5.10.2009 | 11:33
CCCCAA
Sex basar í röð, CCCCAA, endurteknir aftur og aftur vernda litninga frumdýrsins Tetrahymena. Endurtekningar þessarar raðar CCCCAA er það sem kallað er telómerar (þýtt oddhulsa af Magnúsi Jóhansssyni).
Litningar heilkjörnunga eru línulegir, á meðan litningar dreifkjörnunga eru flestir hringlaga. Það fylgir því ákveðið vandamál að vera á línulegu formi. Sjá mynd neðst.
Litningaendar eru forvitnilegt fyrirbæri og þeir koma til með að styttast ef erfðaefnið er eftirmyndað á venjulegan hátt. Slíkt er auðvitað vandamál því lífverur eru alltaf að eftirmynda sig, búa til kynfrumur og einnig skipta frumur í hverjum líkama sér oft og mörgum sinnum. Ef litningaendarnir styttast of mikið geta mikilvæg gen skaddast eða hreinlega horfið.
Elisabeth Blackburn og samstarfsmenn uppgötvuðu [...] telomerasa sem viðheldur litningaendum. Telomerasi er flóki RNA og prótíns og er nauðsynlegt til að viðhalda erfðamengi kynfruma, en það er sjaldan tjáð í venjulegum frumum líkama okkar. Skortur á virkni þess er talin vera ein ástæða þess að frumur eldast og deyja. En ef virkni þess er of mikil geta frumur orðið ódauðlegar [...]. Ódaulegir frumustofnar eru vandamál, því þeir geta vaxið taumlaust, myndað æxli og meinvörp með afdrifaríkum afleiðingum.
Úr eldri pistli með nokkrum breytingum (viðbót skáletruð, úr felldur texti [...]).
Mikilvægt er að átta sig á að telomerarnir vernda endana á litningunum.
Engir vísindamenn eru eylönd. Allir þurfa að vinna með einhverjum (yfirmanni, nemanda, samstarfsmönnum). Nafn Elisabeth Blackburn er samt órjúfanlega tengt telómerum, því hún gerði fyrstu lykiltilraunirnar og leiddi rannsóknirnar.
Þau sem deila verðlaununum með Elísabetu eru Carol Greider og Jack Szostak. Jack vann við rannsóknir á gervilitningum í sveppum, og komst að því að þeir styttust alltaf. Honum og Elísabetu tókst að skeyta telómeraröðum á gervilitningana og gera þá stöðugri. Það sem er stórkostlegt við þessa rannsókn er að telómeraraðirnar komu úr fjarskyldri lífveru, frumdýrinu Tetrahymena. Þessir einföldu DNA bútar "störfuðu" eðliega í sveppnum. Carol Greider var framhaldsnemi hjá frú Blackburn og tók þátt í að einangra RNA-ensímflókann telómerasa auk þess sýndi hún síðar fram á að hægt væri að hægja á öldrun fruma í rækt með því að auka framleiðslu á þessum flóka.
Það er óvíst hvort að hægt sé að nota slíka virkni til að draga úr öldrun hjá fólki (sjá umræðu hér).
Það sem er einnig forvitnilegt er að mörg ensímin sem endurmynda litningaendana eru vel varðveitt milli tegunda, en DNA röðin sjálf getur verið mismunandi. Mest sláandi dæmi um þetta eru ávaxtaflugur, sem hafa misst kenniröðina og nota hluta af eigingjörnum hoppandi genum (stökklum) í staðinn.
Ítarefni og athugasemdir.
Þýðingin oddhulsa virðist vera komin af vísindavefnum, úr svari Magnúsar Jóhannssonar við spurningunni, hvað er telómerasi og hver eru áhrif hans á öldrun?
Þaðan virðist einn hafa misritast orðið ensým, algengara er ensím. Um er að ræða prótín sem hefur ákveðna hvötunarvirkni. Það er einföldun því telómerasinn inniheldur bæði RNA og prótín.
Fréttatilkynning Nóbelsnefndarinnar.
Frétt BBC.
(Mynd úr Genomes eftir T. A. BROWN, af heimasíðu heilbrigðistofnunar Bandaríkjanna. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/books/bookres.fcgi/genomes/ch13f24.gif)
Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir á litningum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:24 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Ég held oft að ég sé með nokkra svona litninga. Verð ávallt yngri og yngri. Sex basar, segir þú?
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.10.2009 kl. 14:54
Endurteknir aftur og aftur
CCCCAACCCCAACCCCAA og svo framvegis
Arnar Pálsson, 5.10.2009 kl. 15:53
Þetta kemur allt heim og saman. Konan mín segir, að ég sé líka farinn að endurtaka mig.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.10.2009 kl. 21:19
Svar mitt hlýtur að vera
CCCCAACCCCAACCCCAA
Það verður að viðurkennast að DNA grín er frekar einfallt.
Arnar Pálsson, 7.10.2009 kl. 13:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.