Leita í fréttum mbl.is

Tarzan og risarottan í eldfjallinu

Sem strákur las maður ógrynni af ævintýrabókum, Fimm fræknu, ævintýrabækurnar, Tom Swift, Frank og Jóa og auðvitað Tarzan.

Í Tarzanbókunum var algengt að hetjurnar okkar lentu í helli með lífverum frá Ísöld eða dal með risaeðlu. Fréttin í BBC um risarottu í týndu eldfjalli gæti allt eins verið titill á Tarzanbók.

Líffræðin sem um ræðir er vitanlega sú að enn eru að finnast áður óþekktar tegundir lífvera, jafnvel stórra og stæðilegra hryggdýra eins og umrædd "rotta". Tegundirnar fundust Papua nýju Guineu, sem er ein stærsta eyjan í því sem var einu sinni kallað Austur indíur. Lífríki þessara eyja er mjög fjölbreytt, margar tegundir skordýra, spendýra og fugla má finna þar, og eru flestar þeirra einstakar. Alfred Wallace sem ásamt Charles Darwin setti fram þróunarkenninguna vann fyrir sér sem náttúrugripasafnari á þessum eyjum. Fjölbreytileiki lífveranna en samt óumdeilanlegur skyldleiki vakti athygli hans, rétt eins og Darwin tók eftir sambærilegu mynstri á Galapagoseyjum. 

Ef til vill var það ekki tilviljun að náttúrufræðingar sem skoðuðu lífríki eyja uppgötvuðu náttúrulegt val. Ljóst er að eyjar og einangraðir staðir eins og eldfjöll eru fyrirtaks staðir fyrir ævintýraþyrsta náttúrufræðinga nútímans. Sem betur fer lenda þeir sjaldnast í hremmingum eins og Tarzan, því það er óvíst hvernig þeim farnaðist í slag við krókódíla, hausaveiðara eða illgjarna námumenn.

Atla Steini er þökkuð ábendingin, þessi frétt á BBC er mjög forvitnileg.

Ítarefni.

Matt Walker - Giant rat found in 'lost volcano' BBC 6 september 2009. - mæli sérstaklega með myndböndunum.

Atli Steinn Guðmundsson á vísi.is - Risarotta á meðal 40 nýuppgötvaðra dýrategunda


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Skemmtileg frétt og risarottan hugguleg. Maðurinn hefur ekki enn náð að eyðileggja ýmis afskekkt svæði með stjórnlausri útþenslu sinni og græðgi en kannski fer að verða fjárhagslega hagkvæmt að nýta jafnvel Nýju-Gíneu.

Baldur Fjölnisson, 7.9.2009 kl. 18:38

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Góður punktur Baldur

Óspillt náttúra er á miklu undanhaldi. Þótt hálendi Íslands virki ómerkileg í samanburði við skógi vaxin eldfjöll í hitabeltinu, hefur það engu að síður mikið gildi vegna þess að þau eru svo að segja óspillt.

Það er afar ólíklegt að risarotta finnist í Öskju, en við ættum samt ekki að láta hjá líðast að vernda íslensk víðerni.

Arnar Pálsson, 8.9.2009 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband