Leita í fréttum mbl.is

Nóbelsverðlaunin 2006

Voru veitt Craig Mello og Andy Fire, fyrir að finna og skilgreina hvernig tvíþátta RNA sameindir gátu haft áhrif á þroskun þráðormsins (Caenorhabditis elegans). Það sem gerði sameindina nýstárlega var að hún skráði ekki fyrir prótíni eins og þekktasta RNA sameind frumunnar (mRNA)*, heldur hafði hún áhrif á líffræði frumunnar án þess að skrá fyrir prótíni.

Þetta virtist ganga gegn grunnsetningu sameindalíffræðinnar, DNA -> RNA -> prótín, en þegar nánar er að gáð er aðeins um tilbrigði við hana að ræða.

Uppgötvun Mello og Fire settu eldri niðurstöður í nýtt ljós, og þá sérstaklega niðurstöður Victor Ambros sem hafði kortlagt lin-4 genið (sem hafði áhrif á skiptingu fruma í þráðorminum). Victor hafði nelgt genið niður, en fundið 700 basa bút sem ekki skráði fyrir prótíni. Engu að síður myndaðist RNA og það virtist sem RNAið hefði líffræðileg áhrif.

Uppgötvun RNAi og microRNA (sem lin-4 er dæmi um) opnaði ný rannsóknasvið í líf og læknisfræði.  Ørntoft og félagar við Sameindasjúkdómsgreiningarstofnunina (Molecular diagnostic laboratory), við Háskólann í Árósum, eru að rannsaka microRNA sameindir í þvagblöðrukrabbameinsfrumum. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að fólk reyni að finna gen sem eru tjáð aðallega í krabbameinum, eða sem vanti í krabbamein. Einnig er ekkert nýtt að fólk reyni að breyta tjáningu þeirra gena og skoða hvernig krabbameinsfrumurnar bregðast við. Því miður er grein  Ørntofts og félaga ekki enn aðgengileg, þannig að það er erfitt að meta hversu merkileg uppgötvun þeirra er.

Vandamálið við að nota microRNA sem meðferð, er að RNA sameindir eru mjög óstöðugar, og það getur verið erfitt að koma þeim inni í réttar frumur. 

Venjulega lýk ég þessum fréttaskýringum með því að agnúast út í fréttaflutning mbl.is, stirðar þýðingar, rangtúlkanir og ígildidýraníðs á prentformi. Þess í stað sendi ég lesendur vinsamlegast yfir á léttmetissíðuna laukinn, þar sem þeir geta lesið um salmónellur sem fæðubótarefni.

*Vitanlega eru aðrar undantekningar, en þær tengjast aðallalega verkun á RNA eða myndun prótína (tRNA, rRNA og aðrar smáar RNA sameindir).

Ítarefni, misaðgengilegt:

Dyrskjøt L, Ostenfeld MS, Bramsen JB, Silahtaroglu AN, Lamy P, Ramanathan R, Fristrup N, Jensen JL, Andersen CL, Zieger K, Kauppinen S, Ulhøi BP, Kjems J, Borre M, Ørntoft TF. Genomic Profiling of MicroRNAs in Bladder Cancer; miR-129 Is Associated with Poor Outcome and Promotes Cell Death In vitro. Cancer Research. 2009. [óútgefið] 

Fire A, Xu S, Montgomery MK, Kostas SA, Driver SE, Mello CC. Potent and specific genetic interference by double-stranded RNA in Caenorhabditis elegans. Nature. 1998 Feb 19;391(6669):806-11.

Seydoux G. The 2006 Genetics Society of America Medal. Victor Ambros. Genetics. 2006 Feb;172(2):721-2.


mbl.is Sameind ræðst á krabbameinsfrumur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Sæll Arnar:

Hef sjálfur ekki heldur séð þessa grein Torben Örntoft  og félaga frá Árósum en hún er ein margra greina sem hafa á síðustu örfáu misserum tengt ýmis miRNA gen við krabbamein. Ég held að þetta sé ekki tímamótagrein per se en þaðer ljóst að miRNA sameindir eru almennt að koma mjög víða við sögu í krabbameinsmyndum,  á mörgum stigum, sennilega ekki síst við framþróun (progression) sjúkdómsins.

Kveðja,

Magnús

Magnús Karl Magnússon, 2.6.2009 kl. 20:50

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir innleggið Magnús Karl

Þar sem miRNA virðast mörg hver taka þátt í bælingu á umritun og þéttlitnismyndun, er alls ekki ólíklegt að röskun á starfsemi þeirra geti ýtt undir fjölgun og vöxt fruma. Kannski að miRNA viðhaldi einnig sérhæfingu og mörkun frumnanna, sem virðist oft raskast í krabbameinum.

Líklegt er að miRNA séu hluti af nauðsynlegri starfsemin vagnsins sem er líkami okkar. Það að missa þau úr vél, eða gírkassa getur leitt til verulegra vandamála. Það verður spennandi að sjá hvernig þessum rannsóknum vindur fram.

Arnar Pálsson, 3.6.2009 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband