3.7.2009 | 10:04
Vitlaus og óafvitandi
Þetta á ekki að vera langur pistill, bara örlítill forsmekkur að bloggfærslu Thomas Mailund. Thomas er tölvunarfræðingur sem vinnur aðallega að rannsóknum á líffræðilegum fyrirbærum t.d. skyldleikatrjám, stofnerfðafræði og kortlagningu gena.
Hann kennir einnig tölvunarfræðingum og öðrum, og lenti nýverið í því að margir nemendur kvörtuðu yfir einkunnum á prófi. Kennsla og námsmat er vissulega flókin og oft skelfilega huglæg, en Thomas dró fram frábæra grein sem er kveikjan að fyrirsögn okkar (í raun frekar stirð þýðing á fyrirsögn Thomasar - Unskilled and unaware of it).
Lykil niðurstaða greinarinnar er að nemendur sem standa sig illa á prófum, halda að þeir séu betri en þeir eru. Ef viðbragðið við lágri einkunn er að kenna um utanaðkomandi þáttum (kennara, prófi, flensu) þá er ólíklegt að viðkomandi temji sér betri námshætti eða leggi harðar að sér við námið.
Nám í háskóla snýst nefnilega ekki endilega um gáfur, heldur það að kunna að vinna, halda einbeitingu, lesa og skilja, æfa sig í að miðla þekkingu og leysa vandamál. Ég held að það sé nokkuð sama hvaða námi maður er í, gott vinnulag er það sem skiptir sköpum og verður besta afurð námsins.
Eftirskrift.
Fyrsta útgáfa pistilsins var með óaðvitandi í stað óaFvitandi. Grúti er þökkuð ábendingin.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 6.7.2009 kl. 09:27 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Athyglisvert.
Félagi minn, sem kennir líffræðifög í Háskóla Íslands m.a., hefur sagt mér það að nemendur hans ætlist til þess að fá betri einkunnir en þeir eigi í raun heimtingu á - þ.e. þeim þyki sjálfsagt og eðlilegt að fá háar einkunnir jafnel þótt vinnuframlagið og vandvirknin sé lítil; þeir vilji sem sagt allt fyrir ekkert! Nemendurnir virðast ekki taka athugasemdum sem leiðbeiningum um að gera betur heldur sætta sig ekki við rauð pennastrik kennarans. Ef til vill er þetta einkenni sterkara í þeirri kynslóð sem tiltölulega nýlega er komin á háskólaaldurinn heldur en í fyrri kynslóðum. Ef svo er þá er áhyggjuefnið bæði hin áunnu persónueinkenni kynslóðarinnar og raunverulegt menntunarstig sömu kynslóðar.
Eiríkur Sjóberg, 3.7.2009 kl. 20:08
Set hér eitt rautt pennstrik: óaFvitandi; að vita ekki aF einhverju. Að öðru leyti athyglisverð færsla. B+
Grútur (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 07:04
Eiríkur
Mér finnst vera munur á nemunum núna og fyrir 10 árum. Ritgerðir og lengri svör á prófum virðast mér verr skrifuð, uppbyggð og tungumálið er umtalsvert lakara. Mig grunar að það sé vandamál á öllum sviðum háskólanáms, og megi rekja til minni lesturs ung fólks og þeirrar staðreyndar að bréf og ritgerðarskrif eru á undanhaldi. Það þurfa ekki allir að skrifa eins og Laxnes eða Thor Vilhjálms, en að minnsta kosti að kunna að setja upp stíl, halda þræði, skilgreina hugtök og byggja upp röksemdafærslu.
Arnar Pálsson, 6.7.2009 kl. 09:32
Skemmtilegt dæmi, sérstaklega þar sem Laxnes var líklega skrifblindur og hefði aldrei náð einkun í stafsetningu eða málfræði í grunnskóla :)
Ég er sjálfur skrifblindur og hafði mjög gaman af Laxnes í framhaldskóla. Aðallega af því að ef hann, einn frægasti rithöfundur þjóðarinnar, komst upp með að vera algerlega óskrifandi á 'réttri' íslensku, hvað var þá íslensku kennarinn sem var að kenna mér Laxnes að skammast í mér. Verst að kennaranum þótti það ekki jafn sniðugt og mér sjálfum..
Arnar, 7.7.2009 kl. 10:13
Nafni
Stafsetningu er hægt að bjarga með villupúka, málfræði er eitthvað sem lagast með yfirlestri (t.d. vinar þíns), en almennileg skrif er bara hægt að æfa með því að skrifa sjálfur, mikið.
Þú virðist hafa sloppið ágætlega úr þessu sjálfur, þú hefur vonandi haldið áfram að skrifa og ekki látið kennarann draga úr þér kraftinn.
Arnar Pálsson, 7.7.2009 kl. 13:38
Sæll Arnar
Já, þetta er vissulega áhyggjuefni. Þú segir nemendur skila verri texta nú en áður, að þar sé um afturför að ræða. Og að þeir kunni/geti ekki haldið þræði og/eða skilgreint hugtök í röksemdafærslum sínum.
Nú trúi ég að þetta sem einmitt tilfellið. Og því er þetta áhyggjuefni.
Hver ætli skýringin sé á þessu? Vita menntamálayfirvöld af þessu? Og hver er afstaða þeirra til þessa áhyggjuefnis?
Mér dettur í hug að skýringa á vandanum sé að leita m.a. í því að (ungt) fólk verður fyrir of miklu áreiti. Þetta leiðir af einföldu stærðfræðidæmi. Tíminn er fasti en áreitið eykst. Úr því áreitið eykst en tíminn er fasti gefst minni tími fyrir hvert og eitt viðfangsefni. Svo virðist sem fólk skauti yfir efnið, lesi fyrirsagnir og samantektir, en kafi minna ofan í efnið (t.d. til að ná tökum á hugtökunum) og endurtaki sig sjaldnar (þ.e. æfi sig minna, sbr. æfingin skapar meistarann).
Fróðlegt væri að heyra/vita af því hvort einhver alvarleg umræða á sér stað um þennan vanda innan skólakerfisins/menntakerfisins. Vandinn er ef til vill hljóðlátur en kann að koma samfélaginu mjög í koll innan tíðar!
Eiríkur Sjóberg, 9.7.2009 kl. 22:01
Eiríkur
Ég er viss um að áreitið hjálpi ekki ungu fólki að þjálfa einbeitingu eða þroska vinnulag sitt. Margir krakkar læra á tölvunni með opna spjallrás eða kveikt á símanum. Kannski líða 10 mín á milli tölvupósta eða samræðna á rásinni. Það tekur alltaf dálítinn tíma að setja sig inn í vandamál, hvað þá melta það og skila frá sér.
Mjög líklegt er að fólk innan menntakerfisins geri sér grein fyrir þessu, en ég er ekki inni þeirri umræðu.
Arnar Pálsson, 10.7.2009 kl. 09:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.