Leita í fréttum mbl.is

Erfðabreyttar kýr

Með hefðbundnum kynbótum og ræktunarstarfi hafa hin fornu kúakyn tekið stórkostlegum breytingum á síðustu öldum. Íslenska kýrin er ósköp smá í sniðinu og að upplagi álitin keimlík nautgripum sem haldið var til haga af evrópskum og skandinavískum forfeðrum okkar. Mörg kúakyn í Evrópu og Norður Ameríku eru orðin tröllaukin að stærð, með mikla framleiðslu og meltingargetu.

Aukaafurð meltingar nautgripa er metangas sem er ein af gróðurhúsalofttegundunum. Af þessum ástæðum hafa vísindamenn litið til þess að minnka útblástur slíkra lofttegunda með því að draga úr "ropi" kúa. Atli Steinn Guðmundsson skrifar um þessi mál á vísir.is, undir fyrirsögninni "Rækta kýr sem ropa minna". Atli finnur oft forvitnileg efni til að kynna á Bylgjunni og vísi.is (dæmi), en stundum ber ónákvæmnin hann ofurliði.

Vitnað er í Stephen Moore sem vill finna hvernig hægt sé að rækta kýr sem ropa minna, með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Því miður er umfjöllun visir.is ekki nægilega nákvæm:

Stephen Moore, prófessor við Alberta-háskólann í Edmonton, rannsakar nú hvaða gen í kúm hafa mesta þýðingu við metanframleiðslu þeirra og benda frumniðurstöður til þess að hægt sé að hanna kýr sem framleiða fjórðungi minna metangas en nú þekkist. [feitletrun AP]

Það eru örverur í iðrum kúnna sem framleiða metangasið. Vitanlega er mögulegt að finna gen sem tengjast viðkomu og fjölbreytileika baktería í iðrum kýrinnar, og velja fyrir þeim kúm sem losa minna metan. Það er misvísandi að segja að við getum "hannað" dýr. Við getum í besta falli valið fyrir þeim eiginleikum sem okkur líst best á, og kannski valið beint fyrir ákveðnum genum sem okkur grunar að hafi með metanlosun að gera.

Moore virðist gera sér fyllilega grein fyrir þeim möguleika að samdráttur í losun metans geti dregið úr nyt kúnna. Örverurnar brjóta niður grasið og gera næringu þess aðgengilega fyrir kúna, og ef það dregur úr virkni örvera er líklegt að nytin falli einnig. Orðalag fréttar visir.is er aftur óþarflega ónákvæmt:

...hafa verði til hliðsjónar hver langtímaáhrif alls erfðafikts verði á kýrnar og getu þeirra til framleiðslu mjólkur. [feitletrun AP]

Orðið erfðafikt er litað af ákveðnum fordómum um eðli ræktunar og búvísinda, sjá pistil. Fikt er oft notað þegar rætt er tilraunir og ræktun á erfðabreyttum lífverum. Ég er ekki einu sinni viss um að Moore hafi stungið upp á markvissum erfðabreytingum til að breyta eiginleikum mjólkurkúnna.

Markvissar erfðabreytingar virðast ekki vera nein galdralausn í ræktun nytjaplantna eða húsdýra. Eugene Eisen prófessor í dýrakynbótum við NCSU vann með stofn af músum, þar sem sumar mýsnar baru auka gen fyrir ákveðinn vaxtarþátt (hluti stofnsins var erfðabreyttur á markvissan hátt). Hann valdi fyrir auknum vexti í músastofninum, en tíðni auka vaxtarþáttar-gensins jókst ekki. Það þýðir að áhrif gensins hafi verið í besta falli lítil, og að aðrir erfðaþættir í músastofninum hafi skipt meira máli fyrir svörun stofnsins við valinu.

Markvissar erfðabreytingar geta verið hagnýtar en ég tel líklegt að kynbætur framtíðarinnar muni byggja á klassískum grunni, þar sem reynt verður að hagnýta erfðabreytileika náttúrulegra stofna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband