15.9.2009 | 09:26
Amerískir kjúklingar
Sköpunarsinnar kvarta oft yfir þvi að vísindamenn séu með ofríki og að sumir þeirra halda því fram að samsæri sé gegn kirkjunni og lífskoðunum hinna trúuðu. Sköpunarsinnar (og jábræður þeirra sem boða vitræna hönnun) staðhæfa að lífverur séu afurð sköpunar og sumir krefjast þess að sköpunarsaga biblíunar sé kennd samhliða þróunarkenningunni í líffræðiáföngum. Líffræðingar og aðrir vísindamenn sætta sig ekki við yfirnáttúrulegar skýringar á fyrirbærum heimsins. Og þeir vilja alls ekki að yfirnáttúrulegar sögusagnir séu kenndar í raungreinum, það væri rétt eins og að leyfa kennslu á hugmyndinni um "vitrænt fall" samhliða kenningum Newtons.
Sköpunarsinnar og aðrir hófsamari fylgismenn þeirra eru sterkur þrýstihópur, sem sækja fram á mörgum vígstöðvum. Þeir reyna að fá kennsluskrám breytt í mörgum fylkjum, sýslum og minni byggðarlögum. Þeir dæla út einblöðungum, ríkulega myndskreyttum áróðursritum, myndböndum og hljóðsnældum (dáldið eins og álvöru nýaldarsinnar!).
Þeir hafa ekkert til að standa á í fræðilegri umræðu, allar staðhæfingar þeirra hafa verið hraktar lið fyrir lið. Að auki falla þær allar á fyrsta þröskuldi, þeirra hugmyndir leyfa yfirnáttúrulegt inngrip í náttúruna, nokkuð sem vísindamenn hafa hafnað í 150 ár.
Barátta sköpunarsinnanna er ekki vísindaleg í eðli sínu, heldur samfélagsleg og e.t.v. pólitísk. Þetta er spurning um áhrif og "sálir", ekki sannleika eða framfarir. Markmiðið er ekki að sigra í fræðilegri umræðu, heldur slá ryki í augu fólks til að það haldi að einhver vafi sé á sannleiksgildi þróunarkenningarinnar (og þar með vonast þeir eftir því að allir komi hlaupandi í kirkjuna).
Ástæðan fyrir þessum pistli eru þau tíðindi að enginn dreifingaraðilli hafi fundist fyrir kvikmynd um æfi Darwins. Ástæðan er sögð vera sú að Bandaríkjamenn séu of viðkvæmir fyrir efninu. Ég myndi aldrei staðhæfa að þetta sé merki um ofsóknir gegn vísindunum, en undirstrika að slagurinn er ekki fræðilegur heldur pólitískur.
Ítarefni:
Kenningar Darwins þykja of eldfimar visir.is
Charles Darwin film 'too controversial for religious America' Anita Singh, Daily Telegraph.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Darwin og þróun | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Í mínum huga er undirrót bægslagangsins í sköpunarsinnum sú að þeir geta ekki sætt sig við að einhver hluti biblíunnar sé rangur. Það hefur, í þeirra huga, þau dómínó áhrif að þá verður hægt að véfengja allt annað sem í biblíunni stendur og slíkt leiðir aðeins til guðleysis, í þeirra huga. Þeir átta sig ekki á því að það er betra að horfa á biblíuna sem safn af dæmisögum, sumum fallegum og sumum afar ljótum, reyndar, í stað þess að reyna að gera hana að vísindariti.
Þessi sköpunarhreyfing er því bara n.k. sjálfsvarnarviðbragðs sem skynjar í undirmeðvitundinni að heimurinn er grundvallaður á vísindalegum grunni, skapaður sem slíkur og virkar sem slíkur. Það er engin guðleg forsjá eða yfirnáttúrulegt plan. Ég skil vel að þessu fólki skuli finnast þetta nöturlegt eftir að hafa verið alið upp í guðsótta alla sína tíð, en svona er þetta bara.
Takk kærlega fyrir góða grein. Ég mun sjá þessa mynd færi gefst, en það er til marks um forpokun Bandaríkjamanna í trúmálum að þessi myndin um Darwin skuli ekki fást sýnd jafn víða og raun ber vitni. Hins vegar ítreka ég það sem ég sagði áður að þetta fólk er bara hrætt við að mögulegt sé að það uppgötvi að guð þeirra er víðs fjarri heiminum og hefur alltaf verið. Í millitíðinni vona ég að sem flestir hafi horft á frábæran þátt sem Rúv sýndi í gær þar sem Sir David Attenborough fór yfir þróunarsöguna með afar skilmerkilegum hætti.
Óli Jón, 15.9.2009 kl. 09:50
Var einmitt að spá í að blogga um þetta í morgun :)
Reyndar kannski meira út frá "Teach the Controversy" slagorði sköpunarsinna og jafnvel fara aðeins inn á boðskap "Expelled" myndarinnar.
Ótrúleg rök að það sé ekki markaður fyrir myndina því aðeins 39% BNA manna samþykki þróunarkenninguna. Myndin er ekki um þróunarkenninguna sem slíka heldur líf Darwins (eftir því sem ég hef lesið amk.).
Með sömu rökum ætti að hætta að gefa út bækur/blöð/skrifað efni í BNA því
Sjá: Literacy in the United States
Arnar, 15.9.2009 kl. 10:11
Óli Jón
Takk fyrir innslagið, þú kafar í málið af miklu innsæi. Íslendingar voru einu sinni skilreindir sem mjög trúaðir, og sýna mikinn vilja til að gleypa nýaldarstefnur og hjávísindi af ýmsum toga. Samt höfum við ekki sama "sjálfsvarnarviðbragð" gagnvart þróunarkenningunni og bræður vorir vestan atlansála. Ástæðan hlýtur að vera samfélagsleg, þótt ég viti ekki nákvæmlega hvaða þættir skipta mestu máli.
Nafni
Væri meir en til í að lesa þína sýn á málið, vinsamlegast settu inn tengil hingað þegar þú hefur gengið frá pistlinum.
Arnar Pálsson, 15.9.2009 kl. 10:31
"Úbbs, nú verða þeir að vanda sig" hugsaði ég með mér í gær þegar Attenborough hóf þáttin um Darwin með því að skoða sköpunarsögu biblíunnar.
Og það gerðu þeir svo sannarlega
Haraldur Rafn Ingvason, 15.9.2009 kl. 10:48
Haraldur
Mér fannst efnistökin mjög góð hjá Davíð gamla. En samt er sérkennilegt að hvað mikla nærgætni fólk sýnir skoðunum sköpunarsinna. Ekki er tipplað í kringum þá sem afneita helförinni eða halda því fram að jörðin sé flöt.
Arnar Pálsson, 15.9.2009 kl. 11:37
Jæja, þykist aldrei láta undan félagslegum þrýstingi en hérna kom það: Teach the Controversy!
Arnar, 15.9.2009 kl. 13:37
Það þýðir ekkert að sýna þessum sköpunarsinnum linkind. Ég sé allavega ekki neina ástæðu fyrir því af hverju ég ætti að bera virðingu fyrir svona vitleysu eins og sköpunarsögunni eða Biblíunni í heild sinni ef út í það er farið. Ef maður fer að kynna sér þessi mál sést það skýrar og skýrar hvað þetta er rotið í gegn.
Svo neita sköpunarsinnar að viðurkenna áreiðanleika vísindanna og fara svo að horfa á sjónvarpið eða nota e-a aðra tækni byggða á vísindum. Margir þeirra væru ekki einu sinni á lífi ef ekki væri fyrir vísindin og hvernig þau eru notuð í heilbrigðisgeiranum.
Ég gæti haldið endalaust áfram
ARG!
Davíð Finnbogason (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 18:39
Ég hlustaði fyrir u.þ.b. 2 árum á þátt í útvarpi á Íslandi (FM 100, eitthvað) þar sem fjallað var í löngu máli um að þróunarkenningin væri vafasöm. Hann var fluttur á einhverri kristilegri útvarpsstöð og var langur. Uppistaðan í efninu virtist vera þýðing á erlendu efni þar sem tekin voru setningar úr samhengi hjá mörgum virtum vísindamönnum. Ég man að vitnað var í bæði Gould og Lewontin og gefið í skyn að þeir efuðust um þróunarkenninguna.
Þessi málflutningur er nær okkur en við höldum en hefur sennilega blessunarlega lítil áhrif.
Árni Davíðsson, 15.9.2009 kl. 22:50
Tæknilega séð er það alveg rétt hjá þeim, Gould td. efaðist um ákveðna hluti þróunarkenningarinnar. Þess vegna setti hann fram sína eigin kenningu um Punctuated Equilibrium, sem betrum bætti þróunarkenninguna í stað þess að kollvarpa henni.
Sköpunarsinnar skilja bara ekki hvernig vísindi, rannsóknir og vísindalegar kenningar virka og draga því allt úr samhengi.
Arnar, 16.9.2009 kl. 09:35
Davíð
Takk fyrir að deila blástrinum með okkur.
Árni og Arnar
Það að nota tilvitnanir úr samhengi er í besta falli ónákvæmt, og í versta falli lygar. Mér finnst alltaf jafn merkilegt að það sé verjanlegt að ljúga trúnni til dýrðar.
Það er mikilvægt að fólk skilji eðli vísinda og þekkingar, það ætti að hjálpa fólki í daglegum ákvörðunum (hvaða fæðu ætti ég að neyta, hverskonar lækningar að' leita, hvaða vímugjafa ætti ég ekki að nota...).
Arnar Pálsson, 16.9.2009 kl. 13:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.