2.10.2009 | 13:37
Forfaðir eða frænka
Nýrri tegund mannapa er lýst í Science vikunnar.
Ardipithecus ramidus var samkvæmt aldursgreiningu uppi fyrir um 4.4 milljónum ára, og svipar henni sterklega til leifa forfeðra nútímamannsins. Til viðmiðunar er talið að menn og simpansar hafi aðskilist fyrir um 6 milljónum ára.
Talið er að Ardi, eins og beinagrindin er kölluð, sé nær því að vera forfaðir mannsins en ættingi. Þróunartréð er þess eðlis að beinir forfeður einhverra tegundar, eins og okkar, eru mjög fáir. Eins og þegar maður rekur sig eftir stofni trés frá einu laufblaði niður í rót, eru margar aðrar greinar og bolir sem eru þá ekki af sama "meiði". Fyrir ættartré mannapa teljast tegundir þá þeim greinum frændur frekar en beinir forfeður.
Charles Darwin og Alfred Wallace settu fyrstir fram hugmyndina um þróun vegna náttúrulegs vals. Hin aðal hugmynd þróunarkenningarinnar er að allar tegundir á jörðinni eru skyldar, að þær raði sér í þróunartré. Hægt er að prófa tilgátur um skyldleika tegunda, t.d. var prófað hvaða tegundum Ardi líkist mest. Þannig var hægt að hafna því að Ardi hafi verið górilla, Homo sapiens, simpansi eða Neanderthalsmaður. Það er hins vegar ekki hægt að hafna því að Ardi sé skyld manninum, og jafnvel að hún sé forfaðir okkar.
Í tilefni afmælis Darwin verður haldin röð fyrirlestra um þróun og fjölbreytileika lífsins. Á morgun verður t.d. fyrirlestur um uppruna lífsins (kl 13:00 í náttúrufræðihúsi HÍ).
Að síðustu er mikilvægt að muna á öld sístreymis upplýsinga að rannsóknir taka tíma. Leifar Ardi fundust fyrir um 15 árum, og síðan þá hafa margir hópar unnið að rannsóknum á eiginleikum beinanna og borið saman við aðrar niðurstöður. Greinarnar um Ardi sem birtast í Science vikunnar eru 11 talsins.
Ítarefni:
Sérsíða Science um Ardipithecus ramidus 2 október 2009.
Grein Ian Sample í the Guardian Fossil Ardi reveals the first steps of the human race
Carl Zimmer reynir að kynnast Ardi: Ardipithecus: We Meet At Last
4,4 milljóna ára bein varpa nýju ljósi á þróun mannsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:40 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Bíð spenntur eftir því að Mófi finni einhverja grein á AiG sem hann getur þýtt og 'debunkað' þetta.
Arnar, 2.10.2009 kl. 13:43
Afneitun kemur í mörgum myndum. Sumir afneita þeirri óumdeilanlegu niðurstöðu að mennirnir eru apar, og að okkar nánasti núlifandi ættingi sé simpansi, aðrir hanga í sérkennilegri skilgreiningu á orku, á meðan ég neita að trúa því að blogg sé af hinu illa.
Arnar Pálsson, 2.10.2009 kl. 15:20
Yes, hann er byrjaður.. svo fyrir sjánlegt. Verst að ég get ekki svarað ruglinu í honum.
Mófi birtir mynd af einhverjum fimm beinum og segir að Arda sé sett saman úr þeim.. restinn sé skálduð upp. Samkvæmt greininin hjá Zimmers fundu þeir 110 bein. Mannslíkaminn hefur hvað, 206? Sem er svoldið skondið því hann birtir líka mynd af forsíðu Science, þar sem mér sýnist öll beinin koma fram.
Arnar, 2.10.2009 kl. 15:58
Blandaði mér aðeins í málið á síðunni hjá honum. Það sem gerir út af við kenninguna um vitsmunalega hönnun í mínum huga er að við skulum ekki hafa þrjár hendur. Alveg vonlaust fyrirkomulag í standandi boðum - ekkert smá glötuð hönnun...
Haraldur Rafn Ingvason, 2.10.2009 kl. 18:25
Skelfilegt að fólk dettur í hug að trúa að við séum komin af öpum. Guð skapaði okkur í sinn eigin mynd.
Kristján (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 18:29
Sæll Addi minn og gaman að sjá þig reka inn nefið hjá mér. Ég hef fylgst með þér hérna mér til ánægju en aldrei haft ástæðu til að grípa frammí. Datt þó í hug að þú gætir haft gaman af færslu dagsins um Ignóbelverðlaunaafhendingar gærkvöldsins og ákvað því að hnippa í þig af því tilefni.
Bestu kveðjur :)
Hjörvar Pétursson (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 21:44
Menn eru komnir af köttum, sumir af hundum og enn aðrir af svínum. Ekki get ég útilokað að þorskar séu áar annarra, jafnvel gæsir eða hross. Ég þekki eina konu, hún er komin af nöðrum.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 3.10.2009 kl. 10:51
Hef ekki eytt tíma í að elta rangfærslur Mofa, því þær virðast spretta upp óhaggaðar þótt hraktar séu.
Haraldur
Ég var smá tíma að fatta þetta með "standandi boðin", líklega af því að ég er ekki boðinn í finni koktælarateiti bæjarins. Taktu mig með næst.
Kristján
Þessi skelfing er afleiðing þeirrar illu vísindalegu hugsunar að byggja þekkingu á prófanlegum tilgátum, mælanlegum fyrirbærum og gagnrýnni hugsun. Aðrar skelfilegar aukaverkanir þessarar fásinnu eru sýklalyf, gerilsneyðing og raftæki.
Hjörvar
Þetta var óvænt ánægja. Ig nóbelinn er alger snilld. Takk fyrir að benda á spínatið, hinn lúmski grunur er loksins næstum því staðfestur.
Vilhjálmur
Takk fyrir ljóðrænt innslag. Ég skil ekki hví engar ættir eru raktar til plöntu, frumdýra og gerlaríkisins. Margir hlutabréfa miðlaðarar hegðuðu sér líkt og amaba á lífrænum leysiefnum, og greind sumra pólitíkusa er á við hreðku.
Arnar Pálsson, 4.10.2009 kl. 14:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.