22.9.2009 | 12:43
Meira um kvikmyndina um Darwin
Fyrir nokkru ræddum við um að kvikmyndin sköpun (creation) var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto. Kvikmyndin fjallar um dauða hinnar tíu ára gömlu Annie, og því hvernig foreldrar hennar takast á við sorgina sem fylgir barnsmissinum. Foreldrarnir voru Emma og Charles Darwin, og tekur myndin þá einnig á innri togstreitu Darwins, sem var á þessum árum að móta kenningu sína um þróun tegundanna. Einnig vöktum við athygli á því að kvikmyndin hafði þá ekki fengið dreifingaraðilla í Bandaríkjunum.
Nýliðin laugardag, 19 september 2009, birti Fréttablaðið síðan ítarlega umfjöllun eftir Sigríði Björgu Tómasdóttur um þetta mál og stöðu þróunarkenningarinnar. Fyrirsögn greinarinnar var Charles Darwin á hvíta tjaldinu. Hér birtast valdar setningar úr greininni sem einnig má nálgast í heild sinni á vef Fréttablaðsins.
Andstaða bókstafstrúarmanna
Ekki er að undra að meginefni Creation sé mannlegt eðli, missir og sorg. Slíkt er umfjöllunarefni ótal kvikmynda og flestar myndir á borð við Creation myndu fá dreifingu í Bandaríkjunum skyldi maður halda. En sterk staða bókstafstrúarmanna þar í landi gerir það að verkum að myndin mætir andstöðu. "Andstaðan við þróunarkenninguna er stórt og mikið mál í Bandaríkjunum og á sér langa sögu," segir Einar Árnason, prófessor í líffræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í þróunarkenningunni. Gott dæmi um andstöðuna eru fræg réttarhöld sem kennd eru við kennarann John Scobes, sem var árið 1925 dæmdur fyrir að kenna þróunarkenninguna í skóla í Tennessee, á þeirri forsendu að hún stangaðist á við lög ríkisins. Í þeim var kveðið á um að ekki mætti kenna neitt í skólum ríkisins sem hafnaði guðlegri sköpun mannsins. Málið var reyndar síðar fellt niður vegna formgalla.
Andstæðingar þróunarkenningar eru oft nefndir sköpunarsinnar (creationists) vegna þess að þeir trúa að guð hafi skapað heiminn í þeirri mynd sem við þekkjum hann. Að sögn Einars er annarri hugmynd þó frekar haldið á lofti af bókstafstrúuðum um þessar mundir, svokallaðri hönnunarkenningu, "intellectual design". "Sú hugmynd er í raun sköpunarhyggja í nýju formi, hún gengur út á að það hljóti að vera hönnuður að eiginleikum lífvera, þeir séu einfaldlega of fullkomnir til þess að hafa þróast með blindu náttúrulegu vali." Augu séu gjarnan tekin sem dæmi um þetta, þau séu svo fullkomin. Einar bendir hins vegar á að þetta standist ekki vísindalega skoðun, hægt sé að finna ótal millistig líffærisins auga.
Ég verð að segja það Sigríði til hróss að greinin er hin læsilegasta og fellur ekki þá póstmódernísku gryfju að gefa óvísindalegum útskýringum á tilurð lífvera undir fótinn, eins og oft vill verða. Eina ónákvæmnin í umfjölluninni varðar útskýringartexta sem staðfærður var af vefsíðunni darwin.hi.is. Við höfum umsjón með þeirri síðu, og við nánari athugun kom í ljós að orðalag okkar var óskýrt.
Fyrst var rætt um breytileika, erfðir og mishraða æxlun og síðan sagði að:
Fyrst auðlindir eru takmarkaðar og samkeppni á milli lífvera óumflýjanleg leiða þessar staðreyndir til náttúrulegs vals.
Réttara er að segja að samkeppnin sé á milli einstaklinga sömu tegundar. Upprunalega setningin er óskýr, og mætti skilja hana sem að samkeppni milli tegunda sé drifkraftur náttúrulegs vals. Við vitum að samkeppni innan tegundar er grundvallarforsenda náttúrulegs vals. Réttara væri:
Fyrst auðlindir eru takmarkaðar og samkeppni á milli einstaklinga innan tegundar óumflýjanleg leiða þessar staðreyndir til náttúrulegs vals.
Eftir allar leiðréttingarnar og athugasemdirnar er ágætis tilbreyting að leiðrétta sjálfan sig.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 7.10.2009 kl. 09:46 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.