14.6.2009 | 12:16
Kæra fjölskylda
Fyrir mánaðarmót sendi frænka mín bréf á alla fjölskylduna þar sem hún varaði við ræktun erfðabreytts byggs. Mér fannst ástæða til að svara fjölpóstinum, og er það svar grunnurinn að þessari færslu.
Líffræðin kennir okkur að erfðabreyttar lífverur eru ekki eins hættulegar og fólk segir.
Í náttúrunni blandast erfðamengi lífvera saman á hverjum degi, bakteríur taka upp gen, veirur skjótast inn í erfðamengi, systurtegundir æxlast og sambýlislífverur skiptast á genum. Lífverur eru náttúrulega erfðabreyttar, auk þess sem nýjar og ófyrirsjáanlegar stökkbreytingar verða til á hverri sekúndu. 50 erfðabreyttar byggplöntur eru dropi í þann sjó lífvera sem til er og hefur verið til. Og að segja að áhættan á skrímslum vegna 50 byggplantna sé meiri en áhættan í allri náttúrunni yfir milljarða ára er rangt.
Ræktendur hafa nýtt sér náttúrulegar uppsprettur erfðabreytileika í ræktun afbrigða og kynbótum í hundruð ef ekki þúsundir ára. Við skjálfum ekki á beinunum yfir kynbættum kartöflum eða vel æxluðum nautgrip, en þeir eru í sjálfu sér ekki svo fjarri "ónáttúrulega" erfðabreytta bygginu sem ORF líftækni ræktar. Í stað þess að nota handahófskenndar aðferðir og bíða eftir því að finna "náttúrulega" erfðabreytt bygg (með því að hella manna DNA á nægilega margar byggplöntur mun það takast á endanum!!), þá notar ORF nákvæmari tækni.
Erfðabreyttustu lífverur jarðar eru nytjaplöntur og húsdýr. Það eru ekki skrímsli sem eiga eftir að þurrka út annað líf á jörðinni eða drepa mannfólk unnvörpum. Nytjaplöntur og húsdýr eru í raun bæklaðar lífverur, vegna þess að við höfum valið fyrir ákveðnum eiginleikum (mjólkurnyt, kjötmagni, stærð kornsins) á kostnað náttúrulegrar hæfni lífverunnar. Þessar plöntur og dýr þarfnast margar hverjar okkar aðstoðar við að lifa af. Hveiti nútímans fellur ekki af axinu sjálft, sum evrópsk kúakyn geta var fædd kálfa án dýralæknis, og bananar eru einræktaða útgáfan af halta Pétri. Því er auðvelt að álykta að erfðabreytt bygg með insúlíngen mannsis er engin ógnun við lífríkið.
Margir setja jafnaðarmerki milli ORF líftækni og Monsanto. Við getum rætt Monsanto og áþekk fyrirtæki síðar, en ORF er með annarskonar framleiðslu. Það notar bygg sem efnaverksmiðjur. Það að hreinsa lífefni úr öðrum uppsprettum er bæði óskilvirkara og sóðalegra, og það að nýmynda slík efni með aðferðum lífrænnar efnafræði krefst margra lausna sem eru miður æskilegar. Ef valið er á milli þess að framleiða Insulín með byggi, eða hreinsa það úr svínavef þá myndi ég velja byggið.
Áhættan af erfðabreyttu byggi er hverfandi, eins og við höfum rakið hér áður. Ef við viljum sýna náttúrunni og umhverfinu virðingu þá er margt annað sem við ættum að BANNA á undan erðabreyttu byggi (flugvélar, bíla, orkufrek hús með glerrúðum, malbik, dráttarvélar, farþegaskip, bækur, gosdrykki, umbúðir o.s.frv.).
Við verðum að forgangsraða í okkar lífi, t.d. með þvi að draga úr akstri, kaupa matvöru með litlum eða engum umbúðum og setja niður tré. Ég treysti ykkur alveg til að komast að eigin niðurstöðu um það hvernig við getum verndað náttúru Íslands og heimsins, en ég vona að þið dæmið ekki erfðabreytta byggið á röngum forsendum.
Með kveðju,
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Darwin og þróun, Erfðabreytingar og ræktun | Breytt 3.7.2009 kl. 11:01 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Loksins kemur einhver með vitræn rök inn í umræðuna. Hafðu þökk fyrir þessa færslu sem og þá á undan.
Kristján Hrannar Pálsson, 14.6.2009 kl. 12:26
Takk fyrir Kristján.
Arnar Pálsson, 16.6.2009 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.