýgur alnetið.
Pétur Henry Petersen, 1.6.2009 kl. 15:22
Arnar Pálsson, ert þú reiðubúinn til að útskýra fyrir okkur hvaða tengsl þú hefur við Orf Líftækni, einnig máttu upplýsa okkur um tengsl Ólafs Andréssonar við sama fyrirtæki, eða eigendur þess.
Sjaldan lýgur almannarómur
Einnig vil ég hvetja ykkur félaga til að upplýsa um hvaða hagsmuna þið hafið að gæta.
Margur verður af aurum api, mundu það !
Árni Haraldsson, 1.6.2009 kl. 15:56
Árni, ég sé að þú ert stjórnmálamaður og hefur eflaust þinna hagsmuna að gæta sjálfur, í hið minnsta ímyndarinnar :)
Við skulum minnast þess að Íslendingar treysta Alþingi og stjórnmálamönnum verst allra en HÍ mest allra. Það er vegna þess að við HÍ á sér stað fagleg starfsemi, mér finnst eins og þú sért að ýja að því að prófessor við HÍ sé að sinna eigin erindum og jafnvel að auðgunarvon liti skoðun hans, ef það er það sem þú ert að segja ættirðu kannski bara að segja það beint út og styðja með áreiðanlegum upplýsingum. Eða ertu að taka þátt í alvarlegri umræðu með slúðri og gróusögum?
Pétur Henry Petersen, 1.6.2009 kl. 16:23
Árni
Ég á ekki bréf né hlut í orf. Þekki enga af stjórnarmönnum nema af afspurn, ræddi stuttlega við Björn Örvar i síma fyrir 4 árum þegar ég sótti um starf á RALA en fékk ekki.
Get ekki tilgreint hvort að Ólafur eigi hagsmuna að gæta, en efa það, hann er það grandvar að hann hefði ekki ritað bréf sitt ef um hagsmuna árekstra hefði verið að ræða. Það er ekki spurningin um "conflict of interest" heldur "apperance of conflict of interest" (íslenskir stjórnmálamenn eiga eftir að læra þetta!).
Og Árni, almannarómur lýgur oft, og margir þurfa enga aura til að verða apar.
Arnar Pálsson, 2.6.2009 kl. 09:54
Sem óháður einstaklingur úr hópi sótsvarts og fáfróðs almúgans er mér spurn (ég á engra hagsmuna að gæta annarra en er varða heilbrigði náttúrunnar sem heldur mér lifandi, og auðvitað mitt eigið heilbrigði og minna):
Ef þetta erfðafikt er jafn öruggt og sumir halda hér fram, hvers vegna hafa fjölmörg lönd bannað þetta innan sinna landamæra, og hvers vegna eru settar fjölþjóðlegar skorður við slíku fikti?
Arndís (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 10:00
Dominique
Spurning um náttúrulegan fluttning á erfðaefni. Náttúran gerir ekki neitt, en það gerst fullt í náttúrunni. Lögmál efnafræði, erfða, lífeðlisfræði, þróunar og vistkerfa eru öll að verki í náttúrunni. Og stundum taka lífverur upp erfðaefni, innlima það í erfðamengi sitt og lifa það af (þær sem innlima banvæn gen deyja, og síðan ekki söguna meir).
Þetta er vitanlega örsmá prósenta af erfðamengi heimsins á hverjum tímapunkti sem flyst í hverri kynslóð lífvera. Það er ekki algengt að við (sem tegund með 6 milljarða einstaklinga) innlimum erfðaefni úr öðrum tegundum, né heldur að villtar hveitiplöntur taki upp DNA, en það gerist samt. Veirur sem sýkja lífverur geta flutt inn gen frá millihýslum eða bakteríum.
Í stuttu máli, erfðabreytingar gerast fyllilega náttúrulega. Og við höfum náð stjórn á tækni sem gerir okkur kleift að gera þetta markvisst á tilraunastofu.
Rétt eins og við höfum náð valdi á tækni sem gerir okkur kleift að nýta önnur náttúruleg ferli, bruna kola og olíu, fall vatnanna, fæðuframleiðslu hveitiplantna. Í öllum þessum tilfellum er um að ræða náttúruleg ferli, sem við höfum betrumbætt með tæknilegum framförum (oft mjög, mjög mikið).
Arnar Pálsson, 2.6.2009 kl. 10:09
Árni:
"Sjaldan lýgur almannarómur" og "Margur verður af aurum api"
Hver er tilgangur þessarar setningar þinnar annar en að reyna ómaklega að láta Arnar og Ólaf líta út fyrir að eiga fjárhagslegara hagsmuna að gæta í þessu afmarkaða máli?
Einnig verð ég að setja spurningarmerki þegar virkjannasinni sem á hagsmuni að gæta gagnvart Landsvirkjun reynir einhverra hluta vegna að troða sér í stjórnmálaflokk sem eitt stærsta kosningamál hefur verið að berjast gegn fleiri virkjunum, segir að aurar apageri fólk. Hljómar doldið eins og tækifærissinni í mínum eyrum.
Karma (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 11:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.