22.8.2009 | 10:53
Skemmdarverk og skýrsla
Pistill Helga Jóhanns Hauksonar bendir á að spjöllin sem unnin voru á tilraunareit ORF virðast hafa gerst fyrr en segir í fréttatilkynningu fyrirtækisins.
Ef lýsing ORF af atburðum er ekki nægilega nákvæm kastar það þá rýrð á starfsemi þeirra? Ef lýsing þolanda af glæpamanni er ónákvæm, þýðir það að glæpurinn var ekki framinn? Í þessu tilfelli var skemmdarverk framið, en reynt er að gera þolandann grunnsamlegann.
Auðvitað eiga ORF að fara eftir þeim leiðbeiningum sem settar voru um ræktun byggsins, en ég held að það sé ofaukið að krefjast 24 stunda gæslu á svæðinu, varðhunda og gaddavírs.
Egill Helgason tók þetta upp í færslunni "spjöll á kornakri" og kveikti í ansi líflegum þræði á bloggi sínu. Skoðun Egils á málinu er dálítið þokukennd, en hann virðist vera mótfallinn ræktun á erfðabreyttum lífverum og finnst vísindamenn til lítils gagnlegir við mat á áhættu:
Annars má benda á að tuttugasta öldin kennir okkur meðal annars eitt:
Að vísindamönnum er ekki treystandi til að meta hvað er hættulegt og hvað ekki.
Komment við spjöll á kornakri sett inn kl. 21. ágúst, 2009 kl.11:46
Auðvitað þurfa vísindamenn að koma að mati á áhættu nýrrar tækni eða við mat á hættuni af mengun eða breytingum á loftslagi. En það á vitanlega ekki að vera mál vísindamannanna einna, samfélagið VERÐUR að koma að ákvarðanatökunni líka. Mikilvægast er að hún sé UPPLÝST, ekki bara að menn séu hræddir við söngvírinn af því hann lætur hátt í vindi. Við vitum að mörg mannanna verk hafa mikil neikvæð áhrif á náttúruna og þurfum að gera meira til að draga úr þeim áhrifum eða minnka þau. Erfðabreyttar lífverur eru ekki sú ógn sem margir vilja vera láta, og það sem meira máli skiptir er að það liggja ekki staðreyndir til grundvallar ótta þeirra.
Vísa á þráð Egils, þar sem mjög lífleg umræða fer fram.
Margar ógnir steðja að íslenskri náttúru, á landi og legi. Nýverið kom í ljós að plast brotnar hratt niður í hafinu og getur verið sérstaklega hættulegur lífríki þess. Getum við ekki sameinast um að berjast gegn ofnotkun á plasti, í stað þess að karpa um meinlausar plöntur?
Mikið tjón fyrir lítið fyrirtæki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 24.8.2009 kl. 15:48 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Heyr heyr,
það er ekkert meira pirrandi en þegar fjölmiðlafólk grípur samsæriskenningar eða skoðanir jaðarhóps á lofti og útvarpar þeim eins og þær séu sannleikurinn. Því miður stundar Egill það líka þegar að kemur loftlagsbreytingum. Sem mér finnst mjög svekkjandi því í alla aðra staði fíla ég hann í botn.
Tinna (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 04:10
Er ekki ástæðan fyrir þessari hræðslu við erfðabreytt matvæli / lífverur að fólk er hrætt við það sem það skilur ekki og er þeim ósýnilegt?
Menn hræðast af þessum sökum erfðabreyttar lífverur, rafmagn, geislavirkni, ...og jafnvel drauga :-)
Mér þóttu mörg kommentana á spjallvef Egils bera þess merki, þ.e. fólk hræðist það sem það skilur ekki.
Annars finnst mér undarlegt hvað margir fela sig á bak við dulnefni, og komast upp með að vera með skíkast og jafnvel persónuníð.
Ágúst H Bjarnason, 23.8.2009 kl. 08:30
Egill fellur, eins og svo margir aðrir, í þá gryfju að vegna þess að skemmd epli leynast í vísindunum, þá sé vísindamönnum yfir höfuð ekki treystandi. Hann skilur ekki hvernig vísindin virka. Í vísindum er innbyggt leiðréttingarferli þar sem jafningar gagnrýna hiklaust aðra vísindamenn ef þeir eru á öndverðum meiði. Ritrýnd vísindarit eru dæmi um þetta. Ef einn vísindamaður - hann tekur dæmi af Edward Teller - aðhyllist kjarnavopnanotkun, þá gleymir hann því að stærstur hluti vísindasamfélagsins er ekki hlynntur þeim.
En hvað veit ég, þetta er bara helvítis vísindahroki og besservisserskapur hjá mér!
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 23.8.2009 kl. 15:01
Ég tek líka undir það sem Ágúst segir, fólk er hrætt við það sem það ekki skilur, það sem það ekki sér og það sem því hefur verið talin trú um að sé hættulegt. Fólk tekur það sjaldnast upp með sjálfu sér að skoða málin ofan í kjölinn upp á eigin spýtur.
Annars þykja mér tilsvör Egils þarna alveg út í hött. En mér er svo sem skítsama hvað honum finnst. Verst bara hvað hann er áhrifamikill.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 23.8.2009 kl. 15:03
Ég tek undir athugasemdirnar hér að ofan.
Og svakalega er pirrandi þegar Hannes Hólmsteinn er dreginn fram í dagsljósið af ýmsum þáttastjórnendum sem sérstakur sérfræðingur á sviði loftslagsmála.
Kama Sutra, 23.8.2009 kl. 18:04
Sæll Arnar:
Tek undir orðin hér að ofan. Það er ákaflega erfitt að átta sig á Agli - á stundum. En mér sýnist að þó svo að hann hafi staðið sig bísna vel þennan erfiða vetur þá hefur hann staðfastlega lýst yfir í mörgum málum miklar efasemdir um vísindi og þá sérstaklega raunvísindi. Vísindamenn í hans augum eru að ganga erinda einhvers annars en "sannleikans" og þeir eru eins og hver annar þrýstihópur sem við verðum að verjast með ráð og dáð.
Hann er ákaflega svag fyrir klassískum hugvísindamönnum, og klassískum fræðum. Hann minnir svolítið á breska menntaelítu um miðja síðustu öld sem snobbuðu fyrir því að vita ekkert um raunvísindi, og litu á það sem eitthvað fyrir neðan sína virðingu. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá og ég held að slíkt snobb fyrir vanþekkingu á raunvísindum sé víðast hvar í dag litið miklu hornauga.
Ég átti um tíma í smásamskiptum við hann um umhverfismál og loftlagsbreytingar og þá uppgötvaði ég hlið á honum sem var alveg ótrúlega "naive" að mínu mati. En við verðum kannski að virða hann fyrír það sem hann er góður í ... og loka augunum á stundum fyrir þessari hlið Egils.
Magnús Karl Magnússon (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 22:24
Takk öll fyrir góð innlegg.
Enginn er fullkominn, öll gerum við mistök. Maður getur haft rétt fyrir sér um eðli jarðvegs en rangt um erfðabreyttar lífverur, rétt um þróun, en rangt um erfðir, og svo fram eftir götunum.
Ég hafði veitt eftirtekt stöðu Egils í umræðunni um hnattræna hlýnun og fannst lítið til koma. Oft er eins og fjölmiðlafíguran sigri gagnrýnandann.
Í umræðu sem þessari finnst mér mjög algengt að fólk noti tilfallandi staðreyndir sem rök fyrir sinni skoðum. Skoðun sem er oft mjög djúpt greypt og nær óhagganleg. Hrunið er t.d. notað sem rök fyrir öllum andskotanum; minni kerfisbúskap, aukinni nýsköpun, meiri frjálshyggju, minni frjálshyggju, meiri jóga, meiri vísindakennslu (er sjálfur sekur um þetta), minna kex og meiri fisk.
Vísindamenn eiga flestum betur að vita mikilvægi óvissu og að ríkjandi kenningar geta fallið eða tekið stórvægilegum breytingum. Því miður túlkar fólk slíkar vísindabyltingar oft sem rök fyrir því að sannleikurinn sé ekki einn heldur margir. Það er ekki heppilegt fyrir upplýsta þjóðfélagsumræðu.
Arnar Pálsson, 24.8.2009 kl. 08:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.