Leita í fréttum mbl.is

Merkilegustu korn

Ríbósómin eru ein ótrúlegustu fyrirbæri sem finnast í frumum. Þau eru samsett úr tveimur ögnum, sem eru aftur samsettar úr nokkrum RNA sameindum og fjölda prótína. Þau eru prótínverksmiður frumunar, og eru sem slíkar lífsnauðsynlegar. Ótrúlega mikill hluti orku og hráefna frumunnar fer í að mynda og viðhalda ríbósómum. Af heildarmagni RNA í frumum eru rRNA sameindirnar (sem mynda ríbósómin) um helmingur.

Það er einnig merkilegt að RNA sameindirnar í ríbósómum gegna hvötunarvirkni, eiginleika sem í lífverum er nær eingöngu bundinn við prótín. Það er vísbending um að snemma í sögu lífsins hafi RNA verið ríkjandi sameind. Eins og Guðmundur Eggertsson rakti í erindi sínu á laugardaginn og í bók sinni, þá er líklegt að RNA hafi komið snemma fram á sjónarsviðið, en síðan hafi prótínmyndun og DNA fylgt í kjölfarið. 

Ríbósómin eru elsta, flóknasta og nákvæmasta örtæknivél jarðarinnar.

Mér finnst ákaflega gaman að bæði nóbelsverðlaunin í ár fari til fólks sem hefur rannsakað prótín-RNA flóka. Blackburn,  Greider og Szostak fengu á mánudaginn verðlaunin í læknisfræði fyrir rannsóknir sínar á litningaendum og telómerasa.

Ég veit ekki hvernig efnafræðingarnir bregðast við þessum tíðindum. Í fyrra voru efnafræðiverðlaunin veitt fyrir GFP og núna fyrir ríbósómin, sem hvorutveggja liggja á mörkum lífefnafræði og líffræði. Það hlýtur að vera fullt af framúrskarandi efnafræðirannsóknum. Ástæðan fyrir þessum úthlutunum er að hluta til sú að nóbelsverðlaunin eru bara veitt fyrir ákveðnar fræðigreinar, t.d. eru engin verðlaun ekki í líffræði, jarðfræði eða umhverfisfræði. Það er ágætt að rifja upp að hagfræðiverðlaunin voru seinni tíma viðbót bankamanna í skandinavíu.

Ítarefni

Sjá fréttatilkynningu Nóbelsnefndarinnar.

Svar Sigríðar H. Þorbjarnardóttur á vísindavefnum við spurningunni, hvernig myndast prótín í líkamanum?

Svar Guðmundar Eggertssonar á vísindavefnum við spurningunni, hvernig varð fyrsta genið til? Hefði það getað komið utan úr geimnum?


mbl.is Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir á ríbósómum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, skrýtið með að bæði verðlaunin fara í lífefnafræði. Spurning hver sé munurinn á læknisfræði og efnafræði verðlaununum ef þetta er svona.

Björn (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 21:08

2 identicon

Svíarnir hljóta að velta því alvarlega fyrir sér að bæta við líffræðiverðlaunum. Reyndar er ekki alltaf ljóst hvar skilin liggja á milli fræðigreina en þessi verðlaun í ár eru augljóslega ekki beint fyrir hefðbundna efnafræði.

Gleður mig sem líffræðing að sjá sameindalíffræðina hirða þetta ár eftir ár, bæði efnafræðina og læknisfræði, en spurning hvort að þeir í klassískri efnafræði finnast þeir ekki hafa verið rændir sínum verðlaunum. 

Lárus Viðar Lárusson (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband